Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Enn á ný leggur hæstv. fjmrh. fram frv. til fjárlaga, þriðja hornsteininn að því er hann segir, á jafnmörgum árum undir breytt og betra efnahagslíf þjóðarinnar. Hitt er annað mál að hæstv. fjmrh. eru nokkuð mislagðar hendur við steinsmíði. Steinar hans hinir fyrri hafa ekki reynst svo traustir sem hann ætlaði og þessi hinn síðasti virðist sama marki brenndur og hinir fyrri. Þeir hafa áður molnað í meðförum og nú verður án efa nauðsyn að klappa þennan til og sníða af honum misfellur svo sem gert hefur verið við fyrirrennara hans. Því ætti hæstv. fjmrh. að spara stóryrðin um breytta og betri tíð með þetta frv. sem undirstöðu.
    Hvað boðar þessi áætlun um ríkisbúskap fyrir landsmönnum? Hún boðar í stuttu máli aukna skatta, áframhaldandi atvinnuleysi, niðurskurð á opinberum framkvæmdum og versnandi afkomu heimilanna í landinu. Frv. boðar engar breytingar í þá veru að rétta halla ríkissjóðs. Megineinkenni þess til breytinga eru tilfærslur á ýmsum liðum, sem gerir allan samanburð við fyrri fjárlög erfiðan, vaxandi skattheimta, bæði á beinum og óbeinum sköttum, og vaxandi útþensla í kostnaði og mannahaldi ráðuneytanna, einkum þó fjmrn.
    Ýmsar áherslubreytingar eru við skattheimtuna, tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja hækkar, dregin eru saman í einn skatt launatengd gjöld, sem greiðast af hálfu atvinnulífsins og nefnt tryggingariðgjald, og í leiðinni eru þau stórhækkuð. Þessi hækkun ásamt hafnargjaldinu, sem ég kem að síðar og verð að játa að ég skil ekki fremur en hv. 1. þm. Vesturl., leggst af fullum þunga á atvinnufyrirtækin á sama tíma og þau eru að rétta úr kútnum. Er þetta nú skynsamleg stefna?
    Ferill þessarar ríkisstjórnar hefur einkennst af aukinni skattheimtu. Árið 1987 voru skattar til ríkisins 23,6% af vergri landsframleiðslu en á þessu ári er áætlað að hlutfallið sé 27,6%. Þetta er hækkun um 4% sem þýðir að skattbyrðin hefur á þessum tíma aukist um 12 -- 13 milljarða. Talsmenn ríkisstjórnarinnar réttlæta aukna skattheimtu með því að halda því ákaft fram að skattar hér séu lægri en í öðrum löndum. Það má vera að rétt sé að beinir skattar séu lægri hér en víða annars staðar. En aftur á móti eru óbeinir skattar hærri hér en víðast þekkist sem gerir það að verkum að þegar á heildina er litið eru skattgreiðslur okkar síst lægri en með öðrum þjóðum.
    Frv. til fjárlaga byggir sem endranær á áætlun Þjóðhagsstofnunar um framvindu efnahagsmála á næsta ári. Allar efnahagsforsendur frv. eiga rætur sínar þar. Spár stofnunarinnar eru þó ótryggar í ýmsum veigamiklum þáttum sem getur orðið afdrifaríkt ef veruleg frávik verða. Allmikil óvissa ríkir um olíuverð á komandi ári og þó að verðlagsforsendur frv. geri ráð fyrir hækkun á olíu um 40% er veruleg hætta á að sú hækkun sé vanmetin. Hún kann að reynast meiri. Fari svo verður að endurskoða forsendur frv. og reikna allt að nýju. Gert er ráð fyrir að útflutningsverðmæti sjávarafurða aukist lítillega á næsta ári, en nú eru blikur á lofti um sölu á saltsíld og útlit fyrir að hluti aflans fari í bræðslu ef ekki finnast nýir markaðir sem á þessari stundu eru ekki í sjónmáli.
