Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Er nú greinilegt að ýmsir flokkar vilja eigna sér þetta fjárlagafrv. og telja það samræmast þeirra stefnumálum og er það vel. Ég ætla hins vegar að víkja að fáeinum spurningum sem hér hafa komið fram og örfáum athugasemdum. Í fyrsta lagi vegna orða Pálma Jónssonar, sem oft heyrist frá sjálfstæðismönnum, að það hafi verið aðilar vinnumarkaðarins sem hafi tekið stjórnina í sínar hendur og náð þessum mikla árangri í efnahagsmálum, þá ætla ég nú ekki hér í þessum stutta tíma að gera það að umtalsefni en mun ræða það síðar, en aðeins leggja fram eina spurningu sjálfstæðismönnum til umhugsunar og þarf ekki svara henni hér í dag en mætti gjarnan svara henni síðar: Hvernig stóð á því að aðilum vinnumarkaðarins datt ekki þetta snjallræði í hug á þeim fimm árum sem Sjálfstfl. fór hér með stjórnina, árin 1983 -- 1988? Það er alveg greinilegt að á þeim árum hafa aðilar vinnumarkaðarins ekki verið reiðubúnir til samstarfs um það að ná verðbólgunni niður en gera það hins vegar í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þetta er spurning sem hefur hvarflað að mér í ljósi þessara kenninga sem oft heyrast frá sjálfstæðismönnum um þetta efni.
    Í öðru lagi er það nú ekki rétt hjá hv. þm. Pálma Jónssyni að ég hafi sagt að þessi ríkisstjórn skildi eftir sig þau sjóðavandamál sem ég vék að í minni framsöguræðu heldur lagði ég á það ríka áherslu að þetta er vandamál margra undanfarinna ára, jafnvel síðustu 10 -- 15 ára og er nauðsynlegt að menn átti sig alveg skýrt á því.
    Hv. þm. spurði einnig, eins og reyndar fleiri þingmenn, um það sérstaka álag sem vikið er að varðandi hið nýja tryggingagjald og tengist samskiptum ríkis og stærri sveitarfélaganna sérstaklega. Á þessu stigi er rétt að árétta það, sem reyndar kemur fram í frv., að þessi atriði eru til umfjöllunar og vinnslu í fjmrn. og milli einstakra ráðuneyta og við hagsmunaaðila og sú vinnsla, þó henni miði vel, er á því stigi að ekki er komið að lokaútfærslu málsins.
    Hitt er hins vegar ljóst að á síðari árum hefur aukist mjög kostnaður ríkisins af ýmiss konar verkefnum sem tengjast sérstaklega þjónustu og aðstöðu íbúa sveitarfélaganna. Þetta er bæði vegna almennra breytinga í þjóðfélaginu og eins vegna verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Að mörgu leyti er eðlilegt að taka mið af því og tekjuskiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga þegar breyting verður gerð á skattkerfinu bæði hvað snertir ríki og sveitarfélög. Hins vegar er það ekki ætlunin hjá ríkinu að halda þessu álagi ef dregur úr þessum verkefnum gagnvart sveitarfélögunum, eins og mér fannst koma fram hjá hv. síðasta ræðumanni, heldur er þvert á móti lögð á það áhersla af hálfu fjmrn. að ef sveitarfélögin vilja í viðræðum milli ríkis og sveitarfélaga fá þessi verkefni í auknum mæli til sín, þá að sjálfsögðu fylgi þeim tekjustofnar á móti. Það er því ekki ætlunin hér að fara að skattleggja sveitarfélögin sérstaklega fyrir verkefnum

sem eru hjá ríkinu. En meðan þau eru hjá ríkinu er nauðsynlegt að skoða þessa fjármögnun með þeim hætti sem hér er vikið að og er nú í vinnslu.
    Ég hef hins vegar hvað eftir annað á þessu stigi, undirbúningi málsins, lýst þeirri skoðun að ef sveitarfélögin vilja taka einhver af þessum verkefnum enn frekar til sín þá að sjálfsögðu fylgir því sú tekjuöflun sem þarf þar á móti. Þessi atriði munu hins vegar skýrast nánar á næstu vikum og mánuðum þegar þessi mál koma til nánari umfjöllunar, bæði hér í þinginu og eins í viðræðum milli ráðuneytisins og viðkomandi hagsmunasamtaka.
    Það er einnig misskilningur hjá hv. þm. Pálma Jónssyni að jöfnunargjaldið muni á næsta ári gefa miklu meira en ætlað er í þessu frv. vegna þess að það gefi meira í ár. Ástæðan fyrir því að það gefur meira í ár er einfaldlega sú að í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár var reiknað með að jöfnunargjaldið félli niður á miðju ári.
