Samvinnulög
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því út af fyrir sig að þessi nefnd sem vinnur að endurskoðun samvinnulöggjafarinnar hafði lokið störfum í septembermánuði. Ég minnist þess að þegar um málið var rætt á síðasta þingi var hugmynd uppi um að þessi nefnd, væntanlega þá, mundi ljúka störfum kannski á miðju sumri og þingflokkarnir fengju málið til umfjöllunar og haft þá möguleika á að taka það til afgreiðslu strax á haustþingi. Það hefur orðið einhver dráttur þarna á og ber að harma það út af fyrir sig en það skiptir ekki meginmáli úr því sem komið er hvort slík endurskoðun eða slík ný löggjöf kemst á mánuðinum fyrr eða síðar.
    Það er hins vegar alveg ljóst að þarna hefur verið alveg óskiljanleg tregða í áratugi. Ég hef a.m.k. tvívegis flutt tillögur um endurskoðun samvinnufélagalöggjafar. Sérstaklega í sambandi við nýja löggjöf um hlutafélög sem sett var 1978 átti auðvitað að endurskoða samvinnufélagalögin í sömu andránni. Um þetta hef ég raunar rætt og ritað í áratugi að megingallinn á samvinnufélögunum væri einmitt þessi gamla ófullkomna löggjöf. Nú er sem betur fer verið að endurskoða þessa löggjöf og væntanlega þá til að bæta hag samvinnufélaga sem í eðli sínu eru auðvitað nátengd almenningshlutafélögum sem ég hef barist fyrir um nokkurt skeið. En ég ætla ekki að fárast um það sem liðið er. Ekki veldur sá sem varar og ég tel mig hafa bent á það um langt skeið að samvinnufélagalöggjöfinni yrði að breyta og þeim starfsháttum sem þar hafa ríkt.
    Nú hillir undir þetta og því fagna ég með flm. og öðrum þeim sem vilja heilbrigða hlutafélaga - og samvinnufélagalöggjöf í þessu landi. Það hefur raunar á þessari öld venjulega fylgst að að skoða samvinnufélagalög og hlutafélagalög, enda eru þau auðvitað skyld félagsform en henta ekki nákvæmlega eins í öllum rekstri heldur þarf einmitt að vera fjölbreytni í því sem nú er að stefnt.