Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Alexander Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Það þarf að endurtaka sig nú eins og oft áður að 1. umr. fjárlaga vekur ekki mikla athygli hjá hv. þm. því að það má telja þá á annarri hendi sem sýna þessu áhuga.
    Ég vil hefja mál mitt með því að fagna þeim árangri sem náðst hefur í efnahagsmálum undir forustu núverandi ríkisstjórnar. Um það held ég að þurfi ekki að vera að skattyrðast hér á hv. Alþingi. Verðbólgan hefur verið kveðin niður og er nú jafnvel lægri en í löndum sem við viljum gjarnan miða okkur við. Þjóðarsáttin tókst, þar sem aðilar vinnumarkaðarins tóku höndum saman af fullri ábyrgð um að standa vörð um þennan árangur sem er undirstaða þess að Íslendingar geti búið við öryggi í þessu landi. Þess vegna er nú þýðingarmest að Alþingi standi fast með opinberum aðgerðum sem treysta efnahagsaðgerðir og þar eru það fjárlög og lánsfjárlög fyrir næsta ár sem skipta sköpum og við þurfum að ákveða hér nú á þessu þingi.
    Þótt hæstv. fjmrh. hafi litað mál sitt um of pólitísku ívafi sem er óvenjulegt við 1. umr. fjárlaga þá tek ég undir með hæstv. fjmrh. að fjárlagafrv. fyrir árið 1991 er ætlað að innsigla efnahagsárangur síðustu tveggja ára og stuðla að jafnvægi og stöðugleika í íslensku hagkerfi. Þetta verður ekki hrakið. Aðhaldi að útgjöldum, kerfisbreytingum verður haldið áfram, halli ríkissjóðs lækkar og lánsfjárþörf verður mætt innan lands, en erlendri lántöku hætt til fjárþarfar ríkisins. Þetta eru meginatriði sem skipta sköpum og það er hægt að treysta þennan árangur að mínu mati og að þessi áform náist fram ef vilji er fyrir hendi og jákvæð viðhorf til þess sem er
landi okkar og þjóð fyrir bestu. Það þarf heldur ekki að rekja það hvernig staða atvinnuveganna hér á landi hefur batnað og hvernig aðstaða fólks, almennings í landinu, hefur einnig batnað við þessi umskipti.
    Ég hlýt að fagna því einnig sérstaklega að árangur umbóta í fjármálastjórn ríkisins kemur nú greinilega í ljós í gegnum þetta fjárlagafrv. Útgjaldaeftirlit hefur verið stórbætt, aukafjárveitingar eru úr sögunni og fjáraukalög fylgja nú fjárlögum. Stjórnkerfi ríkisstofnana er að verða virkara og þær kerfisbreytingar sem eru í þessu frv. miða í rétta átt að mínu mati þó að þær rugli að sjálfsögðu að verulegu leyti samanburð milli ára miðað við það sem áður hefur verið sett fram.
    Ég vil einnig minna á það að efnahagsnefnd Framsfl. lagði fram róttækar tillögur um ríkisfjármál á síðasta þingi og einnig þáltill. á þskj. 386 sl. ár sem varð þó ekki fullrædd hér á hinu hv. Alþingi. Þessar efnahagstillögur voru samþykktar í aðalatriðum á miðstjórnarfundi flokksins 1989. Flestar þessar tillögur koma fram í grg. fjárlagafrv. sem ákvörðun fjmrn. og fjmrh. og Hagsýslunnar. Ég vil einnig minna hv. alþm. á skilmerkilega grein hagsýslustjóra og núverandi ráðuneytisstjóra fjmrn., Magnúsar Péturssonar, sem birtist í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu. Þar kemst hann að sömu niðurstöðu um þörf kerfisbreytinga á ríkisfjármálum og gerir raunar mjög ítarlega úttekt í skýru máli um þessi mál. Fjmrh. gerði margar þessar tillögur að sínum í umræðum hér á hv. Alþingi sl. vor í umræðum um frv. fjvn. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Það frv., sem öll fjvn. stóð að, varð ekki útrætt á síðasta þingi. Það markar tímamót í umræðum um þennan mikilvæga þátt í efnahagsmálum og ég tel miður að Alþingi skuli ekki enn vilja ræða í alvöru skipulagsbreytingu sem þarf til að skapa festu í meðferð ríkisfjármála til lengri tíma. Það hlýtur að gerast áður en langur tími líði og ég tel að sú viðleitni sem fjmrn. og fjmrh. hafa sýnt í þessu fjárlagafrv. sé vissulega spor í rétta átt. Aðhald og eftirlit með fjárlögum og opinberum framkvæmdum yfirstandandi árs hefur aldrei verið meira og árangur hefur heldur aldrei verið eins sýnilegur og kemur fram nú.
    Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, og raunar hæstv. forsrh. einnig, sem því miður er ekki hér viðstaddur, að það getur ekki verið eðlilegt að afstaða fjvn., sem skipuð er fulltrúum allra flokka á hv. Alþingi, sé ekki tekin til greina með því að taka undir það frv. sem frestað var afgreiðslu á á sl. vori. Ég vænti þess að ríkisstjórnin sjái að sér í þeim málum og flytji hér inn á Alþingi lagabreytingu að því er þetta varðar. Öðruvísi nær þetta mál ekki fram. Jafnvel þó fjármálaráðherra eftir fjármálaráðherra setji slíkt fram í fjárlagaræðu eða í athugasemdum fjárlaga þá nægir það ekki. Það þarf að taka á þessu máli á lagalegan hátt og ég treysti því að það verði staðið við þau fyrirheit sem gefin voru þegar þessu máli var frestað í lok síðasta þings.
    Það kemur fram í þessu frv. að sjálfstæði opinberra stofnana er aukið og þar með ábyrgð þeirra. Ég nefni t.d. Háskóla Íslands. Þar er gerð tillaga um miklar breytingar en yfirráð Háskólans eru tryggð um þá tekjustofna sem hann hefur, þeir eru ekki skertir. Þessu þarf að halda áfram og láta ná til fleiri opinberra stofnana.
    Virðulegi forseti. Það var ekki meining mín að ræða fjárlagafrv. ítarlega hér við 1. umr. enda á ég sæti í fjvn. þar sem efnisleg yfirferð og umræða fer nú fram. Mun ég geyma mér til 2. umr. ýmis mál sem ég tel mikilvægt að ræða eða breytinga sé þörf sem ég ætlast til að fjvn. fari vandlega yfir og jafnvel geri brtt. um. Ég vil aðeins nefna hér örfá atriði við þessa umræðu. Ég vil þó, áður en ég kem að því, vekja athygli á einu góðu atriði sem fram kemur í athugasemdum fjárlagafrv. Þar á ég við innlendan sparnað. Það kemur fram í athugasemdum að í árslok 1989 var stofn peningalegs sparnaðar á lánamarkaðinum kominn yfir 300 milljarða króna. Þar af var svokallaður kerfisbundinn sparnaður um 165 milljarðar en þar er fyrst og fremst um að ræða eignir lífeyrissjóðanna. Það hefur einnig komið hér fram að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á næsta ári muni verða mjög aukið eða jafnvel 25 -- 30 milljarðar króna. Samkvæmt áætlun Seðlabanka er talið að innlendur sparnaður aukist um 35 milljarða á árinu sem er að líða og 38 milljarða króna á því næsta. Hér er því um mikla breytingu að ræða. Þegar borið er saman við eldri tíma, sem við gerum gjarnan, þá kemur í ljós að í árslok 1989 var

heildarsparnaður kominn í 94% af landsframleiðslu og í lok þessa árs er áætlað að sparnaður verði orðinn meiri en sem nemur landsframleiðslu ársins, eða 104%. Þetta er merkilegt mál í sjálfu sér þegar við erum að ræða um uppbyggingu hér á landi og ég tel að sá mikli sparnaður sem blasir nú við, hverjum sem hann er að þakka, við skulum láta það liggja milli hluta, sé undirstaða framfara í þjóðfélaginu og hann er jákvæður fyrir framvindu okkar mála. Það má kalla þetta nokkurs konar bjartsýnisviðhorf í öllu tali um efnahagsmál. Ég tel að þetta sé það mikið atriði að Alþingi eigi að gefa því gaum og ég saknaði þess raunar í ræðu hæstv. fjmrh., eða það hefur kannski farið fram hjá mér, en ég tel að það þurfi að vekja sífellt meiri athygli á þessu því sparnaður í þjóðfélaginu er það sem leggur grunninn að því sem við þurfum að gera. Þess vegna vildi ég taka það hér upp um leið og ég fer lauslega yfir þessi mál.
