Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Hér hefur varaþingmaður Alþb., hæstv. fjmrh., lagt fram fjárlagafrv. sitt og hefur haft mörg orð um það sem stendur í því.
    Hæstv. fjmrh. hélt mikla ræðu fyrr í dag og fór alveg aftur til Loðvíks XVI. þar sem hann taldi að fjármálaferill fyrrv. forseta Bandaríkjanna hefði byrjað. Ég sá nú reyndar ekki tengsl við það og veit ekki til þess að fyrrv. forseti Bandaríkjanna, Reagan, hafi haft tengsl við Loðvík XVI. og má þá ætla að fjmrh. hafi samband við æðri máttarvöld og horfna menn á jörðinni. Þetta var mjög sérkennilegur hluti ræðunnar. Hinu fagna ég að hæstv. fjmrh. játaði að það kerfi sem hann hefur barist fyrir með oddi og egg í fjölda ára er nú fallið og fagnaði því að kommúnistar austan tjalds væru fallnir og sá blekkingarleikur, sem þeir hefðu haft í frammi, væri ekki lengur hafður uppi því að nú gætu menn séð hvað gæti farið fram í þeim löndum. Og ég fagna því að hæstv. fjmrh. skuli játa það að hann hefur alltaf haft rangt fyrir sér í þessum efnum og það er gott að hafa það skjalfest í þinginu.
    Þau fjárlög sem liggja fyrir eru auðvitað fyrst og fremst fjárlög skattakóngsins sem stýrir fjármálunum, fjárlög Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hefur lagt á meiri og þyngri skatta en nokkur annar fjmrh. fyrr eða síðar.
    Í fjárlagafrv. kemur fram að skattahækkanir milli ára eru 10% sem þýðir að þær eru 5 -- 6% hærri en tekjurnar hafa vaxið hjá almenningi í landinu. Þetta er auðvitað miðað við framlagningu á fjárlögum fyrir síðasta ár. Hæstv. fjmrh. lýsti því fjálglega við framlagningu fjárlagafrv. fyrir síðasta ár og árið þar áður hvað það væri vel gert og vel unnið. Þá hafði ég reiknað út skv. þeim gögnum sem ég hafði, en ég hef ekki öll þau gögn sem hæstv. fjmrh. hefur, að það mundi a.m.k. vanta 3 milljarða 165 millj. í þær tölur sem varðar skatta, þeir væru of lágt reiknaðir. Nú hefur þetta verið staðfest af fjmrh. með framlagningu aukafjárlaga þar sem kemur fram að ég hef verið nær þessum tölum heldur en fjmrh. þegar ég reiknaði þær út. En það kemur fram að vanáætlaðir skattar í fjárlagafrv.
síðasta árs eru 3,6 milljarðar. Þetta sýnir nú í rauninni mjög glögglega hvernig staðið var að þessum fjárlögum og sýnir glögglega að þrátt fyrir yfirlýsingar fjmrh. eru vinnubrögðin ekki betri en svo að það eru vanáætlanir í sköttum og einnig í útgjöldum. Það sem er alvarlegt við þessi fjárlög er auðvitað þessi aukna skattheimta án þess að það hafi verið gerð alvarleg tilraun til þess að lækka ríkisútgjöld. Og það sem er einnig alvarlegt við þetta er það að hér skuli haldin löng og mikil ræða af hæstv. fjmrh. í þá veru hvað ríkisfjármálin standi nú vel og séu snilldarlega vel gerð af hans hálfu þegar það stenst ekki. Ég hefði viljað koma hér inn á marga þætti fjárlaganna en að sinni held ég að sé betra að halda sig við afmarkað svið. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það sem stendur á bls. 271 í fjárlögum, með leyfi forseta:

    ,,Í áætlun um tekjur af hinu nýja tryggingaiðgjaldi fyrir árið 1991 er auk fyrrgreindrar breytingar gert ráð fyrir sérstöku álagi á iðgjaldsstofninn. Þetta atriði er tengt þeim breytingum sem kunna að verða í skattlagningu ríkis og sveitarfélaga með aukinni samræmingu skattkerfisins við alþjóðlega þróun. Enn fremur er álagið hugsað til að mæta auknum kostnaði ríkisins vegna ýmiss konar þjónustu við sveitarfélög, sérstaklega hin stærri, á síðari árum. Hins vegar kemur til greina að í stað álagsins komi aukin þátttaka sveitarfélaga í þessum kostnaði. Miðað er við að álagið skili 800 millj. kr. á næsta ári.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann geti ekki skýrt þinginu frá því nákvæmlega hvernig þessar auknu álögur eigi að leggjast á fólk. Er það eingöngu á atvinnurekstur í einkarekstri? Er það á atvinnurekstur sveitarfélaga? Er það á atvinnurekstur bænda? Er það á atvinnurekstur eins og opinberar stofnanir ríkisins? Er þetta einhver töluleikur? Hvaða auknu álögur eru þetta? Og ég held að það sé nauðsynlegt að fá úr þessu skorið því að þetta er afar óljóst orðað í frv.
