Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Óumdeilt er að þeir samningar sem hér er verið að fjalla um eru einhverjir þeir allra mikilvægustu sem Íslendingar hafa tekið þátt í áratugum saman. Hér er verið að stefna að einu víðtækasta viðskipta - og efnahagssamstarfi sem um getur.
     Á síðasta þingi urðu miklar umræður um afstöðu Íslands til þessara samninga. Síðan hafa orðið miklar breytingar í þróun alþjóðamála og innan Evrópubandalagsins og innan annarra EFTA - ríkja í viðhorfum til frekara samstarfs. Ég sakna þess hins vegar í þeirri skýrslu sem hér hefur verið lögð fram að hún ber ekki með sér nema að mjög takmörkuðu leyti þær miklu breytingar sem eru að verða og hafa orðið í þessu efni á alþjóðavettvangi. Hæstv. ráðherra gerði þessar breytingar þó að umræðuefni í ræðu sinni þó að hann, eins og oft áður, freistaði þess fyrst og fremst að gera lítið úr þeim og jafnvel færa rök fyrir því að þær ættu sér ekki stað, eða eins og hæstv. ráðherra hefur stundum sagt, að þetta væru yfirlýsingar fjölmiðla sem ekki væru í beinum tengslum við raunveruleikann.
    Ég sakna þess einnig í þessari skýrslu að þar er ekki gerð rækileg grein fyrir sérstöðu Íslands að því er sjávarútvegsmálefnin varðar, og það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að þau mál eru enn í lausu lofti. Það fer þó ekki á milli mála að frá því að Alþingi ræddi þessi mál fyrst fyrir um það bil ári síðan hafa línur að ýmsu leyti skerpst. Gleggri skil eru nú á milli jákvæðra og neikvæðra viðhorfa. Við finnum það í umræðunni hér heima, við finnum það í ólíkum áherslum sem einstakir stjórnmálaflokkar leggja í þessum umræðum og við sjáum það einnig í þessari umræðu sem á sér stað innan annarra EFTA - ríkja.
    En þau meginmarkmið sem við Íslendingar hljótum að setja í þessum viðræðum eru fyrst og fremst þau að knýja á um hindrunarlaus viðskipti, algjörlega tollfrjáls viðskipti, og í því efni höfum við mikið verk að vinna að því er varðar sjávarafurðir. Þótt viðskiptasamningur okkar við Evrópubandalagið hafi á sínum tíma verið hagstæður, miðað við þær aðstæður sem við bjuggum við, er hann okkur fjötur um fót. Og það er kórrétt, eins og hér hefur komið fram, að enginn jöfnuður er í þessum samskiptum, á milli Íslands annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar, ef íslenskar sjávarafurðir njóta ekki sömu réttinda á Evrópumarkaðnum eins og iðnaðarvörur annarra ríkja. Þetta hlýtur því að vera höfuðkrafa okkar og hún snýst um lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar.
    Í annan stað hljótum við að leggja á það megináherslu, og um það hefur verið mjög víðtæk pólitísk samstaða frá því að við fyrst fyrir meira en 30 árum fórum að ræða samskipti við aðrar þjóðir á sviði efnahags- og verslunarmála, að standa vörð um fiskveiðilögsöguna og standa fast fyrir í þeim efnum, því að svo mikið höfum við lagt á okkur til þess að helga okkur rétt yfir fiskveiðilögsögunni að við gefum ekki þann rétt eftir undir nokkrum kringumstæðum.
    Í þriðja lagi hlýtur það að vera markmið okkar og

keppikefli að tengjast þeirri nýskipan í efnahagssamstarfi sem kveðið er á um í löggjöf Evrópubandalagsins um innri markað og þeir samningar sem hér er verið að fjalla um lúta að. Þar er um að ræða, eins og oft hefur komið fram, löggjöf um frjálst fjármagnsstreymi, frjáls viðskipti, frjáls þjónustuviðskipti og ýmis önnur jaðarmálefni. Ég tel það vera keppikefli fyrir Ísland að tengjast þessari löggjöf og það hljóti að vera þáttur í því að tryggja að Ísland dragist ekki aftur úr öðrum þjóðum og við getum snúið stöðnun í okkar þjóðarbúskap við og flutt Ísland inn á braut framfara. Ég hygg að þegar við horfum svo til lengri tíma geti Íslendingar byrjað fljótlega að ræða möguleikana á því hvort við eigum á síðari stigum að tengjast myntsamstarfinu með einum eða öðrum hætti. Reyndar getum við á næstu árum, ef vel tekst til með stjórn efnahagsmála og hér verður unnt að viðhalda jafnvægi, byrjað að feta okkur inn á þá braut.
