Lágmarksframfærslukostnaður
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Flm. (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa hér tekið til máls og lýst því yfir að þeir væru tillögunni samþykkir. Ég vil líka sérstaklega þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir að segja okkur hér og nú hvernig umfjöllun hefur farið fram í félmn. Sþ. um þetta mál.
    Í sjálfu sér skil ég löggjafarsamkomuna þannig að við eigum að gera okkar tillögur og ganga frá þeim eftir bestu samvisku en ekki að láta Hagstofuna eða embættismannakerfið ráða því hvort við samþykkjum lög eða þingsályktanir í þessu eða öðru formi. Það sem fyrir mér vakir er auðvitað það að Hagstofan meti þetta á eðlilegan hátt, en það geti kannski verið bent á fleiri leiðir, fleiri nöfn. Þess vegna vildi ég ekki setja neinar ákveðnar forsendur fyrir hverjum hlut. Ef ég hefði það á hreinu þá geri ég ráð fyrir að ég gæti gert þetta að verulegu leyti sjálfur með mikilli vinnu. En ég viðurkenni að ég hef ekki vit á því hvað er rétt, t.d. um stærð húsnæðis o.s.frv.
    Það hlýtur að ýta við manni þegar maður sér það víða að einstaklingar sem eru með eitt eða tvö börn geta ekki veitt sér, að mínu mati, að kaupa í matinn hollan og góðan mat. Hvað er að í þessu þjóðfélagi? Á sama tíma er verið að bjóða út skuldabréf í hinum og öðrum fyrirtækjum og þar keppast menn um að ná þessum gullpappírum. Þeir eru nú kannski ekki allir gull, en menn halda það. Þeir hljóta að hafa nógan framfærslueyri.
    Ég mun auðvitað ekki fara að ræða mikið um það þó einhverju yrði breytt í þessari tillögu, það hefur nú alltaf verið gert í sjálfu sér. En ég áskil mér rétt til að fá rök fyrir þeim breytingum sem kunna að verða gerðar í nefndinni vegna þess að ég vil láta kanna þetta mál undanbragðalaust. Og ég vil fá rök fyrir breytingum á tillögu og fyrir þeirri vinnu sem yrði í þetta lögð ef þingið mannar sig upp í að samþykkja hana. Ég segi mannar sig, því það er svívirðilegt hvernig er ástatt hjá sumu fólki og ekki síst nú þegar menn vinna á strípuðum töxtum margir hverjir en það eru oft þeir sem eru verst settir.
    En það er ekki ástæða til fyrir mig að ræða þetta lengur hér og nú. Ég mun kannski gera það betur þegar ég flyt frv. um lágmarkslaun.