    Ég hefði getað haldið hér töluvert langa ræðu um skattaútreikning hæstv. fjmrh. og full ástæða til að taka það fyrir þegar að því kemur. Ég vil aðeins ítreka það að hér eru hæstu eignarskattar sem lagðir eru á á byggðu bóli. Það finnst alla vega ekkert land í heiminum sem leggur á hærri eignarskatta og það á íbúðarhúsnæði vegna þess að fyrst og fremst eru hér lagðir eignarskattar á íbúðarhúsnæði.
    Ég vil minna á þjóðarbókhlöðuskattinn. Það væri fróðlegt að fá því svarað hvað fjmrh. hefur hugsað sér að taka af þeim skatti til annarra nota en er ætlað í lögunum, eins og hann hefur gert undanfarin ár, og reyndar aðrir fjmrh. einnig. Það væri fróðlegt að fá að vita það. En eins og allir vita þá leggst þjóðarbókhlöðuskatturinn að stærstum hluta á íbúa í Reykjavík og Reykjanesi eða 79% af þeim sköttum samkvæmt þeim svörum sem hæstv. fjmrh. hefur gefið mér um þessi mál. ( Fjmrh.: Hann var fundinn upp af Sjálfstfl.) Hæstv. fjmrh. segir að þessi skattur hafi verið fundinn upp af Sjálfstfl. Má vera, en þessum lögum var nú engu að síður breytt í fyrra og er það þá nýr skattur sem var lagður á þar.
    En ég vil einnig minna hæstv. fjmrh. á það að eignarskattar á Íslandi eru þeir hæstu sem um getur og sé borið saman við Norðurlöndin þá er svo gífurlegur munur á þessum sköttum af íbúðarhúsnæði, og reyndar eignarsköttum almennt, að það er með ólíkindum því að yfirleitt er sú grundvallarregla að slíkir skattar leggjast ekki á eignir fyrr en eftir svona 12 -- 16 millj. og eru þá mun lægri heldur en hér. Ég get minnt á í þessu sambandi að af 12 millj. kr. fasteign á Íslandi borgar maður 252 þús. 875 kr. í eignarskatta að meðtöldum fasteignagjöldum, sem eru eignarskattar líka og alltaf taldir til þeirra, en í Finnlandi 7647 kr., aðeins til að gefa hugmynd um hver þessi mikli munur er.
    Það hlýtur að vera áhyggjuefni hve háir þessir skattar eru og svo er reyndar um aðra skatta. Þegar reiknaðir eru skattar til samanburðar á milli OECD og

Íslands er ég hræddur um að þar vanti inn í ýmis gjöld, þar á meðal fasteignagjöld, og því mundi það hækka skatthlutfallið allverulega ef þeim væri bætt við. Það hlýtur að vera okkar krafa að hér gildi sama regla, eða álíka a.m.k., og gildir hjá öðrum þjóðum um þessi mál. En svo er ekki. Og það er því svo að þeir aðilar sem núna á að gera ókleift að fá lán úr Byggingarsjóði ríkisins eru hinir sömu aðilar og væntanlega eiga að borga eignarskattana líka.
