Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hinu háa Alþingi skýrslu um samningaviðræður um Evrópska efnahagssvæðið. Efni þessarar skýrslu er að rifja upp aðdraganda og markmið samningaviðræðnanna, stöðu samningaviðræðna þegar hér er komið sögu í októbermánuði, mat á framhaldi þeirra. Þá er gerð grein fyrir þeim helstu málum sem um er fjallað við samningaborðið á hverju samningssviði, um vöruviðskipti, um fjármagn og þjónustuviðskipti, um atvinnu - og búseturétt, um jaðarmálefni og um laga - og stofnanamál. Loks er greint frá niðurstöðum þeirrar miklu vinnu sem við höfum að undanförnu lagt í það verk að bera saman lög og reglur Evrópubandalagsins við íslenska löggjöf en sú morkinskinna liggur á borðum þingmanna og hefur verið afhent þingmönnum þótt ekki sé hún skráð sem þingskjal.
    Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að rifja upp forsögu samningaviðræðna, niðurstöður undirbúningsviðræðnanna, að svo stöddu heldur láta mér nægja að vísa hv. þm. á að rifja upp þau meginmarkmið sem við höfum sett okkur í þessum samningaviðræðum og fram koma á bls. 6 í skýrslunni. Meginmarkmið EFTA - ríkjanna er þar áréttað: ,,Að tryggja þegnum sínum hlutdeild í þeim hagsbótum sem fylgja samræmdum markaði með þeim réttindum og skyldum sem af honum leiða, en gæta þess jafnframt að grundvallarhagsmunum verði ekki fórnað.``
    Grundvallarkröfur EFTA - ríkja eru áréttaðar: undanþágur sem réttlætast af grundvallarhagsmunum, þátttaka á jafnréttisgrundvelli í stjórnun og rekstri þeirra sviða sem samið hefur verið um, sjálfstæði gagnvart ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, jafn réttur til frumkvæðis, full áhrif á mótun og töku nýrra ákvarðana, samningur nái til sem flestra jaðarmálefna, vörusvið samningsins nái einnig til fiskafurða án tengsla við sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins að öðru leyti.
    Af hálfu Evrópubandalagsins hefur verið lögð áhersla á að halda undanþágum í lágmarki út frá þeirri meginreglu að frávik verði aðeins tímabundin, að sjálfræði Evrópubandalagsins til mótunar og töku ákvarðana verði virt, að samkeppnisskilyrði verði söm og jöfn um allt svæðið, að dregið verði úr efnahagslegum og félagslegum mismun milli ríkja og héraða á Evrópska efnahagssvæðinu, að tekið verði tillit til mikilvægis landbúnaðar fyrir ýmis ríki og svæði Evrópubandalagsins, að jaðarmálefni verði fyrst og fremst þau er beint varða grundvallarreglurnar um fjórfrelsið, að leitað verði jafnvægis milli krafna EFTA um betri aðgang fyrir sjávarafurðir að mörkuðum Evrópubandalagsins og krafna Evrópubandalagsins um aðgang að fiskimiðum EFTA - ríkja.
    Megináhersluatriði af hálfu Íslendinga hafa verið þessi: að vörusviðið taki til fisks og annarra sjávarafurða og þar gildi sömu samkeppnisskilyrði og á sviði iðnaðarvara. Bókun 6 við fríverslunarsamning Íslands við Evrópubandalagið haldi gildi sínu hvort sem Evrópska efnahagssvæðið eða samningum um það

kunni að verða sagt upp eða ekki, að fjárfestingar erlendra aðila tengdar náttúruauðlindum verði takmarkaðar, að varnaglaákvæði verði virt varðandi frjálsan atvinnurétt og að ekki verði slakað á settum kröfum um öryggi og hollustuhætti og umhverfisvernd.
    Þetta er stuttorð en greinargóð lýsing á samningsstöðunni eins og hún hefur verið dregin upp af báðum aðilum þegar hér er komið sögu. Markmiðið er enn sem fyrr að freista þess að ná pólitískum lausnum um aðalatriði þessa máls fyrir lok þessa árs, að samningum verði lokið á fyrri hluta næsta árs og að samningurinn komi til framkvæmda á sama tíma og innri markaður Evrópubandalagsins verður að fullu kominn til framkvæmda, þ.e. fyrir árslok 1992.