    Virðisaukaskatturinn sem var umdeildur á sínum tíma virðist ætla að skila sér vel til innheimtu. Í ár mun hann gefa um 1,5 til 2 milljarða umfram það sem áætlað var. Ég held að þess vegna sé ljóst að það þurfi að átta sig vel á því hvernig við stöndum að virðisaukaskattinum næstu ár. Ég verð að segja það fyrir mig að ég er óánægður með eitt í framkvæmdinni. Um leið og gildistaka hans var endanlega ákveðin hér á Alþingi var ákveðið að skipuð yrði milliþinganefnd til þess að skoða áhrif virðisaukaskattsins í sambandi við þær umræður sem hafa orðið um það að hafa fleiri en eitt þrep á virðisaukaskattinum, þ.e. að reynt yrði að skoða það í alvöru hvort væri hægt að koma á lægra þrepi á matvæli. Því miður tel ég að ekki hafi verið staðið við þessa úttekt eða það liggur a.m.k. ekki fyrir svo sjáanlegt sé að við höfum fengið svar við því. En niðurfelling virðisaukaskatts á bækur og viðhald fasteigna hefur verið ákveðin, og er um 400 millj. á hvorn þátt fyrir sig, sem er vissulega mikils vert fyrir þessar greinar hvað sem öllu öðru líður. En ég hlýt að krefjast þess við þessar umræður að hæstv. fjmrh. komi því í verk, sem var lofað hér við gildistöku skattsins, að það verði athugað um áhrif hans og hvort ekki sé tímabært að setja annað þrep á matvörur sem mér skilst að verði grunnur í þeim viðræðum sem Ísland á við Evrópubandalagið og önnur samskipti sem þar fara fram. Ég tel að við getum ekki sleppt þessu máli úr höndum okkar án þess að hér fari fram meiri athugun en virðist hafa verið gerð.
    Þá vil ég nefna einn þátt mála sem hefur aðeins komið inn í umræðurnar. Það er framkvæmd flugmálaáætlunar fyrir yfirstandandi ár. Inn á borð fjvn. hefur komið bréf frá Flugmálastjórn þar sem kemur fram að verkefni sem ekki voru samþykkt í flugmálaáætlun frá því í maí sl. vor hafi verið tekin fram yfir önnur verkefni sem samþykkt voru í áætluninni. Þarna er um að ræða 76 millj. kr. Lagt er til í þessu bréfi að samþykkt verði að taka slíkar aukaframkvæmdir fram yfir annað og samþykkt verði að fresta því sem var búið að ákveða í flugmálaáætlun. Ég vil segja að þetta eru vinnubrögð sem ég tel að geti ekki gengið

upp. Hér eru brotnar allar reglur í samskiptum við löggjafarvaldið og það verður að leiðrétta þetta tafarlaust. Annars er tilgangslaust að fjalla um slík mál eftir þeim lögum sem við förum eftir. Tilfærsla á samþykktum verkþáttum verður að gerast í samráði við þingmenn kjördæmanna og fjvn. Alþingis sem fer með þau mál fyrir Alþingi.