    Þetta eru höfuðmarkmiðin sem við hljótum að setja í þessum viðræðum og síðan verðum við að gera upp við okkur með hvaða hætti við tryggjum það best að við náum þessum markmiðum, í hvaða formi samskipta- og frambúðartengsla er líklegast að við náum þessum markmiðum. Það hlýtur að vera sú spurning sem við svörum næst. Fram til þessa höfum við verið í viðræðum þar sem reyndar Evrópubandalagið sjálft lagði umræðugrundvöllinn og samningsgrundvöllinn. Við höfum fram til þessa ekki tekið sjálfstæða afstöðu og lagt á það sjálfstætt mat hvaða leiðir eru vænlegastar fyrir okkur né heldur hvaða form á frambúðartengslum er vænlegast til árangurs. En þeim spurningum hljótum við að velta fyrir okkur og við hljótum að móta afstöðu í því efni með hliðsjón af því hvernig við tryggjum best hagsmuni okkar, hvernig við sjáum þessi meginmarkmið verða að veruleika.
    Á síðasta þingi þegar um þetta var fjallað urðu allnokkrar deilur um form í þessu efni fremur en efnisatriði, þ.e. spurninguna um tvíhliða viðræður. Það álitaefni og þær deilur voru fyrst og fremst sprottnar af því að frá öndverðu hefur það verið álitaefni hvort samflot eða samstarf innan EFTA og milli EFTA - ríkjanna væri vænlegast til árangurs. Allar EFTA - þjóðirnar veltu þessu reyndar fyrir sér og settu fram spurningarmerki um það hvort það væri sá farvegur sem eðlilegastur væri og líklegastur til að tryggja árangur. En e.t.v. var ástæða til þess fyrir Íslendinga að setja stærsta spurningarmerkið þar um vegna þess að sérstaða okkar er mikil, engin önnur þjóð byggir í jafnríkum mæli á sjávarútvegi og verslun með sjávarafurðir. Og þess var fyrir fram tæplega að vænta að EFTA - þjóðirnar yrðu sérstakt skjól eða sérstakur styrkur fyrir okkur í þeim efnum. Sérstaða okkar er svo mikil á þessu sviði að engin önnur þjóð og engin önnur samtök eru líklegri til þess að gæta okkar hagsmuna en við sjálfir. Einmitt þess vegna hlaut þetta að vera álitaefni. Við höfum lengi lagt á það áherslu að fá samþykkta fríverslun með fisk innan EFTA án þess að það hafi í raun og veru haft mjög mikla efnahagslega þýðingu fyrir okkur vegna þess að viðskiptahagsmunir okkar með sjávarafurðir lágu annars staðar.
    Hæstv. ríkisstjórn gerði mjög mikið úr því þegar EFTA - ríkin féllust á áratuga gamlar kröfur okkar í þessu efni. Út af fyrir sig má segja að þar hafi unnist nokkur áfangi, en fyrst og fremst var það þó formsatriði að fá EFTA - þjóðirnar til þess að samþykkja fríverslun með fisk miklu fremur en að í því hafi falist stórkostlegur efnahagslegur ávinningur vegna þess að hagsmunir okkar í þessum efnum lágu utan fríverslunarsamtakanna.
    Einnig var á það bent af okkar hálfu, sem lögðum áherslu á tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið til þess að tryggja okkar eiginhagsmuni betur, að ólíklegt væri að Evrópubandalagið mundi fallast á fríverslun með fisk, á næstu árum a.m.k. Þegar í fyrra lá ljóst fyrir hvernig Evrópubandalagið ætlar að fylgja eftir styrkjastefnu sinni fram til ársins 1997. Þá þegar lá það fyrir að Evrópubandalagið gæti aldrei og mundi aldrei í þessum samningum fallast á kröfuna um fríverslun með fisk. Á allar þessar athugasemdir blés hæstv. ríkisstjórn í umræðunum sem fram fóru á Alþingi í fyrra.
    Við bentum einnig á að lítið færi fyrir því innan EFTA að þær þjóðir sem þar vinna með okkur væru að nota aðlögunartímann í þeim tilgangi að draga úr styrkjum. Þvert á móti var á það bent þegar á síðasta þingi að Norðmenn hafa fremur aukið styrki sína eftir að samkomulagið um fríverslun með fisk var gert en að þeir hafi dregið úr þeim. Þetta hefur verið látið átölulaust af hálfu íslenskra stjórnvalda og bendir ekki til þess að þeir ætli að nota aðlögunartímann til þess að koma þessari fríverslun á með þeim skilyrðum sem um fríverslun eiga að gilda. Nú kemur hæstv. ríkisstjórn og játar að allar þessar athugasemdir, sem hún blés á í fyrra, hafi við gild rök að styðjast og reyndar tekur hæstv. ríkisstjórn nú fram að allt það hafi mátt sjá fyrir sem hún afneitaði í fyrra þegar á það var bent.