    Virðulegi forseti. Það sem ég vil hér reifa í stuttu máli er fyrst og fremst eftirfarandi:
    1. Hver er stefna beggja aðila eins og hún hefur nýlega verið skilgreind á ráðherrafundum 22. og 23. okt. sl.?
    2. Í ljósi fréttaflutnings um ólíkt mat á stöðunni í hinum ýmsu aðildarríkjum bæði EFTA og Evrópubandalagsins, hvað ber að álykta út frá því? Er ástæða til að ætla að illa horfi um samningsniðurstöður eða eru rök fyrir því að nú sé komið að alvöru málsins, báðir aðilar sitji nokkuð fastir við sinn keip við samningaborðið, en engin ástæða sé til að örvænta um það að viðunandi lausnir muni finnast? Í framhaldi af því er það spurningin um afstöðu íslenskra stjórnvalda og mat á íslenskum hagsmunum. Hvernig horfir um að ná þeim samningsmarkmiðum sem við höfum sett okkur? Í framhaldi af því vildi ég gjarnan leggja mitt eigið mat á það hver eru aðalatriði varðandi stöðu málsins að þessu sinni. Hverjar eru þær lausnir sem við teljum okkur eygja í sjónmáli og er annarra kosta völ?
    Þá vík ég fyrst að því, virðulegi forseti, hvernig hafa samningaaðilar áréttað stöðu sína? Ég vitna hér til yfirlýsingar ráðherraráðs Evrópubandalagsins frá 22. okt. sl. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðið staðfesti pólitískt mikilvægi þess að ná heildarsamkomulagi fyrir árslok um helstu þætti samningaviðræðnanna við EFTA. Ráðið telur því að nauðsynlegt sé að efla viðræðurnar og ná árangri jafnt að því er varðar stofnanahliðar sem efnisatriði. Ráðið samþykkti að afhenda EFTA afstöðu bandalagsins um upplýsingaskipti og samráð. Ráðinu var skýrt frá því að framkvæmdastjórn hygðist leggja fram á næstunni tillögur að afstöðu bandalagsins um landbúnað, sjávarútveg og jöfnun efnahagslegs og félagslegs misræmis.``
    Að því er EFTA varðar þá sendi ráðherraráð EFTA - ríkjanna frá sér yfirlýsingu um stöðu málsins 23. okt. sl., þar sem áréttaður var vilji ríkisstjórna EFTA - ríkjanna að lúka samningunum til þess að ná pólitískri lausn fyrir áramót og stefna að samningslokum á fyrri hluta næsta árs. Þar var því yfirlýst að EFTA - ríkin mundu nú á næstunni leitast við að ná fram pólitískum lausnum um þau meginmál sem samningar nú stranda á, sem fælist fyrst og fremst í því að EFTA - ríkin væru tilbúin að fækka fyrirvörum

sínum, breyta varanlegum fyrirvörum í tímabundna fyrirvara, að því tilskildu og með þeim skilyrðum að á móti komi ásættanlegar tillögur af hálfu Evrópubandalagsins um jafnrétti aðila við stjórnun hins Evrópska efnahagssvæðis í framtíðinni. Jafnframt var áréttað að leita skyldi pólitískrar lausnar varðandi stöðu sjávarútvegs, landbúnaðar og félagslegs misréttis.
    Þau meginmál sem nú knýja á um pólitíska lausn eru þess vegna þrjú. Að því er EFTA varðar er það spurningin um fækkun undanþága. Að því er Evrópubandalagið varðar eru það tillögur af hálfu Evrópubandalagsins um stjórnun Evrópska efnahagssvæðisins og í þriðja lagi er það staða sjávarútvegs í þessum samningum. Þetta eru þau þrjú mál sem báðir aðilar hafa skilgreint sem höfuðvandamálin sem þurfi að leysa áður en við getum slegið því föstu að leiðin sé greið til loka.
    Þá vil ég víkja, virðulegur forseti, að efasemdum ýmissa sem látnar hafa verið uppi um raunverulegan pólitískan vilja til þess að leiða þessa samninga til lykta. Það lýtur bæði að sjónarmiðum sem fram hafa komið í fjölmiðlum af hálfu pólitískra forustumanna stjórnmálaflokka í sumum EFTA - ríkjanna og reyndar frá einstökum aðildarríkjum Evrópubandalagsins.
    Í því efni hefur það gerst að sænski fjármálaráðherrann hefur á blaðamannafundi, þar sem hann kynnti efnahagslegar kreppuráðstafanir í Svíþjóð, lýst þeirri skoðun að tímabært sé að leggja þá spurningu fyrir sænska þingið hver eigi að verða framtíðarsamskipti Svíþjóðar við Evrópubandalagið. Áður hafði það gerst að sænski forsætisráðherrann hafði lýst því yfir að hin hefðbundna sænska hlutleysisstefna stæði ekki lengur í vegi fyrir nánara pólitísku samstarfi Svíþjóðar við Evrópuríki og vísaði þar til þeirra byltingarkenndu breytinga sem orðnar eru í samskiptum austurs og vesturs og þeirra afvopnunarsamninga sem nú eru á lokastigi.