    Þá er annað mál sem ég vil minnast lítillega á sem skiptir miklu fyrir sveitarfélögin í landinu og fyrir það traust sem þarf að ríkja milli ríkis og sveitarfélaga. Það er uppgjörsþáttur í sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég ætla ekki að tala langt mál um það en ég vil vekja athygli á því að Alþingi gekk frá hluta þessa máls við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Það er kostnaðarhlutdeild ríkisins í framkvæmdum sveitarfélaga, félagasamtaka og vegna grunnskóla, dagvistunarheimila, íþróttamannvirkja og félagsheimila. Ákvörðun fjvn. var sú, miðað við þau gögn sem fyrir lágu, að gert var ráð fyrir að ríkishlutinn væri 1 milljarður 342 millj. kr. Fjvn. gerði ákveðna tillögu, eftir að búið var að ná samkomulagi við sveitarfélögin, um að lækka þessa upphæð á árinu 1990 niður í 300 millj., og að skiptingin yrði þannig næstu ár, miðað við þessa grunntölu, að á árinu 1991 yrði upphæðin 350 millj., 1992 350 millj. og 1993 342 millj. kr. Síðan kæmu til viðbótar til lækkunar eða hækkunar þær leiðréttingar sem gerðar voru. Um þetta var sveitarfélögunum skrifað sérstakt bréf, þessa ákvörðun fjárveitingavaldsins og Alþingis, og treyst á að við það yrði staðið. Því miður sé ég hér í fjárlagafrv. að við þetta er ekki ætlað að standa þar sem upphæðin þar er aðeins 300 millj. Þar vantar því 50 millj. upp á að standa við það sem gert var ráð fyrir og afgreitt var hér á Alþingi.
    Mér finnst að þetta mál þurfi að taka sérstaklega upp og við munum gera það í fjvn. því að öðrum kosti er hætta á því að sveitarfélögin vilji ekki treysta því sem fram er sett og við þau hefur verið samið af ríkisvaldinu. Það má ekki koma til, nóg er samt óuppgert í þessum þáttum í sambandi við önnur samskipti ríkis og sveitarfélaga sem ég ætla ekki að ræða hér, en á sjálfsagt eftir að koma til umræðu síðar.
    Þá vil ég nefna eitt atriði sem mér finnst varla hægt lengur að sætta sig við. Þar á ég við framlög til Framkvæmdasjóðs aldraðra og raunar einnig til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Sérstaða Framkvæmdasjóðs aldraðra byggist á sérstökum lögum þar sem lagður er á sérstakur nefskattur sem verður á næsta ári 3.480 kr. á hvern gjaldanda sem þýðir það að tekjur á árinu 1991 verða því um 370 millj. Í frv. er gert ráð fyrir skerðingu upp á 130 millj., þ.e. 240 millj. fari til sjóðsins. Í umræðunum, og raunar kemur það fram að hluta til í lista sem er í athugasemdum fjárlagafrv. um nauðsynlegar lagabreytingar, er gert ráð fyrir því að þessi hluti fari sem framlag ríkisins í rekstri stofnana fyrir aldraða, þ.e. viðhald og annað slíkt.
    Ég tel að nái þetta fram að ganga sé ekki nein ástæða fyrir því að leggja ekki strax fram lagafrv. á Alþingi sem taki tafarlaust upp þessi atriði, þ.e. að þar verði þá skýrt ákveðið hvað á að fara til uppbyggingar og hvað á að fara til rekstrar. Mér finnst að einföld skerðingarákvæði hvað þetta varðar, um svo mikilvæga sjóði sem byggjast á nefskatti sem fólk borgar í þeirri trú að það sé að greiða fyrir uppbyggingu á þessu sviði, komi ekki lengur til greina. Og það sama má segja um Framkvæmdasjóð fatlaðra þó hann sé aðeins öðruvísi upp byggður, en þar eru sömu grundvallarskilyrðin. Ég tel því að það verði, áður en fjárlög eru frágengin, að liggja alveg ljóst fyrir hvernig með þessi mál verði farið. Ég tel að við getum ekki vikist undan því að taka af fullri ábyrgð á þessum málum.
    Ýmsar lagabreytingar fylgja fjárlögum, eins og venja er til. Sumar eru nauðsynlegar en aðrar þarf að athuga betur.