    Ég verð að segja það að sú stefna sem núv. ríkisstjórn rekur varðandi Byggingarsjóð ríkisins er náttúrlega til skammar og hefur hæstv. ríkisstjórn enga afsökun fyrir því. Og ég hefði haft ánægju af því að ræða um það sérstaklega við hæstv. félmrh. sem lagði til með frv. til fjáraukalaga sl. vor að framlög til Byggingarsjóðs ríkisins yrðu skert um 100 millj. og rís nú upp og segir að hæstv. utanrrh. hafi tekið sig af lífi fyrir það að standa ekki með sér í þessum málum. Það er auðvitað dálítið einkennilegur málflutningur. Það hlýtur að vera krafa til bæði fjmrh. og félmrh. að þeir skýri fyrir þinginu hvað þeir ætla að gera í málefnum þeirra sem bíða þúsundum saman eftir framlögum eða lánum úr Byggingarsjóði ríkisins. Margir þeirra eru með skammtímalán sem er mjög há greiðslubyrði af þannig að stór hópur fólks er í verulegum vandræðum. Ef það er rétt sem hæstv. félmrh. lét koma hér fram við fyrirspurn minni í vor um þetta þá bíða núna um 9000 manns eftir láni frá Byggingarsjóði ríkisins. Þetta er auðvitað ekkert smámál. Þetta er stórmál. Ég hef sagt að þetta varði 20 þúsund manns í landinu, bara þessi hluti. Það hlýtur að vera krafa um það að í fjárlögum fyrir íslenska ríkið sé gerð grein fyrir því hvernig á að standa að þessum málum og hvernig á að leysa vanda þessa fólks til frambúðar. Það hlýtur að vera krafa til hæstv. fjmrh. hverju sinni að hann geri ráðstafanir til þess að málaflokkur af slíkri stærðargráðu sé leystur með einum eða öðrum hætti.
    Nú má vel vera að hæstv. fjmrh. muni óska eftir að fara þá leið að setja hér á laggirnar húsbanka sem hefði verið ein leið til að leysa þessi mál og má ætla það af ummælum í hans ræðu. Hann er orðinn það hægrisinnaður að hann getur nú væntanlega staðið með okkur frjálslyndum hægrimönnum í Sjálfstfl. að því að leggja hér fram frv. um að það verði stofnaður einkabanki, húsbanki, til að leysa þessi mál í eitt skipti fyrir öll hvað varðar það fólk sem er að koma sér upp eigin húsnæði. Það hlýtur að vera markmið hverrar ríkisstjórnar að sá málaflokkur sé í höfn og vel sé um þau mál hugsað. Ég get ekki ímyndað mér annað en hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. geti sameinast með okkur um að stofna hér einkafyrirtæki til að leysa úr þessari þörf því ég tel eins og málin standi að við hljótum að gera kröfu um það. Þar sem þessi málaflokkur er nú á framfæri ríkisins má segja á að gera ráð fyrir lausn á þessum málum í fjárlögum. Þess vegna hlýtur það að vera krafa til fjmrh., til félmrh., að þeir leggi fram frv. til laga um lausn þessara mála því að það getur ekki talist boðlegt fyrir ríkisstjórn að hér bíði fólk í biðröð með tæpar 9000 umsóknir án þess að það viti um neina lausn eða geti gert sér grein fyrir sínum fjármálum. Það hlýtur að vera krafa um það að fólk geti gert sínar áætlanir, heimilin í landinu geti ákveðið hvernig þau ætla að haga sínum málum og treyst því að það sé lausn til langs tíma. Og það hlýtur að verða að gera kröfu um það á tímum þjóðarsáttar, þegar kaupi er haldið niðri en lán hafa hækkað töluvert, að hægt sé að leysa slík mál með varanlegum langtímalánum. Sú brotalöm sem er á þessum málaflokki verður að leysast af ríkisstjórninni og það er ekki hægt að skjóta sér á bak við það að ekkert sé hægt að gera af því að fjárlögin bjóði ekki upp á það vegna þess að það er hægt að leysa þetta með einkafyrirtæki.