    Í spá Þjóðhagsstofnunar um efnahagshorfur á næstu árum er ekki gert ráð fyrir auknum sjávarafla í tonnum frá því sem er en gert er ráð fyrir að breytt ráðstöfun aflans valdi verðmætaaukningu og verðlag á sjávarafurðum fylgi almennu verðlagi erlendis frá 1992. Í þessu felst að sjávarafurðir verði í jafnháu raunverði frá 1991 og þær voru 1987. Þessi bjartsýni byggir á spám um minnkandi framboð sjávarafurða á heimsmarkaði á næstu árum. En það er vert að vekja athygli á að Þjóðhagsstofnun gerir ekki ráð fyrir að við Íslendingar eigum þátt í minnkandi framboði, að afli geti dregist saman hér eins og annars staðar. Þó má teljast ráðlegt að reikna með að svo kynni að fara.
    Sú nýbreytni er nú tekin upp að fjármagna byggingar og endurbætur í höfnum landsins með því að skattleggja þá sem um hafnirnar fara þótt alls ekki sé ljóst með hverjum hætti þetta á að gerast. Þessi skattur hlýtur, ef af verður, óhjákvæmilega að hafa víðtæk áhrif. M.a. hlýtur hann að leiða til hækkunar á vöruverði. En til slíkrar hækkunar er ekkert tillit tekið í forsendum frv.
    Gert er ráð fyrir 7% verðbólgu á árinu og að laun hækki um 8% og kaupmáttur aukist örlítið. Sú spá er þó völt, bæði með tilliti til olíuverðs og fleiri þátta sem ég kem að síðar. Þjóðarsáttin svokallaða sem ríkisstjórnin vill þakka sér nær nefnilega ekki til allra þeirra þátta sem heimilin varða. Hún byggðist á því að launþegar sættu sig við örlitlar kauphækkanir sem gerði innlendum matvöruframleiðendum fært að hækka vörur sínar um 1,3%. Bændur fengu að feta sömu slóð með nánast sömu verðhækkanir en þar með lýkur þjóðarsátt. Erlendar vörur hafa hækkað um 9,2% og það er útlit fyrir að þær hækki enn. Þjónusta einkaaðila hefur hækkað um 11,2%. Þeir sem stunda erlend viðskipti eða selja þjónustu sína fá að leika lausum hala langt fram yfir það sem erlendar verðhækkanir kalla á. Það eru launþegar og bændur sem fá að bera þunga þessarar svokölluðu þjóðarsáttar og skattar eru svo hækkaðir á sama tíma og kjaraskerðing er og rauntekjur lækka. Kaupmáttur launa hefur lækkað um 15% á síðustu þrem árum, en í frv. er eins og ég áðan sagði gert ráð fyrir að hann hækki lítillega á árinu. Ég deili ekki þeirri skoðun með hæstv. fjmrh. að kaupmáttur muni aukast á komandi ári. Mér virðist að forsendur frv. bendi til þess að slíkt geti ekki gerst.
    Þjóðarsáttin svokallaða nær ekki jafnt til allra. Á sama tíma og láglaunafólki er gert að lifa við hungurmörk geta aðrir nánast leyft sér sjálfdæmi um laun og launakjör. Þar er skemmst að minnast ráðninga sveitar - og bæjarstjóra á liðnu sumri. Launabilið í þjóðfélaginu eykst stöðugt. Muna menn nú ekki eftir því þegar nú í sumar voru tíunduð laun 16 forstjóra sem höfðu á bilinu 550 -- 1100 þúsund í mánaðarlaun, allt að tuttugu og fimm föld mánaðarlaun verkakonu. Og verkalýðsforingjarnir áttu hlut í þessu á sama tíma

og þeir stóðu fyrir ráðningu fólks á þeim sultarlaunum sem ég áður gat um. Svo ætla menn að halda því fram að það séu taxtalaunin sem séu aðalverðbólguvaldurinn. Það er gersamlega brenglað verðmætamat sem veldur því að það er metið til margfalt hærri launa að sitja á peningakössum en að annast uppvaxandi kynslóðir og skila þeim inn til samfélagsins sem hæfum og nýtum þjóðfélagsþegnum. Þessum hugsunarhætti verður að breyta áður en verr fer en orðið er. Og það er vert að minna á að sumir þessara forstjóra sem ég talaði um áðan stjórna hrikalegum tapfyrirtækjum svo að varla er hægt að telja kaup þeirra verðlaun fyrir vel unnin störf.