    Ég vil segja það hér við þessa umræðu að ég get verið sammála einfaldari og samræmdri álagningu launatengdra gjalda með því að fella í eitt gjald launaskatt, lífeyris- og slysaskatt og atvinnuleysistrygginga- og vinnueftirlitsgjald. Þetta verði fellt saman í eitt gjald sem heiti tryggingagjald sem innheimt yrði samhliða staðgreiðslu tekjuskattsins. Hérna er um kerfisbreytingu að ræða sem ég tel nauðsynlega og oft hefur verið rætt um á undanförnum árum. Hins vegar er um viðkvæmt mál að ræða fyrir atvinnurekstur sem í dag greiðir engan launaskatt en fengi með þessu móti allmikla skattahækkun. Ég held þess vegna að það þurfi að koma fram meiri skýringar við þessa ákvörðun sem sýni að það sé hægt að framkvæma þetta á þann hátt sem hér er lagt til. E.t.v. þyrfti að gera þetta á lengri aðlögunartíma. Um það skal ég ekki fullyrða en ég lýsi yfir stuðningi við hugmyndina og hugsunina um þetta og tel að það þurfi að vinna að því að þetta kerfi komist á.
    Annað áform um breytingar, sem kemur fram í fjárlagafrv., varðar almannatryggingakerfið. Ég get ekki fellt mig við það að tekjutryggja ellilaun, eins og tæpt er á í þessu frv., og væntanlega á eftir að koma fram frv. um það. Mér finnst að þessi mál þurfi að skoða í samhengi og það er óeðlilegt að mínu mati að leggja fram slíkar lagabreytingar nema samhliða hafi farið fram heildarendurskoðun lífeyrissjóðakerfis landsmanna í heild. Hér er um samtengd mál að ræða og ég get ekki fellt mig við það að tekjutryggja ellilífeyrinn því svo mikið er víst að við höfum alla tíð frá því að almannatryggingalögin voru sett gert ráð fyrir því að allir landsmenn sem hafa greitt í þennan sameiginlega sjóð eigi rétt á sama grunnlífeyri.
Þess vegna held ég að þetta sé ekki tímabært og ég vonast til þess að frv. verði ekki lagt fram á yfirstandandi Alþingi.
    Þá vil ég einnig koma að öðru gjaldi sem ég er ekki farinn að skilja enn, ég segi það alveg eins og er. Það er hið svokallaða hafnamálagjald sem gert er ráð fyrir í frv. að standi straum af kostnaði við hafnir, við rekstur og framkvæmdir þeirra stofnana sem annast hafnamál í landinu. Það er enginn rökstuðningur í sambandi við þetta gjald, hvernig eigi að innheimta það. Á að innheimta þetta af hafnargjöldum, skipagjöldum og öllum þeim gjöldum sem standa undir rekstri hafna á Íslandi? Það er meiri hluti af öllum höfnum á Íslandi sem hafa ekki aðrar tekjur en aflagjöld. Það eru ekki tekjur af innflutningi, vörum o.s.frv. Ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir þeirri viðleitni að ná í sérstakar tekjur og breyta rekstri hafna og uppbyggingu hafna í samræmi við flugvallagjald og tekjur vegasjóða að það gengur ekki upp með þessum rökstuðningi. Það verður að skoða þetta mál þess vegna miklu meira. Hér er um 570 millj. að ræða sem er ekki lítil upphæð og ég tel að fjvn. verði að fá allar upplýsingar um það hvernig þetta mál er hugsað áður en ákvörðun er tekin, svo mikið er víst.