    Þá hefur það dregið til tíðinda á þessum morgni að norska ríkisstjórnin er fallin, beinlínis út af þessu máli. Og ástæðan fyrir því er sú að einn þriggja flokkanna í þeirri samsteypustjórn, Miðflokkur, hefur neitað að fallast á óskir hinna samstarfsflokkanna um breytingar á norskri löggjöf sem varða rétt erlendra aðila til fjárfestingar í Noregi. Tillögurnar snerust um það, og varða þessa samninga, að Norðmenn gerðu breytingar á þessari gömlu löggjöf sem kvæðu á um það að ekki yrði framvegis mismunað milli erlendra og innlendra ríkisborgara að því er varðar þennan rétt, en breytti hins vegar ekki um það að eftir sem áður gátu Norðmenn áskilið sér rétt til takmarkana á þessu sviði ef þær gengu jafnt yfir alla á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þennan ágreining tókst þeim ekki að leysa í norsku ríkisstjórninni og forsætisráðherrann hefur beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Á það má benda að flokkur forsætisráðherrans hafði þá stefnu að Noregi bæri að stefna að fullri aðild í Evrópubandalaginu. Það er mat áreiðanlegra stjórnmálaskýrenda að í norska Stórþinginu sé meiri hluti meðal stjórnmálaflokkanna um að halda til streitu þeim samningum sem við nú stöndum í, og vísa ég þá sérstaklega til þess að norski Verkamannaflokkurinn, undir forsæti Gro Harlem Brundtland, var frumkvæðisaðili að því að koma þessum samningum á. Hinu kann ég ekki að svara hvort meiri hluti kynni að vera fyrir þeirri afstöðu að Noregur stefndi að aðild, enda hefur ekki verið látið á það reyna. Miðað við óbreytta afstöðu flokka er þó ekki séð að meiri hluti sé fyrir þeirri afstöðu hér og nú.
    Að því er varðar Evrópubandalagið þá er ljóst að þar er innan dyra við að fást mörg alvarleg vandamál. Evrópubandalagið stefnir að því að lögleiða meiri háttar breytingar á lögum og reglum og starfsháttum Evrópubandalagsins. Þar nefni ég til fyrst og fremst áform um að hrinda í framkvæmd Delors - áætluninni um samruna á peningamálasviði sem fela í sér einn seðlabanka, samræmdan einn gjaldmiðil og náið samstarf á sviði gjaldeyris - , gengis - og peningamála. Það er sýnt að þessi áform muni ekki komast í framkvæmd skv. áætlun og ljóst af afstöðu ríkisstjórna að um þau er ágreiningur. Þau munu því frestast. Sama máli gegnir um áform sem stefnt er að því að leggja fyrir svokallaða ríkisstjórnaráðstefnu um nánara pólitískt samstarf sem m.a. felur í sér samræmda stefnu í utanríkismálum og öryggismálum. Mörg fleiri vandamál má nefna. Drátt sem orðið hefur á framkvæmd ýmissa meginþátta varðandi innri markaðinn, afleiðingar sameiningar Þýskalands sem eru erfiðar viðfangs fyrir Evrópubandalagið, samninga við hin nýfrjálsu ríki í Austur - Evrópu um það með hvaða hætti þau geti tengst Evrópubandalaginu og samningana við EFTA - ríkin.
    Segja má að tvenns konar sjónarmið séu uppi innan Evrópubandalagsins varðandi þróun þessara mála og samskipti þess við önnur ríki. Annað sjónarmiðið er að þessi sjónarmið séu svo erfið viðfangs og svo þýðingarmikil að Evrópubandalaginu beri að reyna að leysa þau, dýpka samstöðu sína, eins og það hefur verið kallað, áður en til greina komi að taka af alvöru á samningum um aðild nýrra ríkja. Hitt sjónarmiðið er það að þessi mál megi leysa samtímis og að pólitískar breytingar í Evrópu kalli á það að Evrópubandalagið dragi ekki samninga sína við önnur ríki sem þau nú standa í.
    Við skulum hafa það í huga að Evrópubandalagið er samtök tólf ríkja og yfirlýsingar frá einstökum ríkisstjórnum einstakra þjóðríkja gilda ekki fyrir bandalagið í heild. Það sem gildir þar eru yfirlýsingar ráðherraráðsins sem samstaða næst um. Það er ekkert sem bendir til þess en ýmislegt sem stefnir í öfuga átt að því er varðar getu Evrópubandalagsins til þess að taka fyrr en ella við nýjum aðildarríkjum.
