Lágmarksframfærslukostnaður
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu hefur verið flutt á fyrri þingum eins og fram hefur komið og verið til athugunar í félmn. þar sem ég á sæti. Það hefur verið fullur vilji til þess í nefndinni að fara ofan í þetta mál. Leitað hefur verið umsagna um þessa tillögu. Það hafa hins vegar ekki fengist þær undirtektir við málið að nefndin hafi orðið sammála um afgreiðslu þess. Þannig lauk athugun málsins á síðasta þingi. Meginástæðurnar fyrir þessu eru þær að undirtektir þeirra stofnana sem helst er vísað til eru afar dræmar um að hægt verði með marktækum hætti að gera þessa könnun á lágmarksframfærslukostnaði miðað við þá forsögn sem veitt er í tillögunni.
    Nú er það auðvitað alltaf matsatriði hvað hægt er að komast nærri hinu rétta í þessum efnum. En auðvitað blasir það við að hér eru mjög stór matsatriði á ferðinni þegar um er að ræða kostnað. Menn þekkja það auðvitað t.d. úr útreikningi framfærsluvísitalna og öðru þess háttar þar sem menn hafa þó haft viðmiðanir og vissulega er hægt að setja þær, gefa sér forsendur. En hvort þær leiða svo til niðurstöðu sem að gagni má verða er síðan önnur saga.
    Ég skil afar vel þá hugsun sem liggur að baki þessari tillögu og ég tel það vera mjög gagnlegt ef hægt væri að fara nærri um það hvað teldist lágmarksframfærslukostnaður miðað við engan óhófslifnað, miðað við eðlilega neyslu og umsvif hjá einstaklingi. Og ég er alveg reiðubúinn að líta frekar á þetta mál í nefnd svo sem skylt er, þangað sem málið fer, væntanlega til félmn. Sþ. og kanna möguleika á því að ná landi varðandi meðferð málsins. Það getur hins vegar leitt til þess að það þurfi að veita nokkuð aðra forsögn í tillögunni sjálfri, eitthvað ákveðnari forsögn en þar kemur fram. Geri ég ráð fyrir að það sé hv. flm. að meinalausu að einhverjar breytingar verði þar á gerðar.
    Ég bendi á það t.d. sem segir hér í tillögutexta sem á að sýna lágmarksframfærslukostnað: ,,Skal greinargerðin miðast við framfærslu í eitt ár á verðlagi í desember 1989. Skal miðað við að maðurinn geti veitt sér hollt og næringarríkt fæði og búið í húsnæði sem ekki spillir heilsu hans ....`` Þarna verða menn auðvitað að gefa sér viðmiðanir ef það á að vera hægt að reikna út stærðir og tilkostnað. Og það er m.a. þetta sem Hagstofunni eða þeim sem veitt hafa umsögn fyrir hennar hönd hefur þótt vera dálítið átaksillt.
    Þarna er einnig talað um að kanna og gera greinargerð um lágmarksframleiðslukostnað barns sem sýni sundurliðaðan framfærslukostnað fyrir hvert barn frá fæðingu til fullnaðs átján ára aldurs þess. Það er talsvert viðamikið verkefni sem þarna er beðið um og álitamálin vafalaust allmörg í sambandi við það.
    Ég vil hins vegar ekki vera hér með úrtölur varðandi þau markmið sem flm. ætlar sér með tillögunni því ég er þeim í rauninni samþykkur og er mjög reiðubúinn að láta vinna frekar að þessu máli eftir að það kemur til nefndar. Mig minnir að í umsögn frá Hagstofunni hafi verið vísað til þess að það væri yfirstandandi könnun, neyslukönnun má ég segja, sem gæti kannski gefið vísbendingar sem gætu gagnast við framhaldsathuganir. Ég hef því miður ekki umsögnina sem nefndinni barst í fyrra hér fyrir framan mig. Ég bauð flm. að kynna sér þær umsagnir sem nefndin fékk til að líta á sér til glöggvunar varðandi málið. En þetta var má ég segja eitt af því sem fram kom og sjálfsagt er að athuga hvar það mál er nú statt ef það mætti verða til þess að leiðbeina mönnum um frekari vinnslu til þess að færast í fang þær athuganir sem hér er verið að gera tillögu um.
    Athuganir eru vissulega oft góð undirstaða en hér reynir síðan á pólitískt mat í sambandi við hvað sé fullnægjandi í þessum efnum og þar leysa menn auðvitað ekki af hólmi þau átök í þjóðfélaginu sem fara fram um skiptingu á þjóðartekjunum. En það er alltaf gott að hafa viðmiðanir og þetta hefur oft verið reynt í öðrum löndum og hví skyldum við ekki keppa að því að fá þannig siglingaljós í sambandi við framfærslu.