Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að fara hér nokkrum orðum um aðeins einn þátt í því fjárlagafrv. sem til umræðu er en ekki að fara neina heildaryfirferð yfir frv. enda hefur það verið gert af fulltrúa míns þingsflokks.
     Þeir sem hafa fylgst með undirbúningi fjárlagasmíðinnar úr nokkurri fjarlægð, eins og við þingmenn stjórnarandstöðunnar, hafa furðað sig nokkuð á því að það virðist ekki vera samstaða í ríkisstjórninni um frv. Það hefur komið fram opinberlega, a.m.k. hjá einum ráðherra sem er hér staddur, að sá ráðherra, hæstv. félmrh., geti ekki stutt frv. eins og það er lagt fram. Ég verð nú að segja það að ég er dálítið undrandi á því að aðrir þingmenn í þessari umræðu skuli ekki hafa vakið máls á því að hér við 1. umr. um fjárlagafrv. liggur fyrir opinber yfirlýsing frá einum hæstv. ráðherra um að hann styðji alls ekkert frv. eins og það kemur fyrir, í það minnsta að því er varðar tiltekna málaflokka sem undir þennan ráðherra heyra.
    Getspakir menn eru vafalaust búnir að geta sér þess til að hér sé átt við framlög til byggingarsjóðanna og það sem að þeim snýr í þessu frv. Eins og lesendur frv. hafa kynnt sér er ekki einu sinni liður lengur í A-hluta fjárlagafrv. sem heitir Byggingarsjóður ríkisins. Það er ekki bara búið að skera framlögin niður, það er búið að þurrka hann út úr frv., þennan lið. --- Snyrtilegt, skýtur ábyrgðarmaður frv., hæstv. fjmrh., hér inn.
    Spurningin er auðvitað þessi: Styður félmrh. þetta frv. eins og það er úr garði gert eða gerir hún það ekki? Og ef það er ekki svo, ja, þá er staðan auðvitað allt önnur í þinginu gagnvart framgangi þessa máls en gefið hefur verið í skyn af hæstv. fjmrh. og öðrum talsmönnum ríkisstjórnarinnar við þessa umræðu.
    Félmrh. hefur lýst því yfir opinberlega að hún hyggist flytja í eigin nafni, ef ekki vill betur, tillögur um að breyta ákveðnum liðum í fjárlagafrv., þeim sem snúa að byggingarsjóðunum. Og ég spyr fjmrh.: Hvernig ætlar hann að bregðast við flutningi slíkra tillagna? Hvað ætlar hann að gera, ef ekki bara einstakir stjórnarþingmenn heldur jafnvel ráðherrar byrja á þeirri nýbreytni að flytja brtt. við fjárlagafrv., einstaka liði sem þeim eru kærir? Fjmrh. er kunnur áhugamaður um stjórnarfar. Hvað finnst honum um slíka nýbreytni í stjórnarfari hér á Íslandi ef einstakir ráðherrar taka upp þá nýlundu að flytja brtt. við frv. sem þeir bera að sjálfsögðu ábyrgð á ásamt fjmrh.? Hvernig hyggst fjmrh. bregðast við því?
    Ég sakna þess í tengslum við þetta mál, vegna þess að það hefur verið mikið rætt í sumar, að þess sé með einhverjum hætti getið hvernig eigi að taka á vanda byggingarsjóðanna. Ég skal lesa það sem segir í fjárlagafrv. um þetta efni vegna þess að það er afar fljótlesið. Þar segir einfaldlega með svipuðum hætti og sagði í ræðu ráðherrans: ,,Aðgerða er þörf í málefnum byggingarsjóðanna.`` Það voru nú aldeilis tíðindi. Það sem auðvitað vantar bæði í þetta og annað sem frá stjórninni hefur komið í þessum málum er:

Hvað ætlar hún að gera og hvernig ætlar fjmrh., sem fjárhaldsmaður stjórnarinnar, að bregðast við þeim vanda sem uppi er? Ég þykist vita að hann hafi kynnt sér nákvæmlega skýrslu sérstakra trúnaðarmanna félmrh. sem dags. er 22. júní sl. þar sem rakinn er vandi sjóðanna, sérstaklega Byggingarsjóðs ríkisins. Ég þykist líka vita að hann hafi kynnt sér greinargerð Ríkisendurskoðunar frá því í september. En athuganir hans á þessum mikilvægu skjölum hafa leitt til þeirrar niðurstöðu hjá fjmrh. að hann telur að ,,aðgerða sé þörf í málefnum byggingarsjóðanna``. Það segir í greinargerð frv. og það var staðfest í ræðu ráðherrans sem var flutt fyrr í dag. Hvernig hyggst fjmrh. leysa vanda Byggingarsjóðs ríkisins?