    Um þetta allt saman vil ég einfaldlega segja eftirfarandi: Við skulum ekki loka augunum fyrir því að ýmsir hafa látið í ljós efasemdir um það að við munum geta lokið þessum samningum, sem við hér ræðum, með árangri. Og hafa stillt upp öðrum valkosti, nefnilega að einstök EFTA - ríki sæki um aðild að Evrópubandalaginu, raði sér þar upp í biðröðina sem fyrir er. Um það vil ég segja það eitt að þetta tvennt eru ekki valkostir. Við eigum ekki val milli þess annars

vegar að ljúka þessum samningum og hins vegar að ganga í Evrópubandalagið. Spurningin um að lýsa yfir stefnu gagnvart aðildarumsókn að Evrópubandalaginu varðar framtíðina. Þessum samningum ætlum við að ljúka snemma á næsta ári. Það má segja að samningar um Evrópska efnahagssvæðið geti út frá hagsmunum einstakra EFTA - ríkja verið túlkaðir sem áfangi á leið inn í Evrópubandalagið. Þ.e. það er augljóst að með því að leysa þau vandamál sem hér er fjallað um á þessu samningssviði hafa menn tengst Evrópubandalaginu nánari böndum, þannig að verkefnið að semja um fulla aðild væri minna en ella ef þessir samningar hafa tekist. Hitt er jafnljóst að það eru engin sérstök rökvísi í því að þótt þessir samningar hafi tekist þá hljóti aðildarríki EFTA þar með að ganga í Evrópubandalagið. Það er ekki svo. Aðalatriðið er það að þetta eru ekki tveir valkostir sem menn geta valið á milli nú.
    Ég er þeirrar skoðunar, hvað svo sem líður afstöðu manna til aðildar að Evrópubandalagi einhvern tímann síðar á þessum áratug, að það sé óheppilegt ef ríkisstjórnir eða fulltrúar ríkisstjórna í EFTA - löndum eru með yfirlýsingar um vilja í því efni á sama tíma og við erum á talsvert þýðingarmiklum tímamótum í þessum samningum. Ég held með öðrum orðum að slíkar yfirlýsingar séu ekki tímabærar og þær kunni jafnvel að spilla samningsstöðu okkar. Hvers vegna? Það er vegna þess að hér er m.a. verið að semja um stjórnun hins Evrópska efnahagssvæðis. Evrópubandalagið getur auðvitað gengið á lagið ef aðildarríki EFTA boða vilja sinn til inngöngu í náinni framtíð með því að segja: Þetta er miklu minna mál en ella fyrir ykkur. Það er verið að semja hér til skamms tíma. Þið þurfið ekki að leggja svona mikla áherslu á jafnstöðu varðandi stjórnun svæðisins. Sama máli gegnir um ýmis mál sem nú er verið að reyna að leysa við samningaborðið. Þessar yfirlýsingar styrkja ekki stöðu EFTA og varða ekki fyrst og fremst þau mál sem hér er verið að semja um.
    Ég gagnrýni ekki aðrar ríkisstjórnir EFTA - landa fyrir það að leggja grunn að stefnumótun varðandi hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu síðar. Það sé fjarri mér. Það er auðvitað á valdi hverrar ríkisstjórnar og ég nefni í því samhengi afstöðu Austurríkis. Það er hálft annað ár frá því að Austurríki sótti um aðild að Evrópubandalaginu. Enn eru Austurríkismenn við samningaborðið með hinum EFTA - ríkjunum. Hvers vegna? Það er vegna þess að þeim er það fullkomlega ljóst að það hefur ekki verið litið á þessa aðildarumsókn þeirra enn þá. Það verður ekki að óbreyttu litið á hana fyrr en eftir 1993. Og þeim er einnig ljóst að það tekur nokkur ár, ef miða á við lög og reglur Evrópubandalagsins nú og reynslu annarra þjóða fyrr, að semja um fulla aðild að Evrópubandalaginu. Hingað til hafa Austurríkismenn litið svo á að það væri raunsætt af þeirra hálfu að ætla að þeir gætu verið orðnir fullgildir meðlimir 1997 -- 1998.
    Nú getur auðvitað hver sem er sagt: Þetta kann að breytast. Þetta er ekkert óumbreytanlegt. Já, þetta kann að breytast en það mun aldrei breytast með þeim hætti

að þetta tvennt séu valkostir. Þannig að fréttaflutningur um viljayfirlýsingar um aðild síðar breytir ekki því og hefur ekki breytt því, hvorki að því er varðar austurrísku ríkisstjórnina né þá sænsku, að þær hafa áréttað vilja sinn til að freista þess að lúka þessum samningum. Og ef við lítum til Evrópubandalagsins þá minni ég aftur á það sem ég sagði áðan: Ekkert bendir til þess að Evrópubandalaginu sé það auðveldara nú en það hefur verið hingað til að byrja alvöru samningaviðræður um aðild nýrra ríkja.
    Af þessu tilefni vil ég árétta að yfirlýsingar sem borist hafa af þessu tagi hafa í engu breytt stefnu íslenskra stjórnvalda fremur en reyndar annarra ríkisstjórna sem í þessum samningum standa. Það er staðfastur ásetningur okkar að freista þess að lúka þessum samningum. Það er vegna þess að við teljum að það sé í samræmi við bestu hagsmuni okkar Íslendinga. Og vil ég nú gjarnan, með leyfi forseta, víkja að því.
