Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. fór hér nokkrum orðum um húsnæðismál áðan og beindi nú orðum sínum aðallega til hæstv. fjmrh. Einni spurningu beindi hann að vísu til mín sem ég tel mig reyndar hafa svarað á öðrum vettvangi. Spurning hans laut að því hver væri afstaða mín til þess sem fram kemur í frv. um byggingarsjóðina og þá fjárlagafrv. Ég hef svarað því til, hv. þm., að ég hef lýst ágreiningi við ríkisstjórnina um þá niðurstöðu sem liggur fyrir í frv. til fjárlaga varðandi byggingarsjóðina og áskilið mér allan rétt til þess að ná viðunandi lausn í það mál hér á Alþingi og ég sé enga ástæðu til þess að ætla annað en það náist lausn milli stjórnarflokkanna sem er ásættanleg fyrir alla aðila við meðferð frv. hér á Alþingi.
    Ég ætla nú ekki frekar en hv. 17. þm. Reykv. að setja hér á almenna umræðu um húsnæðismál en vil þó fara örfáum orðum um það sem hv. þm. ræddi hér áðan. Hv. þm. viðhafði þau orð varðandi stöðu Byggingarsjóðs ríkisins að þetta væri vandi sem menn hefðu vitað um lengi og, eins og hann orðaði það, það hefði legið fyrir í langan tíma hvert stefndi. Þetta eru vissulega orð að sönnu sem ég get undir tekið.
    Ég vil rifja upp, virðulegi forseti, að þegar lánakerfinu frá 1986 var komið á hér á vordögum 1986 fór það í gegnum þessa virðulegu stofnun hér á fimm dögum, í gegnum báðar deildir og meðferð málsins í nefnd, og það gafst lítill tími fyrir hv. þm. til þess að skoða áhrif og afleiðingar af því lánakerfi sem þeir voru að samþykkja. Því hefði auðvitað verið mikill fengur í því ef fyrir hefði legið á Alþingi greinargerð frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun sem samin var 24. febr. árið 1986 um áhrifin af þessu kerfi sem komið var á laggirnar 1986. Ég hef ekki séð þessa greinargerð fyrr en fyrst í dag og mig rekur í rogastans að sjá þessa greinargerð sem lá fyrir 24. febr. frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun sem, mér vitanlega, var ekki lögð fyrir Alþingi. Og hver var þá fjmrh. þegar þessu lánakerfi var komið á 1986? Það var formaður Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteinn Pálsson. Þetta er greinargerð sem Fjárlaga - og hagsýslustofnun gerir fyrir þáv. fjmrh. 1986 ( Gripið fram í: Hver var aðstoðarmaður fjmrh.?) þar sem fram komu skuggalegar tölur um áhrifin af þessu kerfi. Já, ég gleymdi því nú reyndar. Það var, að því er ég best man, virðulegur 17. þm. Reykv. Ég vænti þess að hann hafi þá séð þetta skjal og fjmrh. hafi ekki verið að leyna sinn aðstoðarmann því. Það er alvarlegur hlutur ef þáv. fjmrh. með þetta skjal í höndunum hefur leynt Alþingi þessu áliti Fjárlaga - og hagsýslustofnunar. Þar eru metin áhrifin af þessu kerfi allt til ársins 1996 og þá er eingöngu miðað við 1,5% vaxtamismun á inn - og útlánum. Engu að síður kemur þar fram að mismunur, fjárvöntun, þegar teknar eru afborganir og vextir, ættu samkvæmt þessu skjali að vera núna, á árinu 1990, 1530 millj. á verðlagi 1986, 1530 millj. fjárvöntun á verðlagi 1986. Mismunurinn á afborgunum og vöxtum, inn - og útlánum. Það er mjög alvarlegur hlutur, hv. þm., ef það

reynist rétt að Alþingi hefur verið leynt þessu skjali sem lá fyrir í fjmrn. á þessum tíma. Vegna þess að mér býður í grun að ef þingmenn hefðu séð þetta skjal sem þá lá fyrir, þegar þessu frv. var hespað í gegnum þingið á fimm dögum, hefðu menn tekið sér lengri tíma til þess að skoða áhrifin af þessu kerfi. Og mér er til efs að það hefðu allir treyst sér til að standa að því miðað við það sem fyrir lá í þessu skjali um þá fjárvöntun sem við mundi blasa á komandi árum ef þetta gengi eftir sem Fjárlaga - og hagsýslustofnun spáði.