    Nei, virðulegi forseti. Með þjóðarsáttinni títtnefndu hefur verið búin til stífla sem án efa á eftir að bresta með skelfilegum afleiðingum, ég tala nú ekki um ef verða erlendar verðhækkanir sem við ráðum ekki við. Og þá verður að reikna allt dæmið upp að nýju.
    Hallarekstur ríkissjóðs að undanförnu þýðir að á þrem árum hefur safnast fyrir halli á ríkisrekstrinum sem nemur rúmum 23 milljörðum sem er um það bil 1 / 4 af löngum lánum ríkissjóðs. Þetta, ásamt öðru, veldur því að vaxtagreiðslur eru að verða óhugnanlega stór liður í útgjöldunum og nálgast nú 10 milljarða. Það er alvarlegt áhyggjuefni að ekki skuli takast nokkurn tíma að ná endum saman með tekjur og útgjöld. Það má kalla blaður eitt að tala um fjárlög sem hornstein efnahagslífsins sem fela í sér hallarekstur. Slíkur hornsteinn geta þau aldrei orðið meðan eyðslan er meiri en öflunin.
    Í þessu fjárlagafrv. er óvenjumikið um ófrágengin mál og lausa enda. Það er varla fullburða, svo margt er þar sem þarfnast endurskoðunar og fullnaðarfrágangs að það hlýtur að taka talsverðum breytingum áður en til afgreiðslu kemur. Ég vil drepa á helstu þætti þessara ófrágengnu mála.
    Lánasjóður ísl. námsmanna er gersamlega í lausu lofti. Eigið fé hans er að ganga til þurrðar. Og þá vík ég að húsnæðismálunum. Staða Byggingarsjóðs verkamanna er sú að hann getur ekki veitt eitt einasta lán á næsta ári að óbreyttu og augljóst er að Byggingarsjóður ríkisins þarf a.m.k. milljarð til þess eins að geta staðið við greiðslur. Úr þessum málum verður að leysa. Vert er að benda á að kostnaður við laun og rekstur Húsnæðisstofnunar er nú um 410 millj. og þykir ýmsum nóg. Ætlunin er að setja upp umdæmisskrifstofur og afgreiðslur út um land við stofnunina sem er sjálfsögð og nauðsynleg þjónusta. En hins verður að gæta að draga þá jafnframt úr kostnaði og umsvifum á höfuðborgarsvæðinu sem því nemur og ætti það að vera augljóst að slíkt væri hægt ef menn vilja.
    Ljóst er einnig að eigi að halda verðlagi niðri svo sem áformað er, þá vantar 300 -- 400 millj. í niðurgreiðslur á búvörum. Áform eru um að lækka lyfjakostnað og þau mál hafa nú verið á dagskrá í allt að því áratug án þess að teljandi árangur hafi náðst. Þar má segja að orsök sé líka sú að forvarnarstarf er allt í molum. Væri hugað betur að því þá kæmi kannski ekki til þess lyfjaausturs sem nú tíðkast. Það er engin ástæða til að ætla að þessi áform gangi fram um að lækka lyfjaverð á næsta ári fremur en áður og þar kynni þá að vanta 500 -- 600 millj.