    Það er grundvallaratriði þessarar samningsgerðar, sem fram fer milli Evrópubandalagsins í heild og EFTA sem einnar einingar, að jafnvægi ríki milli samningsaðila að því er varðar kosti og galla, ávinning og óhagræði, réttindi og skyldur. Nú er það svo að sérstaða Íslendinga í þessu máli hefur verið skýrt afmörkuð frá upphafi. Það höfum við gert um leið og við ákváðum að taka þátt í þessum viðræðum í upphafi. Það höfum við gert þegar við skilgreindum fáa fyrirvara með skírskotun til þjóðarhagsmuna. Það höfum við gert með því að leggja ævinlega höfuðáherslu á sérstöðu Íslands að því er varðar sjávarútveg og það hversu háðir við erum honum. Það er ekki mjög flókið mál að sýna fram á að þjóð með 70% af útflutningsafurðum sínum sem sjávarafurðir hefur sérstakra hagsmuna að gæta af því tilefni í samanburði við þjóðir hvurrar útflutningsafurðir eru fyrst og fremst iðnaðarafurðir og þjónusta. Ef ekki tækist í þessum samningum að tryggja hindrunarlausan tollfrjálsan aðgang fyrir sjávarafurðir, eins og iðnaðarafurðir, þá er ljóst að það er ójafnvægi að því er Ísland varðar varðandi réttindi og skyldur, ávinning og óhagræði. Þetta er mönnum ákaflega ljóst og þetta er fyrst og fremst vandinn sem menn standa frammi fyrir að því er varðar sjávarútveg.
    Nú er það svo að Evrópubandalagið hefur sérstaka stefnu að því er varðar sjávarútveg og landbúnaðarmál, sem er ekki fríverslunarstefna heldur verndarstefna. Þessi stefnumörkun á í báðum tilvikum stoð í sjálfum Rómarsamningnum. Í raun og veru eru þessar tvær atvinnugreinar innan Evrópubandalagsins reknar út frá grundvallarforsendum byggðastefnu.
Þannig að þarna er stuðst við verulega ríkisstyrki og fjárhagslegan stuðning að öðru leyti, verndarstefnu, kvóta, tollvernd o.s.frv. og allt er þetta réttlætt í nafni þess að jafna lífskjör milli þeirra svæða, þar sem landbúnaður og sjávarútvegur er einkum stundaður, í samanburði við hin efnaðri iðnaðarsvæði.
     Við höfum gert þá kröfu í þessum samningum að fá fram fríverslun með fiskafurðir. Hvað þýðir það? Það þýðir ekki bara hindrunarlausan og tollfrjálsan aðgang fyrir afurðirnar sjálfar. Það þýðir jafnframt samræmdar samkeppnisreglur. Með öðrum orðum þýðir það, ef sú krafa ætti að ná fram að ganga, að Evrópubandalagið yrði að skuldbinda sig til að falla frá verndarstefnu sinni í málefnum sjávarútvegs og fiskvinnslu. Við settum þessa kröfu fram innan EFTA. Það tók okkur 19 ár að koma henni fram. Það tókst að koma henni fram reyndar í upphafi þessara samningaviðræðna. Innan EFTA ríkir fríverslun með fiskafurðir. Hún er komin til framkvæmda á miðju þessu ári en það er tímaaðlögun í þeim samningi þannig að EFTA-ríkin eru skuldbundin til þess að afnema ríkisstyrki og samkeppnistruflandi aðgerðir frá 1993.
    Nú hefur það oft komið fram af hálfu okkar að við höfum ekki verið mjög bjartsýnir á að Evrópubandalagið væri reiðubúið til þess í þessum samningum að skuldbinda sig til þess að falla frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sinni frekar en það hefur verið á samningssviði þessara viðræðna að Evrópubandalagið félli frá svokallaðri sameiginlegri landbúnaðarstefnu sinni. Nú er frá því að skýra, eins og áður hefur verið greint frá í utanrmn. og í umræðum í ríkisstjórn, að aðalsamningamaður Evrópubandalagsins á vörusviðinu, í samningahópi 1, hefur kveðið upp úr um það að Evrópubandalagið geti ekki breytt sameiginlegri fiskveiðistefnu sinni og vísi þess vegna frá kröfunni um algera fríverslun, þ.e. þar með talið afnám ríkisstyrkja og samkeppnistruflandi aðgerða stjórnvalda að því er það varðar. Þetta er auðvitað umtalsverður hlutur í þessum samningum vegna þess að hann þýðir þá að kröfur sem uppi hafa verið af hálfu Evrópubandalagsins á hendur EFTA, að í staðinn fyrir fríverslun með fiskafurðir komi í fyrsta lagi veiðiheimildir, rýmri aðgangur landbúnaðarafurða eða framlög frá EFTA-ríkjunum til jöfnunar lífskjara, yrðu þá að sjálfsögðu heldur ekki með fullum rökum fram bornar.