    Einnig hefur komið fram í umræðum á alþjóðavettvangi á undanförnum mánuðum, frá talsmönnum Evrópubandalagsins, að líklegra væri að Íslendingar gætu fremur tryggt sérhagsmuni sína í slíkum viðræðum en í samstarfinu við EFTA. Þannig hefur smám saman komið í ljós að þau rök sem fram voru færð á síðasta þingi fyrir því að ástæða væri til þess að taka þessi efni öðrum tökum en gert var höfðu við full og gild rök að styðjast. Hins vegar er auðvitað fagnaðarefni, þó seint sé, að hæstv. ríkisstjórn virðist nú vera að átta sig á þeim staðreyndum en ég óttast að við höfum tapað nokkru í tíma. Það kemur glögglega fram í þeirri skýrslu sem hér er lögð fyrir og er til umræðu að þessi sérstöku hagsmunamál Íslands virðast vera miklu skemur á veg komin en ýmis önnur atriði í sameiginlegum viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins og það hlýtur að vekja upp fjölmargar spurningar. Ég er sannfærður um að ef við hefðum tekið þessi mál fastari tökum í öndverðu værum við Íslendingar komnir lengra með okkar sérstöku hagsmunamál, sem fyrst og fremst lúta að því að koma sjávarafurðum tollfrjálst inn á Evrópumarkaðinn, en raun ber

vitni um. Ekkert kemur fram í þessari skýrslu sem bendir til þess að pólitískar lausnir fáist nú á næstu vikum varðandi kröfu okkar um tollfrjálsan aðgang. Hins vegar er upplýst af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að stefnt sé að því að fá pólitískar lausnir á öllum öðrum sviðum nú á næstu vikum og alla vega fyrir lok þessa árs.
    Ég held að það sé fyllilega ljóst að við getum ekki gengið frá nokkrum samningum og Alþingi getur ekki fallist á nokkra samninga í þessu efni nema um leið hafi verið gengið frá samningum um hindrunarlausan aðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir inn á Evrópubandalagsmarkaðinn. Þess vegna er full ástæða til þess, að gefnu tilefni, þegar þessi skýrsla hefur verið lögð fram, að setja fram þá kröfu að gengið verði fram af meiri ákveðni og meiri festu á næstu vikum til þess að tryggja þessa íslensku hagsmuni þannig að þeir sitji ekki á hakanum á endasprettinum. EFTA - þjóðirnar hafa engra sérstakra hagsmuna að gæta, þegar kemur að lokum þessara samninga, að standa vörð um þessa séríslensku hagsmuni. Og Norðmenn hafa ekki sýnt það fram til þessa að þeir hafi tekið samkomulagið við Íslendinga á leiðtogafundinum í Ósló sérstaklega hátíðlega. Þess vegna er ástæða til þess að setja spurningarmerki hvað þetta varðar. Hins vegar er augljóst af skýrslunni að þessir samningar eru of stutt á veg komnir, og við höfum tapað tíma vegna þess að hæstv. ríkisstjórn gerði sér ekki fyllilega grein fyrir því í tæka tíð með hvaða hætti væri skynsamlegast að taka á þessum viðfangsefnum. Það er komið á daginn að betur hefði farið ef hlustað hefði verið á athugasemdir þeirra sem þær gerðu á síðasta þingi.
    Hvað er svo þetta Evrópska efnahagssvæði sem hér er verið að tala um? Í raun og veru er enginn stór grundvallarmunur á þeim samningum sem hér er verið að fjalla um og aðild að Evrópubandalaginu. Samningarnir eiga sér stað fyrir frumkvæði Evrópubandalagsins og grundvöllur þeirra er löggjöf Evrópubandalagsins um innri markað og samningsniðurstaðan mun fela í sér aðild EFTA - ríkjanna að þeirri löggjöf. Það hefur þegar komið fram margsinnis að Evrópubandalagið setur fram nákvæmlega sömu kröfur af sinni hálfu gagnvart samningum um Evrópska efnahagssvæðið og gagnvart ríkjum sem sækja um fulla aðild. Það kemur fram í þeim kröfum sem Evrópubandalagið hefur sett fram um fiskveiðiréttindi innan fiskveiðilögsögunnar ef við stöndum á kröfunni um fríverslun með fisk. Það á við um þær umræður sem farið hafa fram um Evrópska efnahagssvæðið. Fjórþætta frelsið, sem svo hefur verið kallað, frjálst flæði fjármagns, frjáls vöruviðskipti og frjáls þjónustuviðskipti, er hluti af löggjöf Evrópubandalagsins. Og í raun og veru er það kannski fyrst og fremst stigsmunur hvernig staðið verður að ákvörðunartökum innan Evrópska efnahagssvæðisins og innan Evrópubandalagsins.