    Til viðbótar þessum óvissuþáttum er svo fylgiskjal með yfirliti yfir þær lagabreytingar sem gert er ráð fyrir í forsendum frv. varðandi tekjur og gjöld, lánveitingar, ábyrgðir og fleira. Þó að hæstv. ríkisstjórn hafi þingstyrk til að koma þessum breytingum fram þykir mér hún tefla djarft ef hún ætlar að þau nái samþykki fyrir áramót. Telur hæstv. ríkisstjórn að hið nýja frv. um almannatryggingar muni renna umræðulaust í gegnum þingið? Heldur hún að almenn samstaða sé um hafnamálagjaldið? Og heldur hún að menn taki fagnandi auknum álögum í sambandi við tryggingariðgjaldið? Heldur hún að þessi mál séu þegar öll í svo fullkomnu formi að þau þarfnist ekki umræðu og breytinga í meðferð þingsins? Og heldur hæstv. ríkisstjórn yfir höfuð að tími vinnist til að afgreiða þau áður en fjárlög koma til afgreiðslu? Það er mikil dirfska að ætlast til þess að svo viðamikil mál sem lög um almannatryggingar verði afgreidd á einhverjum handahlaupum undir þrýstingi vegna tímaskorts. Ég tel að með þessum áformum sé hæstv. ríkisstjórn að misbjóða Alþingi. Þetta er enn eitt dæmið um þann hroka sem hún leyfir sér að sýna æðstu stofnun þjóðarinnar.
    Reynsla undanfarinna ára sýnir svo að hæstv. ríkisstjórn hefur alltaf þurft að koma til fjvn. með óskir um breytingar og hækkanir og svo mun það verða enn því óvenjumarga lausa enda þarf að hnýta. Augljóslega eiga eftir að koma til verulegar breytingar á ýmsum þáttum í meðferð fjvn. og á þessu stigi er of snemmt að spá um hvernig þeim verði háttað. Ég sleppi því í þessari umræðu að fara yfir einstök ráðuneyti og geymi það til seinni tíma. En ég vil draga fram nokkra þætti til umhugsunar.
    Í fskj. 1 eru ákvæði um skerðingu á ýmsum lögbundnum framlögum til ýmissa sjóða og stofnana. Þar er hin hefðbundna skerðing á lögboðnum tekjum Ríkisútvarpsins og má það furðu gegna eftir öll stóryrði hæstv. menntmrh. um tiltektir fyrri ríkisstjórna að hann skuli nú vera sporgöngumaður þeirra í þessum efnum. Ég minni á skerðingu sóknar - og kirkjugarðsgjalda sem enginn hefur frá því fyrsta dregið í efa að væru lögmæt eign þjóðkirkjunnar. En í fyrra komst einhver velþenkjandi að því að þarna væri hægt að seilast til fjár fyrir ríkissjóð og umsvifalaust var það þap gert. Nú er haldið áfram á sömu braut sem er með öllu óréttlætanlegt. Á venjulegu máli heitir þetta þjófnaður. Ég nefni ekki fleira af þessu tagi en af nógu er að taka.
    Vitanlega eru nokkrar rúsínur á stangli í frumvarpsgrautnum. Ég fagna því að sjálfsögðu að sjálfstæði Háskóla Íslands er aukið og óskandi er að áfram verði haldið á þeirri braut, enda nefndi ráðherra það áðan að sú væri ætlunin. Þetta sjálfstæði þyrfti að sjálfsögðu að auka sem víðast, einkum þó í menntakerfinu. Því ekki að láta fræðsluskrifstofur og fræðsluráð um að útdeila því fé sem kjördæmum er ætlað til skólamála? Ég yrði ekki undrandi þó í ljós kæmi að

féð nýttist betur með þeim hætti.