    Nú er nauðsynlegt að taka það ákaflega skýrt fram hvað í þessu felst. Þótt Evrópubandalagið hafi sagt nei við kröfunni um fullkomna fríverslun þá hefur Evrópubandalagið ekki, og ég legg áherslu á það, hafnað kröfunni um tollfrjálsan aðgang sjávarafurða sem er auðvitað það meginatriði sem Íslendingar stefna að. Því hefur ekki verið hafnað. Það er enn uppi á borðinu og það er eitt af þessum þremur meginmálum sem við stefnum nú að að fá niðurstöðu um á næstu vikum: Fækkun undanþága, jafnræði um stjórnun svæðisins, lausn á þeim vanda sem sjávarafurðir eru í þessum samningi.
    Það er athyglisvert að eina þjóðin innan Evrópubandalagsins sem raunverulega gerir kröfur um fiskveiðiheimildir á hendur EFTA-ríkjunum er Spánverjar. Engin önnur þjóð hefur komið fram með slíkar kröfur. Það er rétt að skýra frá því, þótt það byggist ekki á opinberum orðsendingum sem við höfum, að við höfum óstaðfestar heimildir fyrir því að Spánverjar hafi nú lagt fram slíkar kröfur í undirbúningsnefnd fastafulltrúa Evrópubandalagsins í Brussel til undirbúnings þeim fundum sem verða seint í þessum mánuði þar sem knúið verður á um pólitískar lausnir. Hitt er svo annað mál að það eru ekki taldar líkur á því að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins taki þessar

kröfur upp. Líklegra þykir að þeir muni að vísu halda til streitu kröfum á hendur EFTA um einhvers konar aðgang að fiskimiðum, en það er mat margra að þær kröfur verði ekki mjög stífar.
    Hvað er um þetta að segja út frá sjónarmiði Íslands? Íslendingar hafa sagt: Við erum ekki til viðtals um kröfur um veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu í staðinn fyrir rýmri markaðsaðgang, niðurfellingu eða lækkun tolla eða annarra viðskiptahindrana. Það er vegna þess einfaldlega að ef fiskafurðir fá ekki tollfrjálsan aðgang þá er ekkert jafnvægi í þessum samningum að því er varðar Ísland.
    En ég minni á að við erum ekki hér í tvíhliða viðræðum milli landa. Spánn getur ekki í þessum viðræðum borið fram kröfur á hendur Íslendingum. Það er Evrópubandalagið sem samkvæmt umboði þess af hálfu framkvæmdastjórnar mundi þá bera slíka kröfu fram á hendur EFTA-löndunum í heild. Hagsmunir þeirra EFTA-landa, sem fyrst og fremst eru iðnríki og byggja að öðru leyti atvinnulíf sitt í vaxandi mæli á þjónustugreinum, eru fyrst og fremst auðvitað aðildin að innri markaði Evrópu. Þeirra hagsmunir vega ekki þungt að því er varðar sjávarútveg. Spurningin er: Eru þær --- og þá er ég að tala um bandalagsþjóðir okkar í EFTA --- reiðubúnar til þess að fórna einhverju til þess að ná heildarlausn á grundvelli jafnvægis ef það tryggir þeim markaðsaðgengi, jafnan rétt að því er varðar stjórnun svæðisins og jafnframt yrði þetta sérstaka vandamál leyst? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað en það er um þá spurningu sem samningarnir munu snúast á næstu vikum í Brussel og Genf.
    Virðulegi forseti. Það sem ég hér vil leggja áherslu á er þetta: Af beggja hálfu eru nú lögð á ráðin um að reyna að fá pólitíska lausn á þessum þremur vandamálum. EFTA-ríkin þurfa nú að búa sig undir það að vera tilbúin að fækka kröfum sínum um varanlegar undanþágur með því ófrávíkjanlega skilyrði að ásættanlegar lausnir komi frá Evrópubandalaginu um jafnræði í stjórnun og með því að lausn fáist á þessari sérstöku spurningu um meðhöndlun sjávarafurða á hinu evrópska efnahagssvæði. Það er þetta sem menn eiga við þegar menn tala um í yfirlýsingu EFTA - ráðherranna að stefna að einhverju sem kallað er ,,political breakthrough``, með öðrum orðum pólitísk lausn á meginmálum. Ef ég er spurður hvort ég sé bjartsýnn eða svartsýnn á niðurstöðuna þá svara ég: Ég er hvorugt, en ég hef rökstudda ástæðu til að ætla að þetta geti tekist. Og hvers vegna það? Það er vegna þess að enginn annar kostur virðist fýsilegur fyrir báða aðila. Það er vegna þess að spurningin um aðild leysir ekki þetta mál. Hún er framtíðarspurning. Það er vegna þess að spurningin um tvíhliða samningaviðræður kemur ekki upp strax. Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að ef við tækjum þann kostinn nú, sem getur auðvitað komið upp ef þessir samningar mistakast, þá er sá munur á að við hefðum þá ekki við hlið okkar samningsaðila sem hugsanlega væru reiðubúnir að fórna nokkru til þess að ná því jafnvægi sem er grundvallarforsenda þessara heildarsamninga. Til

þess að ég tali ögn skýrar: Ég held að staða Íslands varðandi spurninguna um tollfrjálsan aðgang að mörkuðum fyrir sjávarafurðir sé verri ef við eigum einir að færa þær fórnir á móti sem til þarf fremur en að þeim fórnum yrði jafnað á EFTA-þjóðirnar í heild, með öðrum orðum það yrði dýrara verði keypt.