    Þá verð ég að segja það hér við 1. umr. fjárlaga að ég varð dálítið undrandi þegar ég sá í lista yfir lagabreytingar að það á að ráðast í það að breyta sóknargjöldum og kirkjugarðsgjöldum. Ég stóð í þeirri meiningu, og fékk raunar um það upplýsingar við afgreiðslu á fjárlögum síðast, að yfirstjórn kirkjumála, biskup landsins m.a., hefði fallist á það að það mætti skerða þennan tekjustofn, sem kom fyrst fram í fjárlögum yfirstandandi árs af því sem þar var gert, þ.e. 5% lækkun sóknargjalda og 5% lækkun kirkjugarðsgjalda. Ég hélt satt að segja að það mundi ekki verða farið enn á ný að taka þetta upp og ekki hvað síst þegar ég veit af eigin raun að ekki hefur verið haft samband við kirkjuyfirvöld um þessa ákvörðun. Mér finnst ástæðulaust að fara í stríð við kirkjur landsins vegna þessara tekjustofna. Fyrst þeir á annað borð voru samþykktir á Alþingi á sínum tíma, þá eigum við að láta þá standa eins og lög gera ráð fyrir. Hins vegar væri miklu eðlilegra að skoða það í alvöru hvort ekki væri hægt að láta kirkjuna með þessum auknu tekjum taka meiri þátt í öðrum gjöldum sem ríkið greiðir til kirkjumála í landinu. Það er annað mál og miklu heilbrigðari aðferð.
    Ég ætla einnig áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, að nefna eitt mál sem ég vil þakka fjmrh. sérstaklega fyrir og kemur hér fram í athugasemdum með frv. Það er í sambandi við Fasteignamat ríkisins. Hæstv. ráðh. hefur staðið við það sem hann lýsti yfir sem svar við fyrirspurn minni á síðasta þingi, í fyrrahaust, um það að leggja fram frv. um breytingu á skipan verkefna Fasteignamats ríkisins. Þar er byggt á því að opinbert mat, þ.e. fasteignamat og brunabótamat, verði sameinað og komið verði á fót einni stofnun í eigu ríkisins, sveitarfélaga, banka, sparisjóða og tryggingarfélaga sem annist framkvæmd, viðhald og uppfærslu eignamats í landinu. Þetta er stórmál í mínum huga. Árið 1984 skipaði ég sem félmrh. nefnd sem undirbjó þetta mál, nefnd færustu manna á þessu sviði í landinu og niðurstaða þeirra var einmitt þessi. Nefndin skilaði af sér 1985 frv. um þetta mál til að ná því í áföngum og það lá því miður í fjmrn. öll þessi ár. En nú hefur hæstv. fjmrh. hrist af þessu rykið og menn eru búnir að komast að niðurstöðu um mikilvægi þessa máls. Ég treysti því að þetta frv. komi fram tímanlega svo að hægt verði að afgreiða það hér á þessu Alþingi því að hér er um meiri háttar mál að ræða fyrir Ísland, það get ég alveg fullyrt,

ekki aðeins fyrir ríkið heldur fyrir alla meðferð í sambandi við fjármálalega afstöðu til hinna ýmsu mála. Alls staðar þarf grundvöllurinn að vera fyrir hendi í sambandi við staðreyndir. Það verður gert með þessari samræmingu og þetta mat verður sífellt þýðingarmeira í samskiptum bæði fyrirtækja og einstaklinga. Þess vegna fagna ég þessu og þakka hæstv. fjmrh. fyrir að láta þetta koma skýrt fram.
    Virðulegi forseti. Ég get nú eiginlega endað mál mitt hér. Ég vil aðeins segja það í sambandi við þetta fjárlagafrv. og aðstöðuna sem er að koma upp í þjóðfélaginu að það væri auðvitað hægt að nefna margt sem við stöndum frammi fyrir. Ég gæti t.d. nefnt Þjóðarbókhlöðuna, þjóðargjöfina sem gefin var 1974 og átti að vera löngu tilbúin. Það hefur tekið tíma að fá niðurstöðu í það hvernig þetta mál stendur og ég get sagt frá því hér að ég er nú loksins með í höndum endanlega áætlun um hvað þetta hús kemur til með að kosta, hvað þarf að leggja fram af fé til þess að ljúka þessu húsi á næstu árum. Það þarf hvorki meira né minna en 1600 millj. til að ljúka við bygginguna eins og hún stendur í dag. Og þegar við bætum við 800 millj. sem búið er að framkvæma fyrir, á sama verðlagi, þá sjáum við hvað þetta fyrirtæki er orðið. Við skulum segja að það verði einhverjar hækkanir á næstu 3 -- 4 árum sem þarf til að ljúka við þessa byggingu og þá er ekki ólíklegt að hún verði komin í 2,6 -- 3 milljarða þegar upp verður staðið. En þetta er bara sýnishorn af því hvernig því miður við stöndum allt of oft að því að áætla hvernig við ætlum að byggja upp hinar ýmsu stofnanir í þjóðfélaginu. Það vantar raunhæfar áætlanir til loka framkvæmda.