    Sparnaðartilraunir hæstv. ríkisstjórnar birtast oft með undarlegum hætti, sjaldan með forgangsröð, fremur með flötum niðurskurði þar sem því verður við komið. Aðalskrifstofur sumra ráðuneytannna eru þó sjaldnast undir hnífnum. 11 sendiráð eru starfrækt en 20 sendiherrar eru á launum. Er ekki hægt að draga úr þessum kostnaði?
    Ég minni á fjmrn. sem þenst út ár frá ári. Þar er rekstrarkostnaður við skatta - og tollamál áætlaður 1186 millj. Það er greinilega ekki erfiðislaust að kreista álögurnar út úr landsmönnum.
    Ráðamönnum er gjarnt að bera okkur saman við aðrar þjóðir, en þar tíðkast yfirleitt ekki að skattleggja matvörur. Ég vil minna hæstv. fjmrh. á ýmsar fyrri fullyrðingar um sparnað og ég vil minna hann á ummæli hans um matarskattinn um þær mundir sem hann var settur á. Væri nú ekki ráð að afnema hann? Það mundi tæplega rýra tekjur ríkissjóðs því að við auknar ráðstöfunartekjur almennings mundu tekjur af veltusköttum aukast, trúlega sem því næmi sem ríkissjóður missti.
    Hvað með fyrri loforð um tvö skattþrep og skatt á fjármagnstekjur? Að vísu nefndi hæstv. fjmrh. áðan í ræðu sinni að áform væri um að flytja mál í þessari veru inn á þing, en ég tel hæpið að honum endist líftími í ráðherrastól til að koma því í framkvæmd. Því hefur ekki verið tekið á þeim málum meðan fólk með meðaltekjur og minna verður að neita sér um flest og rétt dregur fram lífið? Tekjujöfnun sú sem hæstv. ríkisstjórn hafði uppi fyrirheit um hefur algerlega brugðist og bilið breikkar í sífellu.
    Víkjum aðeins að atvinnumálum. Gengið er út frá atvinnuleysi um 2% en vitað er að víða er sú tala mun hærri því að þetta er meðaltal. Í frv. er 15 millj. fjárveiting til atvinnusköpunar fyrir konur og 11 millj. til atvinnuaukningar í dreifbýli, aðallega til stofnunar fjarvinnustofa þar sem gera má ráð fyrir að konur vinni í meiri hluta. Þetta er gott og blessað og ber að þakka en hefur auðvitað fyrst og fremst hafst fram fyrir látlausan þrýsting frá konum. Ég minni á tillögur Kvennalistans um aukna atvinnusköpun í dreifbýli og ég minni á tillögur hans um sérstaka deild við Byggðastofnun til atvinnuþróunar fyrir konur, sem ekki hefur verið sinnt. En þetta er líka það eina sem beinlínis má telja framlag til atvinnumála í frv.
    Undanfarin ár hafa framlög til allra rannsókna farið síminnkandi að raungildi. Á þessu ári voru Rannsóknasjóði ætlaðar 95 millj. sem síðan var í fjáraukalögum lækkað um 10 millj. Nú eru inni í fjárlagafrv. 100 millj. til Rannsóknasjóðs og það nær tæpast verðlagshækkun. Ég vil minna á að rannsóknir eru óumdeilanlega undirstaða nýsköpunar í atvinnulífi. Meðan þær eru fjársveltar verðum við ekki hlutgeng með öðrum þjóðum. Við ættum að hafa þann metnað að gera fullvinnslu sjávarafurða að okkar stóriðju, en hvað gerum við? Þeir sem eru að reyna fyrir sér á þessu sviði eiga erfitt með að fá aðstoð og fyrirgreiðslu og líftæknivinnslan, sem er að komast af þróunarstiginu og er okkar álitlegasta nýsköpunargrein,

hírist í horni í gamla Grandahúsinu. Þetta er nú reisnin.