    Ég vil leggja á það ríka áherslu að það sem nú hefur gerst og það sem fram undan er er ekkert sem ætti að koma okkur á óvart. Ég hef orðað það þannig að að undanförnu höfum við verið að dansa menúett en nú væri komið að þungarokkinu. Nú er komið að alvörunni í samningum. Við getum áætlað að 90 -- 95% af því sem farið hefur verið yfir á samningssviðunum fimm, í þúsundum blaðsíðna, m.a. í gráskinnu eða morkinskinnu eða hvað við köllum hana, doðrantinum sem lýsir samanburðinum á íslenskri löggjöf og löggjöf Evrópubandalagsins, allt þetta liggur fyrir á borðum manna. Eftir er að leysa þýðingarmikil pólitísk vandamál sem við alltaf áttum von á að kæmi að þegar færi að nálgast samningslok. Það hefur alla tíð verið mín skoðun að sérstaða Íslands og sérmál Íslands sem varða sjávarútveginn kæmi fyrst fyrir alvöru til samninga þegar sú staða væri komin upp á borðið að EB hefði sagt: Við getum að sjálfsögðu ekki breytt okkar sameiginlegu fiskveiðistefnu, en EFTA-ríkjunum væri ljóst að þau yrðu einhverju til að kosta ef þau ættu að ná heildarlausn þar sem saman færi jafnvægi og skuldbindingar beggja aðila. Það er nú að gerast, á næstu vikum, sem þýðir að nú þurfum við af okkar hálfu að taka pólitískar ákvarðanir um það hverju við erum reiðubúnir að breyta í okkar samningsforsendum til að ná þessari heildarlausn.
    Þetta er auðveldara viðfangs fyrir okkur en hinar EFTA-þjóðirnar af einni augljósri ástæðu, nefnilega þeirri að við höfum frá upphafi haldið þannig á málum að við höfum ekki lagt fram einhvern urmul af undanþágum á öllum samningssviðunum sem auðvelt væri að reka niður í okkur með vísun til þess að augljóslega varðaði þetta ekki brýna þjóðarhagsmuni. Svo að ég taki augljóst dæmi af öðru sviði, samningssviði I, ef við erum að tala þar um staðla sem mikið er um rætt, þá getur það ekki varðað brýnustu þjóðarhagsmuni ríkis hvort einhver munur er á desibelhávaða í garðsláttuvélum milli Þýskalands og Svíþjóðar og er ég þó ekkert að gera lítið úr því að EFTA-ríkin hafa á sumum sviðum, einkum að því er varðar heilbrigðis- og umhverfismál, hærri staðla. En það ber líka að taka skýrt fram að staðlar Evrópubandalagsins eru háir og þeir hafa verið að herða á þeim og það er vitað að í undirbúningi eru ný lög og reglur á vegum Evrópubandalagsins sem munu brúa þetta bil innan tiltölulega skamms tíma. Svona mál er því augljóslega fallið til þess að setja tímabundna fyrirvara en ekki varanlega fyrirvara með skírskotun til brýnna þjóðarhagsmuna. Þess vegna endurtek ég það að þetta er auðveldara viðfangs fyrir okkur vegna þess að við erum það EFTA-land sem setti fæsta fyrirvara í upphafi, við einbeittum okkur að því sem máli skiptir og stefndum að því frá upphafi að halda þannig á málum að við þyrftum út af fyrir sig litlu til að fórna þegar að

alvöru málsins kæmi á lokastigi samninga.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi hér farið yfir meginmál þessara samningaviðræðna eins og þær blasa við núna. Ég hef lagt mat á samningsstöðuna. Ég hef áréttað óbreytta stefnu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ég hef fullyrt að enn sem komið er hefur engin ríkisstjórn í EFTA-ríkjum breytt stefnu sinni þótt vissulega sé fjarri mér að neita því að pólitísk óvissa í kringum þessa samninga og forsendur þeirra er veruleg. Ég hef fært rök að því að hvað svo sem líður afstöðu hagsmunaaðila stjórnmálaflokka varðandi framtíðarafstöðu til Evrópubandalagsins er hún ekki á dagskrá nú í þeim skilningi að samningslok á þessu sviði útiloka hana ekki. Það að leggja fram aðildarumsókn núna mun ekki framkalla afstöðu frá Evrópubandalaginu fyrr en eftir nokkur ár. Þessu tvennu á ekki að rugla saman. En ótímabærar yfirlýsingar gætu spillt samningsstöðu okkar og þess vegna gef ég engar slíkar yfirlýsingar.