    Ég verð að segja það, að ræða hæstv. fjmrh. var um margt undarleg þegar hann var að berja sér hér á brjóst og segja að hann hefði nánast einn allra manna lagt fram marktæk fjárlög. Það vita allir að svo er ekki og það vita allir að í þessum fjárlögum hér er innibyggð stífla sem brestur eftir kosningar. Þetta eru ekki raunhæf fjárlög. Það hefði auðvitað þurft að liggja hér fyrir langtímaáætlun um minnkun ríkisbúskaparins sem auðvitað ríkisstjórn hverju sinni er sú eina sem getur lagt fram tillögur um það. Og ég efast ekki um að ef það hefði verið leitað til Sjálfstfl. um slík mál hefði hann verið tilbúinn til að líta á það. Það hlýtur að verða að gera það.
    Það eru fréttir um það núna í morgun að sósíalistar í Svíþjóð hafa ákveðið að fækka ríkisstarfsmönnum um 10%. Ég hef reyndar séð fréttir um það frá Svíþjóð að þeir hafa ákveðið að það eigi að skera niður ríkisútgjöldin vegna þess að þeir telja að þeir séu orðnir ósamkeppnisfærir við Evrópulönd. Það sé allt of viðamikið ríkiskerfi, hinn svokallaði sósíalismi sé að hrynja í Svíþjóð eins og hjá félögum Ólafs Ragnars enn þá austar.
    Ég vil líka benda á það að fyrir norska þinginu liggja mjög ítarlegar tillögur um breytingu á skattalögum og allar þessar tillögur ganga í þá veru að minnka ríkisumsvif og auka frjálsræði hjá fólki með fjármagnið. Það hefur verið orðað svo að fjármagnið sé hamar og sög fólksins. Ef maður tekur hamar og sög af smið, þá getur hann ekki lengur unnið sem smiður því að hann hefur engin verkfæri. Og eins er það með peningana. Ef það eru lagðir nógu miklir skattar á fólkið, þá myndast það sem hefur myndast í austantjaldslöndunum, það myndast fátækt. Það myndast bágari lífskjör vegna þess að máttur veltunnar er nefnilega töluvert mikill og það þarf ekki að vera þó að skattar séu lækkaðir að skatttekjur ríkisins minnki. Þvert á móti getur það aukið skatttekjur ríkisins vegna þess að peningarnir fá fyrst að velta nokkrum sinnum og ríkið fær oftar skatta en annars yrði. Og ég vil benda á að samkvæmt þessum fjárlögum hér, eftir því sem ég get komist næst, hafa tekjur vegna virðisaukaskattsins ekki aukist eins mikið og fullyrt var þegar sú breyting gekk yfir. Það hlýtur að benda til þess að ráðstöfunartekjur heimilanna séu miklu minni, sem þýðir þá minni veltu í þjóðfélaginu og minni skatttekjur til ríkisins. Það er orsökin fyrir

því að virðisaukaskatturinn hefur ekki skilað meiri tekjum en raun ber vitni. Og á þetta hlýtur ríkisstjórn hverju sinni að líta.
    Ég efast um að þau fjárlög sem hér liggja fyrir séu raunhæf. Ég óttast að hér eigi að auka skatta á ýmsum sviðum og tel að fjárlögin reyndar staðfesti það. Miðað við fjárlög síðasta árs er reiknað með að eignarskattar aukist um 18%. Miðað við fjárlög síðasta árs er talið að tekjuskatturinn aukist um 27% og miðað við fjárlög síðasta árs er gert ráð fyrir að persónuskattar, eða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, aukist um 60%. Þetta segir töluvert.
