Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessa tillögu. Það er ákaflega mikil óánægja úti á landsbyggðinni yfir þeim breytingum sem hafa orðið á þessum málum, að ákvarðanatakan er að mestu leyti færð til höfuðstaðarins, öfugt við það sem stjórnmálamenn yfirleitt og ekki síður ríkisstjórn hefur talið að þyrfti að stefna að. Það er ekki nóg að segja að menn ætli að ganga tvö, þrjú spor áfram ef þeir fara átta aftur á bak. En það er svo í þessu máli. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, vonast aðeins til að félmn. sameinaðs Alþingis taki þetta mál til meðferðar með opnum huga og hafi samband við þá sem eru í forsvari fyrir heilbrigðisþjónustuna úti á landi.