    Ég hef litið svo á frá upphafi að þetta mál væri ekki aðeins eitt stærsta utanríkisviðskiptamál íslenska lýðveldisins sem upp hefur komið, heldur einnig að þessir samningar væru veigamikill þáttur í hinum nýja pólitíska arkitektúr Evrópu sem nú er smám saman að mótast. Ég kann ekki að svara stórum spurningum um það hvernig Evrópubandalagið muni líta út árið 2000. En ég ræð það af ýmsu að Evrópubandalagið er ekki statisk stærð, það er ekki óumbreytanlegt, það er í þróun, það er að breytast og fyrir liggja áætlanir Evrópubandalagsins og forustuþjóða þess um breytingar á því. Þær munu taka sinn tíma. Sömuleiðis vitum við að EFTA-ríkin, sem tiltölulega háþróuð ríki, þurfa á því að halda vegna brýnna efnahagshagsmuna að tryggja markaðsaðgengi sitt að Evrópska efnahagssvæðinu, að innri markaðnum. Ég legg jafnframt áherslu á það að þessir samningar eru ekki bara um viðskipti, ekki bara um tolla, ekki bara um krónur og aura. Þetta eru miklu viðameiri samningar en svo. Hér er um að tefla samkeppnisskilyrði íslensks atvinnulífs á næstu árum og áratugum, bæði að því er varðar framleiðsluatvinnuvegi okkar, tækni, viðskipti, aðgang að fjármagni, og á samningssviði IV um samstarf okkar við ríki Evrópu á öllum sviðum, rannsóknir, vísindi, aðgengi að skólum, menntastofnunum, starfsþjálfun, umhverfisvernd o.s.frv. Þetta breytir engu um það að við leggjum strangt hagsmunamat á niðurstöðuna en við verðum að hafa hvort tveggja í huga, okkar brýnustu viðskiptahagsmuni og stærð málsins í heild sinni.
    Virðulegi forseti. Frá upphafi hefur verið ráð fyrir því gert að þessum samningum verði lokið á fyrri hluta næsta árs. Ég hef enn sem komið er ekki ástæðu til að ætla annað, ef vel er haldið á spilunum, en að þessir samningar geti tekist og að þar með hafi verið stigið stærsta skrefið sem við höfum stigið á lýðveldistímanum í að opna okkar þjóðfélag og að tryggja vaxtarskilyrði íslensks atvinnulífs undir merkjum fríverslunar og frjálsra viðskiptahátta. Við höfum ekki lokað neinum dyrum um framhaldið en ég lít svo á að spurningin um aðild að Evrópubandalaginu geti

verið á dagskrá, hún geti verið til umræðu en henni verður ekki svarað fyrr en við höfum fengið svör við: Er Evrópubandalagið reiðubúið til þess að taka tillit til þeirra þjóða sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta að því er varðar sjávarútveg?
    Sá maður sem er reiðubúinn að svara þessari spurningu nú þegar og segir: Við eigum að ganga inn í Evrópubandalagið, hann á ósvarað mörgum spurningum, m.a. þessum: Vill hann afhenda fiskveiðilögsögu Íslands umfram 12 mílur í garð yfirþjóðlegs stjórnvalds?
Vill hann afsala sér forræði yfir nýtingu auðlindanna? Væri ekki skynsamlegra að segja: Látum reyna á þessa samninga til loka og fáum þetta klárt: Er Evrópubandalagið tilbúið, í þessum samningum, að tryggja þá sérstöku hagsmuni sem við erum hér að lýsa og íslenskt þjóðfélag stendur og fellur með? Það er það sem ég á við þegar ég segi: Það er ekki tímabært að taka afstöðu til þessarar spurningar. Ég er ekki að segja að menn eigi ekki að ræða málið.
    Virðulegi forseti. Við munum nú á næstu dögum og vikum fjalla í smáatriðum um þetta mál, um þessa samningsstöðu, um það hvernig best verði haldið á íslenskum hagsmunum. Það gerum við að sjálfsögðu í ríkisstjórn. Það gerum við á vettvangi utanríkismálanefndar og Evrópustefnunefndar, það gerum við á Alþingi Íslendinga. Ég lýk þessum orðum mínum í von um að okkur beri gæfa til að efla samstöðu okkar um þessa grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og að út úr þeirri málefnalegu umræðu sem nú hefst munum við styrkja stöðu okkar en ekki veikja.