    Ég tek undir það að nauðsynlegt er að ræða áfram það frv. sem fjvn. lagði hér fram á þinginu og efnisatriði þess og ég fullvissa þá þingmenn sem að því hafa vikið og eiga sæti í fjvn. um að það er einlægur vilji af hálfu fjmrn. að svo verði gert. Við höfum látið þá skoðun koma fram á samræðufundum við fulltrúa bæði stjórnar og stjórnarandstöðu í fjvn. og höfum lagt fram ákveðnar hugmyndir um þá vinnu. Ég tel mjög mikilvægt hins vegar að ekki verði togstreita á milli þingsins og framkvæmdarvaldsins um þetta efni vegna þess að ég held að af hálfu beggja aðila ríki skilningur á því að það þurfi að taka á þessum málum með breytingu á gildandi lögum. Ég vona að á næstu vikum skýrist þessi mál nánar í viðræðum milli sérfræðinga bæði fjmrn. og annarra ráðuneyta og fjárveitinganefndarmanna og sérfræðinga þeirra þannig að það eigi að geta orðið nokkuð góð samstaða hér í þinginu um breytingar í þessum efnum.
    Það er einnig misskilningur sem kom fram hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni að því hafi verið lýst yfir að sett yrði sérstök nefnd í það að fara yfir breytingar á virðisaukaskattinum hvað snertir hugsanlega fleiri þrep í þeim skatti. Það sem lýst var yfir var að sérstök athugun mundi fara fram og skýrsla lögð fram um framkvæmd virðisaukaskattsins og hugsanlegar breytingar og það verður gert. Sú skýrsla er í vinnslu og hún verður lögð fram innan tíðar.
    Ég vil einnig lýsa því yfir hér að ég tel eðlilegt að Framkvæmdasjóður aldraðra og Framkvæmdasjóður fatlaðra taki að sér meira af ýmsum verkefnum sem tengjast þessu sviði, einfaldlega vegna þess að það er ekki samræmi eða skynsemi í því að leggja þetta fjármagn í steinsteypuna eina, eins og sumir hafa orðað það, ef hvorki er svigrúm til þess að taka slíkt húsnæði í notkun né heldur halda því við. Þess vegna sé almennt skynsamlegt að fara inn á þá braut að breikka hlutverk framkvæmdasjóðanna og láta þá halda sínum tekjum fullkomlega.
    Hv. þm. Geir Haarde vék síðan nokkuð hér að byggingarsjóðunum, sérstaklega Byggingarsjóði ríkisins. Ég ætla nú ekki, vegna þess að hann hefur óskað eftir umræðu síðar í þinginu um þau mál, að fjalla í löngu máli um það. Mér fannst hins vegar athyglisvert að hann sagði orðrétt: ,,Hér er vandi sem menn hafa vitað um lengi en því miður hefur verið trassað að taka á.`` Og honum varð tíðrætt um þennan trassaskap.
    Nú vill svo til að þegar ég skoðaði þessi mál í fjmrn. þá kom í ljós, og kom mér satt að segja á óvart, að þáv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson hafði fengið í hendur minnisblað 24. febr. 1986 frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun þar sem lagt var mat á þær tillögur um breytt húsnæðiskerfi sem var verið að ræða og sem þáv. ríkisstjórn tók þátt í að framkvæma. Á þessu minnisblaði frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun dags. 24. febr. 1986 er það reiknað út alveg nákvæmlega hvernig þetta kerfi getur af sér sívaxandi halla fram að árinu 1996 og endar á árinu 1996 í rúmlega þriggja milljarða fjárvöntun á verðlagi ársins 1986. Stigvaxandi felur þetta í sér að fyrsta árið, 1987, er fjárvöntunin, mismunur á innstreymi og greiðslu, rúmar 400 millj., rúmar 800 millj. 1988, rúmar 1100 millj. 1989, rúmar 1500 millj. 1990, rúmar 1800 millj. 1991, rúmar 2100 millj. 1992, rúmar 2400 millj. 1993, rúmar 2700 millj. 1994, tæplega 3 milljarðar 1995 og rúmlega 3 milljarðar og 200 millj. 1996.
    Ég skal ekkert fullyrða hér um það hvort þetta skjal var kynnt Alþingi þegar þetta mál var afgreitt. Ég sat ekki á þingi þá og veit það þess vegna ekki. En ég minnist þess ekki að, a.m.k. í fjölmiðlaumræðu um þessa nýskipan í húsnæðismálum sem tekin var upp 1986, væri gerð grein fyrir því að þetta kerfi var gjaldþrota frá upphafi. Og þeir menn sem samþykktu það að taka þetta kerfi upp 1986 og beittu sér fyrir því, a.m.k. sumir þeirra sem sátu í fjmrn., a.m.k. í stóli fjmrh., höfðu fengið í hendur gögn þar sem þeim var gert ljóst að þetta kerfi var frá upphafi gjaldþrota. Þess vegna hef ég enn frekar lagt á það áherslu á undanförnum vikum að lausnin á þessu vandamáli er ekki að dæla sífellt meiri og meiri peningum úr skattasjóði þjóðfélagsins inn í þetta kerfi. Það verður að breyta sjálfu kerfinu, stokka það upp eða leggja það niður vegna þess að það hefur frá upphafi legið ljóst fyrir að það gengi ekki upp.