    Ég skorast ekki undan ábyrgð í þessum málaflokki, þegar ég fer með þennan málaflokk eins og hv. þm. vitnaði til, enda hef ég lagt fram hér á þingi ýmis frv. til þess að snúa ofan af þessu kerfi, til þess að hægt sé að innleiða kerfi sem gengur upp, t.d. með húsbréfum. Það er mjög athyglisvert, af því að sjálfstæðismenn tala nú mikið um húsnæðismálin og hafa gert það í mörgum greinum hér í sumar, að það er raunverulega enginn sem veit hver er afstaða sjálfstæðismanna til húsnæðismála. Ég held að það væri fróðlegt t.d. að fá svar við því hvort sjálfstæðismenn vilja viðhalda lánakerfinu frá 1986 eða ekki. Þjóðin veit það ekki. Þjóðin hefur ekki hugmynd um það hvort sjálfstæðismenn vilja viðhalda þessu kerfi eða ekki. Þeir eru a.m.k. alltaf að kalla eftir peningum í það og af því má auðvitað draga þá ályktun að þeir vilji viðhalda þessu kerfi.     En þegar maður horfir til fjármuna sem lagðir hafa verið í þetta kerfi á fjárlögum 1987, þegar horft er á heildarfjármagn sem hefur farið til húsnæðismála gegnum ýmis bein ríkisframlög í byggingarsjóðina eða gegnum skattakerfið, þá er heildarfjármagnið á árinu 1990 ekki minna en það var á árinu 1987, í fjárlagafrv. sem Þorsteinn Pálsson hefur þá lagt fram fyrir árið 1987. Þar er heildarfjármagn til húsnæðismála, þá er ég að tala um bein ríkisframlög og það sem ríkissjóður tekur á sig í gegnum skattakerfið, 3230 millj. á árinu 1987 en á árinu 1990 3250. Mismunurinn er sá að stærri hluti rennur í gegnum skattakerfið en var 1987 og hvers vegna? Af því að það er búið að breyta kerfinu þannig að niðurgreiðslan sem kemur frá ríkissjóði nýtist þeim sem á því þurfa að halda með vaxtabótakerfinu en minna hefur komið í bein ríkisframlög til sjóðanna í staðinn. En heildarfjármagnið sem ríkissjóður lætur af hendi þessi tvö ár, 1987 og 1990, er það sama.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu, virðulegi forseti. Hv. þm. Hreggviður Jónsson fór nokkrum orðum um þá 5.500 umsækjendur sem bíða í lánakerfinu frá 1986 eftir úrlausn sinna mála. Ég held að það verði að skoða þetta mál í miklu víðara samhengi en hv. þm. gerir vegna þess að húsbréfakerfið þjónar fyllilega þeim umsækjendum sem bíða í lánakerfinu frá 1986. Þeim stendur það öllum opið og það hafa einmitt verið sett ákvæði til bráðabirgða til þess að tryggja það að þeir sem hafa fest kaup á íbúð í lánakerfinu frá 1986 og eru að bíða eftir að fá lánafyrirgreiðslu geta gengið strax inn í húsbréfakerfið þrátt fyrir það að þeir hafi keypt sér íbúð. Það eru sennilega nokkur hundruð af þessum umsækjendum, 5.500,

sem bíða í þessari biðröð, sem hafa farið yfir í húsbréfakerfið. Reynslan sýnir að stór hópur af þessu fólki er með greiðslubyrði sem er um það bil 40 -- 60% af tekjum þess og þó það hefði fengið fyrirgreiðslu í lánakerfinu frá 1986 hefði greiðslubyrði þess engu að síður verið um 30 -- 40% af tekjum. En þegar það aftur fer inn í húsbréfakerfið, sem nokkuð stór hópur hefur gert, þá hefur það létt greiðslubyrðina hjá þessu fólki úr því að vera 40 -- 60% af tekjum niður í 15% af tekjum.
    Ég vil segja það að ef Alþingi ber gæfu til að samþykkja það frv. sem nú liggur fyrir þingflokkunum um breytingu á húsbréfaviðskiptum, sem sérstaklega á að taka á greiðsluerfiðleikamálum hjá fjölskyldum sem eru í miklum greiðsluvanda og eru við að missa sínar íbúðir, þá held ég að við náum þar stórum áfanga. Margt af þessu fólki er með skuldir upp á að meðaltali um 3,5 millj., skammtímaskuldir upp á 1.250 þús., og ef þetta frv. verður að lögum gæti greiðslubyrði hjá þessu fólki, sem er almennt nú um 100 þús., lækkað niður í 30 þús. Ég er að tala hér um raunhæfar leiðir til þess að ná árangri fyrir þetta fólk og ég er sammála hæstv. fjmrh. um að það á ekki að ausa milljörðum og aftur milljörðum inn í þetta kerfi sem Ríkisendurskoðun hefur staðfest að er gjaldþrota. En við verðum auðvitað að snúa við hjólinu og taka á þessum uppsafnaða vanda og það hef ég lagt áherslu á í ríkisstjórn að verði gert.
    Ég skal ekki tefja tímann hér lengur en vænti þess að ég hafi svarað þeim fyrirspurnum sem liggja fyrir. Ég vil þó í lokin, virðulegi forseti, vekja athygli á því að ef lánakerfinu frá 1986 verður lokað, eins og ég hef talað fyrir að væri skynsamlegast, þá verða lántökur Húsnæðisstofnunar ríkisins hjá lífeyrissjóðunum um 14 milljörðum kr. minni á ári en ef við héldum áfram þessu kerfi og munar nú um minna. Áætlað er að með tilkomu húsbréfakerfisins verði lántökur íbúðakaupenda hjá bönkum, lífeyrissjóðum og með handhafaskuldabréfum um 4,5 milljörðum kr. lægri á ári en ef við héldum áfram þessu kerfi. Og það er áætlað að ráðstöfunarfé banka og lífeyrissjóða muni aukast um allt að 18 milljarða kr. á ári með lokun lánakerfisins frá 1986 og með tilkomu húsbréfakerfisins, einfaldlega vegna þess að það hefur sýnt sig að fólk notar stóran hluta í húsbréfakerfinu til þess að grynnka á skammtímaskuldum í bönkum og greiða upp erfið lán hjá lífeyrissjóðunum.
    Ég held þess vegna að menn verði að átta sig á þessum hlutum. Það er tímabært að Alþingi taki afstöðu til þess hvort það vill viðhalda þessu lánakerfi frá 1986 eða leggja það af vegna þess að það verður að eyða þeirri óvissu sem þessir 5.500 umsækjendur eru í, ég er því alveg sammála. En menn mega ekki berja hausnum við steininn og láta þetta bara danka áfram. Það er mín skoðun að þingið verði að taka afstöðu til lokunar lánakerfisins frá 1986 vegna þess að ef það er ekki gert, þá kallar það auðvitað á stórar fjárhæðir inn í þetta lánakerfi sem ég held að þjóni hvorki hagsmunum íbúðakaupenda eða seljenda né skattgreiðenda og ríkissjóðs.