    Nei, hugmyndir manna eru svo fastar í gömlum hjólförum að örugglega þarf meiri háttar aflvaka til að draga menn upp úr þeim og á nýjar brautir. Álver skal það vera hvað sem það kostar. Þó það kosti mengun og spillingu landsins og skaði ímynd þess út á við sem ferðamannalands. Þó það kosti það sem okkur kemur verst, búseturöskun sem aldrei fyrr og enn aukinn niðurskurð á verklegum framkvæmdum sem auðvitað koma harðast niður á landsbyggðinni og stórauknar skuldir sem nú eru ærnar fyrir. Takist samningar nú og verði hafist handa á næsta ári í einhverjum mæli kollvarpar það gersamlega forsendum fjárlaganna. Það má því ljóst vera að þessi hornsteinn stöðugleika er meira en lítið valtur.
    Varðandi atvinnumál í framhaldi af þessu má furðu gegna hve gersamlega metnaðarlaus hæstv. ríkisstjórn er. Ekki eru settir fjármunir í að móta heildstæða vitræna atvinnustefnu. Ef ekki er horft til annarrar atvinnu en stóriðju á Suðurnesjum hlýtur byggð að leggjast af á stórum svæðum á landsbyggðinni á næsta ári. Því vil ég beina því til hæstv. iðnrh. að hann lesi grein sem aðstoðarmaður hans skrifaði fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið 5. mars 1984. Þar nefnir hann þriðju iðnbyltinguna, sem hann kallar svo, örtölvutæknina og líftæknina, og segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Önnur grein þriðju iðnbyltingarinnar er líftæknin. Það er talið að líftæknin muni hafa meira efnahagslegt gildi en örtölvutæknin hvað varðar framleiðslu, atvinnu og afkomu. Á Vesturlöndum er stóriðjan að verða stefna gærdagsins. Annarri iðnbyltingunni er að ljúka þar. Orkufrekja, umhverfisspjöll og atvinnuhættir stóriðjunnar valda því að Vesturlönd hafna henni í auknum mæli svo hún hrekst til þriðja heimsins og þar erum við talin með.`` Síðan rekur aðstoðarmaður iðnrh. í hverju líftækni felst og segir svo: ,,Meðal kosta þessarar nýju tækni eru þeir að hún mengar ekki umhverfi sitt. Hún þarfnast lítillar orku og hún notar náttúrleg hráefni sem endurnýjast og ganga inn í lífkeðjuna. Einn dýrmætasti kostur líftækninnar er e.t.v. sá að með afkastamiklum aðferðum hennar er hugsanlegt að lina hungur og þjáningu í þriðja heiminum. Það er verkefni sem núverandi atvinnuhættir ekki valda.
    Líftæknin er sú atvinnugrein sem er spáð mestum vexti á Vesturlöndum. Fjármagn streymir að henni og möguleikarnir eru óþrjótandi. Þetta verður líklega höfuðatvinnugrein 20. aldar sem er aðeins 10 ár í burtu nú. Börn sem fæðast í dag munu verða atvinnurekendur og launþegar þess tíma.