Þetta segir það að það á að auka skattana á venjulegum launamönnum. Þetta segir auðvitað ekki að það verði svona mikil hækkun, en þetta segir það, ef við tökum fjárlög síðasta árs sem hæstv. fjmrh. talaði hér fyrir og sagði að væru tímamótafjárlög af því að þau væru svo rétt, að það er mikil aukning á skattheimtu, væntanlega fyrir bæði árin 1990 og 1991, fram yfir það sem kaup fólks hefur orðið. Og það er áætlað að þessi skattheimta af fólkinu í landinu verði aukin allverulega.
    Ef skoðuð er tímavinna iðnverkafólks í hinum ýmsu löndum þá sjáum við að tekjurnar á Íslandi eru miklu lægri í tímalaunum en í flestum löndum OECD. Við sjáum að fólkið verður að vinna miklu fleiri vinnustundir til að ná upp sömu tekjum. Þetta er líka munurinn á því þegar verið er að bera saman skatta í OECD - löndum og á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum nefndar sem var skipuð til að rannsaka vinnustundir og fjárhæðir sem menn fá út úr því á Norðurlöndunum þá liggja 60 vinnustundir að baki sama kaups og er borgað fyrir 40 á Norðurlöndunum. Íslendingar verða að vinna 60 stundir þegar hinir vinna 40 stundir á Norðurlöndunum. Þetta er aðalmunurinn. Og hvað varðar það að hér séu lægri skattar en í OECD þá er það rangur samanburður vegna þess að það er ekki tekinn með þessi langi vinnutíma og ýmislegt fleira sem vantar inn í þann samanburð. Og þegar hv. 5. þm. Vestf. var að tala hér um hungurmörk áðan þá verð ég að segja það að hv. þm. þekkir greinilega ekki þá sem eiga hvað minnst undir sér hér á Íslandi því það er til fólk sem lifir við hungurmörk, því miður, á Íslandi og það á bágt. Og ég veit það að hæstv. félmrh. veit þetta og þeir menn sem eru í tengslum við það fólk sem minna má sín. En það er til fólk sem á verulega bágt hér á Íslandi, því miður. Fram hjá því verður ekki gengið. Hvað sem verður talað fjálglega um það að við ferðumst til sólarlanda og höfum það alveg dásamlegt, þá er það bara ákveðinn hópur fólks sem getur það. Hins vegar getur þorri íbúa á Norðurlöndunum veitt sér það að fara til sólarlanda vegna þess að ferðir þar eru miklu ódýrari og menn hafa miklu rýmri tekjur og frítíma.
    Ég vil að svo stöddu ekki ræða þetta frv. öllu meira en get gert það við síðari umræðu þessa máls. En ég vil segja það að lokum að ef menn vilja tala af alvöru um launamál á Íslandi og skattlagningu og hvernig staða þeirra mála er, þá verða menn að játa það að það er lakari afkoma hér hjá flestum þjóðfélagshópum en í nágrannalöndunum. Og margir eru farnir að hugsa sér til hreyfings, því miður. Margir eru farnir að hugsa sér að fara af landi brott og eru sumir reyndar þegar fluttir. Þannig er ástandið í dag á Íslandi og fram hjá þessum hlutum getur enginn stjórnmálamaður gengið, hvort sem hann er stuðningsmaður ríkisstjórnar eða í stjórnarandstöðu. Þessi mál verða ekki leyst nema þjóðarbúið fái meiri tekjur og fleiri stoðum verði skotið undir rekstur þjóðarbúsins. Jafnframt verður að íhuga það að skera niður opinbera kerfið. Með þeim hætti sem það er rekið í dag höfum við ekki efni á því.