    Í framhaldi af því vaknar eðlilega sú spurning að því er varðar næsta ár, 1991, hvað ætlar fjmrh. sér að gera með samþykkt flokksþings Alþfl. að því er varðar þennan vanda? ( Fjmrh.: Ég er ekki í Alþfl.) Ekki neitt, segir hann. ( Fjmrh.: Nei, nei, ég sagði það ekki.) Hann sagðist ekki vera í Alþfl. Með öðrum orðum, honum kemur þetta ekkert við. Ja, það er auðvitað svar. En það liggur fyrir af þessu fræga flokksþingi að því er mér skilst ákveðin samþykkt um fjárhagsmálefni þessara sjóða fyrir næsta ár. Og spurningin er sú: Er meiningin af hálfu fjmrh. að gera nýtt samkomulag um þetta efni við Alþfl. eða á bara að láta skeika að sköpuðu, ef flutt verður tillaga frá félmrh., um það hvernig atkvæði falla um hana? Í þessu sambandi er auðvitað sérstaklega athyglisvert að fá svör við því hvort hugmynd utanrrh. um að flytja fjármagn milli sjóða, úr Lánasjóði námsmanna yfir í Byggingarsjóð ríkisins, hefur hljómgrunn hjá fjmrh. vegna þess að það er auðvitað athyglisverð nýbreytni að taka upp á því við gerð og meðferð fjárlaga á Alþingi að taka úr Lánasjóði námsmanna og flytja yfir í Byggingarsjóð ríkisins. Stendur þetta til? Og fjmrh. svarar því á staðnum með því að segja nei. Gott og vel. Þá liggur það fyrir. En eftir standa spurningar mínar til félmrh. um hver hennar afstaða sé til frv. í ljósi þeirrar afgreiðslu sem fengist hefur í ríkisstjórn á byggingarsjóðunum tveimur, sérstaklega Byggingarsjóði ríkisins og síðan spurningarnar til fjmrh. að því er varðar það hvernig hann hyggst taka á vanda Byggingarsjóðsins og hvernig hann ætlar að bregðast við væntanlegum tillögum félmrh. um breytingar á frv. sem var gerð grein fyrir í dag.
    Ég ætla ekki að snúa þessari umræðu um fjárlagafrv. upp í allsherjarumræðu um vandamál byggingarsjóðanna eða stöðu húsnæðismálanna. Ég geri ráð fyrir því að til þess verði næg tækifæri á næstu dögum og vikum. Og ég ætla ekkert að misnota þessa umræðu til að fara út í slíka umfjöllun. En það er alveg ljóst og það hefur blasað við lengi að þarna er gríðarlegur vandi fyrir höndum sem menn hafa vitað um lengi en sem því miður hefur verið trassað að taka á eins og við höfum rætt hér í þessum sal á undanförnum þingum, ekki síst á síðasta þingi. Það hefur verið trassað að taka á fjárhagsvanda Byggingarsjóðsins sjálfs, þó svo að fyrir hafi legið í langan tíma hvað þar væri á ferðinni og hvað þar þyrfti að gera. Og því

miður hvílir höfuðábyrgðin á því ástandi og þeim trassaskap hjá hæstv. félmrh. sem ber auðvitað höfuðábyrgð á þessum málaflokki í ríkisstjórninni, þó að aðrir ráðherrar geti að sjálfsögðu ekki skotið sér undan meðábyrgð sem því fylgir að starfa með öðrum aðilum í ríkisstjórn.
    Ég ætla ekki að eyða mikið meiri tíma í þetta núna, virðulegi forseti, og virði tilmæli forseta um það. Ég hins vegar hlustaði með athygli á ræðu fjmrh. þar sem hann gerði grein fyrir frv. í heild. Vissulega kenndi þar ýmissa grasa sem ástæða er til að athuga betur og jafnvel taka undir, ekki síst þá þætti er varða skipulagsmálefni og vinnubrögð í tengslum við fjárlagagerð, ríkisreikning, fjárlög o.fl. í þeim dúr. Ég hygg að það sé að skapast miklu víðtækari samstaða um slík málefni en verið hefur og vissulega hefur þar ýmsu verið þokað til rétts vegar á undanförnum árum. En mér þótti heldur betur slá út í fyrir fjmrh. þegar hann í mælskuflóðinu í lok ræðu sinnar fór að gera úttekt á ástandi heimsmála og lagði að jöfnu annars vegar hrun kommúnismans í Austur - Evrópu og hins vegar það að efnahagsstefna einhverra tiltekinna ríkisstjórna í lýðræðislegum ríkjum hafi ekki gengið eins og talsmenn hennar hafi gert sér vonir um. Þetta er alveg fráleitur samanburður og fráleitt af manni sem er prófessor í stjórnmálafræði að gera sig sekan um slíkan málflutning, að bera saman kerfi kúgunarinnar, fangelsiskerfið í Austur - Evrópu, sem nú er sem betur fer hrunið og allir fagna, meira að segja gamlir kommúnistar uppi á Íslandi, bera það saman við það hvernig einstakar ríkisstjórnir í lýðræðisríkjum hafa skipað sinni efnahagsstefnu. Auðvitað er því ekki saman að jafna. Ríkisstjórnir hafa komið og farið í vestrænum ríkjum og haft hinar og þessar efnahagsstefnur. Og fólkið hefur haft frelsi til þess að velja og hafna. Það er grundvallarmunurinn á því kerfi sem þar hefur verið og hins vegar hinu nýhrunda kerfi kommúnismans í Austur - Evrópu sem var að niðurlotum komið og, eins og ráðherra sagði réttilega, fékk ekki staðist að neinu leyti.
    Ég ætla að leyfa mér að gera þessa athugasemd við niðurlag ræðu fjmrh. en ætla ekki að fjalla um efni hennar að öðru leyti við þetta tækifæri. Hann er íhaldsmaður í fjármálum orðinn, heyrist mér á þessari ræðu, og er það út af fyrir sig ánægjulegt þó svo það sé býsna sérkennilegt að heyra hæstv. fjmrh. Alþb., Ólaf Ragnar Grímsson, tala um óréttláta skattlagningu í öðrum löndum eins og hann gerði varðandi Bretland í sinni ræðu, maðurinn sem fann upp ekknaskattinn á Íslandi.