    En hvað gerum við í málefnum framtíðarinnar? Byltingarmenn stóriðjudrauma okkar eru á ferðalögum út um allan heim til að laða hingað atvinnuhætti gærdagsins. Þeir eru einni byltingu á eftir. En ef við ætlum okkur hlut í framtíðinni verðum við að kaupa hlutabréf strax í dag. Við gerum það með því að segja námsfólki okkar frá möguleikum og hugmyndum okkar um lífshætti morgundagsins og gerum það með því

að styrkja rannsóknir á íslenskum möguleikum líftækninnar. Þar mundi stórkostlega muna um fjárstyrk, þó ekki væri meira en sem nemur ferðastyrkjum og dagpeningum stóriðjunefndarinnar.``
    Þetta sagði aðstoðarmaður iðnrh. fyrir nokkrum árum síðan. E.t.v. tekur ráðherra ekki ráðum aðstoðarmanns síns eða þá aðstoðarmaðurinn hefur afklæðst skoðunum sínum eins og snákurinn hamnun og er kominn í bland við tröllin. Því má bæta við þetta að það eru fleiri möguleikar í farvatninu svo sem vetnisvinnsla. Þessi orð eiga öll við í dag þegar við horfum fram á að sjávarafli eykst ekki, álverð fer lækkandi, járnblendiverksmiðjan gengur fyrir hálfum afköstum. Tökum þessar 50 millj. sem á að kaupa fyrir dagblöð til stofnana og engin stofnun kærir sig um. Segjum upp nokkrum aðstoðarmönnum ráðherra og nokkrum sendiherrum. Það er hægt að auka rannsóknir og bæta aðstöðu til þróunarverkefna fyrir upphæðir sem þessar og flýta með því fyrir árangri. Það er ný atvinnustefna sem við þurfum, ekki atvinnustefna gærdagsins. Munum að sá samdráttur í opinberum framkvæmdum sem þetta frv. boðar er aðeins fyrsta hænufetið af því sem verður stigið þegar álversbyggingin fer í gang og allt kapp verður lagt á að halda niðri verðbólgu og þenslu á sama tíma og þenslusprengju er kastað inn á Suðurnesin. Þá fær landsbyggðin að sitja við sultarvist af mannavöldum. Ég hef bent á það sem þetta frv. boðar landsmönnum. Það er vissulega ekki kosningafrv. að því leyti að þar eru engin gylliboð. En það er kosningafrv. að því leyti að þar er reynt að breiða yfir óþægilegar staðreyndir og láta þær líta betur út en efni standa til.
    Ég endurtek það sem ég hef áður sagt að frv. er ekki fullburða, svo mörg veigamikil mál eru þar óleyst. Ég geymi ítarlega umfjöllun til seinni umræðna þegar hægt er að sjá hvaða stefnu það tekur við þær breytingar sem óhjákvæmilega verða gerðar við það. En ég vil svo minna á nokkur af markmiðum efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar og spyrja menn hvort þeir telji að stefna þessa frv. stuðli að því að þessum markmiðum verði náð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að stuðla að aukinni framleiðslu, endurskipulagningu og aukinni hagkvæmni í atvinnulífinu og leggja þar með grunn að hagvexti og góðum lífskjörum á næstu árum. Að stuðla að réttlátari tekjuskiptingu og verja lífskjör hinna tekjulægstu.`` --- Það hefur nú tekist bærilega. --- ,,Að beita sér fyrir jafnvægi í byggðaþróun.`` --- Hvar sér þess stað? --- ,,Að leggja grundvöll að lækkun erlendra skulda í framtíðinni?`` --- Ég sé ekki bóla á því heldur og býst ekki við að nokkur maður sjái það. Ég tel hæpið að þessi markmið náist.
    Ég vil svo að lokum lesa mönnum þann boðskap sem felst í 1. mgr. 6. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:
    ,,Ríkisstjórninni er heimilt: Að breyta fjárhæðum tekju- og gjaldamegin ef lög verða staðfest frá Alþingi 1991 sem hafa í för með sér tekjur eða gjöld fyrir ríkissjóð. Allar fjárveitingar, sem eigi eru

ákveðnar í lögum öðrum en fjárlögum, forsetaúrskurðum eða öðrum gildandi ákvörðunum, gildi aðeins fyrir fjárhagstímabilið.``
    Þarna hyggst hæstv. ríkisstjórn knýja Alþingi til að veita henni sjálfdæmi til að ráðskast með sameiginlega fjármuni landsmanna allra. Eins og alþjóð veit nú kann hæstv. forsrh. ekki að greina mun á bráðabirgðalögum og lögum sem Alþingi samþykkir, hafi meiri hluti verið fyrir bráðabirgðalögunum. Það er sorgleg staðreynd hve völdin blinda mönnum sýn og rýra virðingu þeirra fyrir þeirri stofnun sem þeir eiga að þjóna.