    Ég ætla ekki að ræða Þjóðleikhúsið en það er ljóst að það verður skólabókardæmi um það hvernig á ekki að gera hlutina. Það verður skólabókardæmi um það að það hefði betur verið farið eftir tillögum fjvn. um það mál þannig að ekki væri verið að glíma við alls konar vindmyllur um að Þjóðleikhúsið þurfi að vera tilbúið einhvern ákveðinn dag í vetur heldur nota tímann til haustsins 1991 til þess að ljúka nauðsynlegum endurbótum á Þjóðleikhúsinu. Það var ákveðið hér á hv. Alþingi að tilgreina ákveðna fjárhæð í þessar endurbætur. Krafa ráðherra og byggingarnefndar er miðuð við það að þeim verði lokið í febrúar nk. með því fjármagni. En það er ljóst í dag að þetta er þegar komið langt fram yfir og það er einnig ljóst að það er ekki hægt að láta eina einustu krónu til viðbótar í þessa framkvæmd. Þess vegna verður það kraftaverk ef það verður hægt að opna Þjóðleikhúsið í febrúar. Ég mundi frekar spá, miðað við þá fjárhæð sem á að koma á næsta ári, 75 millj., að hægt væri að tala um kannski maí á næsta ári, en það kemur í ljós. Þetta sýnir bara að við þurfum að standa öðruvísi að þessum málum en gert hefur verið í meðferð fjárlaga til hinna ýmsu framkvæmdaþátta.
    Fulltrúar sveitarfélaganna sem komu á fund fjvn. nú í haust voru margir. Það var eitt sameiginlegt sem kom fram hjá öllum þessum ólíku aðilum sem komu til fjvn. sem lýsir í raun þeirri skoðun sem nú ríkir í

þjóðfélaginu miðað við þær hugmyndir um stórframkvæmdir sem fram undan eru, bæði í sambandi við orku og stóriðju. Það var að allir þessir fulltrúar voru eiginlega með sömu kröfu fram setta án þess að það væri samband þar á milli. Hún var sú að þeir fengju aukið fé til verklegra framkvæmda út um land til þess að mynda eitthvert jafnvægi á móti því sem fram undan væri. Og allir þessir aðilar lögðu aðaláhersluna á hafnamál og opinberar byggingar sem enn er eftir að vinna að, bæði framhaldsskóla, sjúkrahús og annað slíkt sem við þekkjum öll, og eins kröfuna um jöfnun á ýmsum málum sem hafa mikla þýðingu út um land, svo sem jöfnun raforkuverðs og annað slíkt. Þess vegna held ég að okkur sé óhætt að gera okkur grein fyrir því þegar við göngum nú frá þessu fjárlagafrv. að þótt við tökum undir það sem er meginstefnan í frv. þá getum við ekki skilið við þessa afgreiðslu svo að við gerum okkur ekki grein fyrir því til hvers er ætlast af okkur í sambandi við afgreiðslu fjárlaga nú á þessu þingi fyrir næsta ár. Ég held þess vegna að við verðum að skoða vel byggðamálin og ég geri ráð fyrir því að það væri eðlilegt að auka framlag til Byggðasjóðs og skerpa línur í því hverju við viljum breyta í framkvæmd ýmissa laga til þess að mæta þessari skoðun.
    Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn stöndum að sjálfsögðu að þessu fjárlagafrv. og stefnu þess í aðalatriðum, en auðvitað áskiljum við okkur rétt til þess að skoða ýmsa þætti sem til framfara eða betri afgreiðslu horfa og við munum að sjálfsögðu vera ábyrgir í þeim málum.