    Sá sannleikur liggur núna fyrir og finnst mér athyglisvert að embættismenn í fjmrn. skyldu reiða hann fram á febrúardögum 1986. Ég er alveg tilbúinn að gefa hv. þm. ljósrit af þessu minnisblaði, bæði vegna þess að ég tel það rétt og eðlilegt og eins vegna þess að hann starfaði í fjmrn. á þeim tíma. Ég hef þess vegna lagt á það áherslu í viðræðum mínum við hæstv. félmrh. að kjarni málsins væri að taka á kerfinu en ekki blekkja menn til lengdar með því að setja einhverja milljarða í núverandi fjárlögum eða næstu fjárlögum inn í kerfið og koma þannig í veg fyrir að menn tækju á þessum vanda. Og ég hef nú talið að hæstv. félmrh. væri fjmrh. sammála um það atriði.
    Hæstv. félmrh. hefur hins vegar lýst því yfir að hún teldi rétt að hærri upphæðir kæmu í þessa sjóði á næsta ári. Ég tel það nú ekki jafngilda því að hún

standi ekki að fjárlagafrv. Ég skildi ekki orð hennar í ræðustól hér áðan á þann veg að hún stæði ekki að þessu fjárlagafrv. Hæstv. félmrh. tók virkan þátt í að semja þetta fjárlagafrv. eins og aðrir ráðherrar frá upphafi til loka og ég hef átt ágæta samvinnu við hæstv. ráðherra um gerð þessa fjárlagafrv. eins og við aðra samráðherra mína.
    Hv. þm. Geir Haarde lýsti því yfir að ég væri höfundur ekknaskattsins. Það er því miður nánast ekki rétt heldur er ekknaskatturinn tilkominn vegna þeirra breytinga sem þáv. fjmrh. Matthías Á. Mathiesen beitti sér fyrir 1977 og fólst í sérsköttun hjóna, sem mikil krafa var um á þeim tíma. Eðli þeirrar skattlagningar var á þann veg að þegar maki féll frá hlaut eignarskattur eftirlifandi maka að hækka stórkostlega. Það má hins vegar segja að hann hafi aukist í tíð núv. ríkisstjórnar, en það breytir því ekki að grundvallarkerfi hins svokallaða ekknaskatts var tekið upp með þeim skattalögum sem hæstv. þáv. fjmrh. Matthías Á. Mathiesen lagði fyrir þingið fyrir um það bil 13 árum síðan og fyrst komu til framkvæmda á árinu 1978 -- 1979.
    Hv. þm. Hreggviður Jónsson fór hér með ýmsar tölur um skattahækkanir sem aðallega byggðust á því að bera saman krónutölur milli ára. Ég vil nú biðja menn að nota ekki mikið slíkan samanburð vegna þess að hann felur það m.a. í sér að aukin og bætt innheimta skatta mundi túlkast sem skattahækkun. Þegar fjmrh. bætir
innheimtukerfið, þannig að það kemur meira inn af þeim sköttum sem lagðir eru á, mundi það flokkast samkvæmt þessari samanburðaraðferð sem skattahækkun frá ári til árs. Ég held að það samrýmist nú ekki almennum skilningi þjóðarinnar á því hugtaki.
    Hv. þm. Hreggviður Jónsson vék að því að í Svíþjóð væru menn að draga úr ríkisútgjöldunum. Það er skiljanlegt. Ríkisútgjöldin í Svíþjóð eru yfir 50% af landsframleiðslu, þ.e. þau eru mun minni hér. Og hann vék einnig að því sama í Noregi. Hlutfall skatta af landsframleiðslu er yfir 50% í Svíþjóð og tæplega 50% í Noregi en 37% hér á Íslandi. Þannig að þeir mega nú vera ansi duglegir í Svíþjóð og Noregi við að lækka skattana á næstu árum ef þeir ætla að komast niður í sama hlutfall og er hér á Íslandi.
    Að lokum vék hv. 1. þm. Reykn. Ellert Eiríksson að því að Sjálfstfl. vildi ekki auka skattana. Það má vel vera að það sé stefna Sjálfstfl. Sjálfstfl. vill væntanlega líka reka ríkissjóð án halla en þá stendur upp á Sjálfstfl. að gera grein fyrir því hvernig hann ætlar að skera niður ríkisútgjöldin um a.m.k. 4 -- 5 milljarða. Og ég bíð spenntur eftir þeim tillögum.
    Svo þakka ég fyrir góða umræðu.