    Það er líka ljóst að þegar rætt er um styrkingu EFTA er í raun og veru verið að fjalla um að EFTA geti með einum eða öðrum hætti komið fram á þann veg að þar sé um yfirþjóðlegt vald að ræða. Þegar horft er á öll þessi atriði kemur í ljós að hér er ekki

um veigamikinn mun að ræða. Segja má að Evrópska efnahagssamstarfið eða Evrópska efnahagssvæðið sé í raun og veru eins konar aukaaðild að Evrópubandalaginu.
    Norska ríkisstjórnin féll í morgun vegna deilna um þetta efni og af hálfu Miðflokksins, sem hefur gert ágreining að undanförnu í norsku ríkisstjórninni um stefnuna í Evrópubandalagsmálunum, hefur því einmitt verið haldið fram að enginn reginmunur sé á Evrópska efnahagssvæðinu og fullri aðild, nema þá kannski helst sá að þjóðirnar verði jafnbundnar nýjum ákvörðunum, jafnskuldbundnar þeim kvöðum sem sérhver aðildarþjóð á að gangast undir, en hafi á hinn bóginn ekki sömu aðstöðu til áhrifa og aðildarþjóðirnar. Um sumt eru þessar athugasemdir réttar þegar málin eru þannig brotin til mergjar.
    Nú eru breytt viðhorf. Það hefur komið fram í umfjöllun um þessi efni að innan annarra EFTA - ríkja fer nú fram umræða um hugsanlega og mögulega aðild EFTA - ríkjanna að Evrópubandalaginu á næstu árum. Það er hins vegar kórrétt að ósennilegt er að nokkuð gerist í þeim efnum á næstunni en ljóst á hinn bóginn að umræðan hefur verið tekin nýjum tökum og þróunin mun þess vegna verða önnur í þessu efni en við gerðum ráð fyrir á síðasta ári þegar umræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið fóru af stað.
    Það er óþarfi að rekja það í löngu máli hvernig þessi umræða hefur verið að breytast. Menn þekkja það af umfjöllun í fjölmiðlum hvernig afstaðan hefur verið að breytast í Svíþjóð þar sem menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að hlutleysisstefnan standi ekki lengur í vegi fyrir aðild Svía. Tveir flokkar hafa formlega í Svíþjóð tekið aðild að Evrópubandalaginu á stefnuskrá sína og sænskir sósíaldemókratar eru farnir að ræða það efni í fullri alvöru. Sama umræða er að hefjast í Noregi og í Finnlandi hefur sú umræða einnig verið opnuð og Austurríki hefur, eins og öllum er kunnugt, lagt inn umsókn.
    Mér finnst eins og af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hafi þessum nýju viðhorfum verið afneitað. Menn reyna að gera lítið úr þeim, menn reyna að blása á þau, menn reyna að segja að allt sé þetta misskilningur, þeir sem yfirlýsingarnar gefi skilji ekki stöðu mála og hinar formlegu yfirlýsingar séu á annan veg. Auðvitað er það rétta að hinar formlegu yfirlýsingar eru að mestu óbreyttar, en við getum ekki og megum ekki loka augunum fyrir þróuninni sem er að eiga sér stað.
    Líklegt er að ástæðan fyrir því að hæstv. ríkisstjórn reynir að loka augunum fyrir þessum breytingum sé sú að hún vill draga fjöður yfir mismunandi áherslur sem eru innan stjórnarflokkanna í þessum efnum. Víðast hvar annars staðar hafa álitaefnin sem upp koma í þessum samningum verið dregin fram með miklu skýrari og skarpari hætti en hér hefur verið gert. Það er ástæðan fyrir því að ágreiningur og mismunandi áherslur sem verið hafa í norsku ríkisstjórninni hafa nú leitt til stjórnarslita. Af hálfu hæstv. núv. ríkisstjórnar er augljóslega tilhneiging til þess að halda málum af þessu tagi undir yfirborðinu sem lengst og reyna að skjóta átökum um þau fram yfir

kosningar.
    Einnig hefur borið á því af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að hún hefur kappkostað að leggja Evrópubandalaginu til rök í þeim viðræðum sem fyrir dyrum standa. Þegar lögð hefur verið áhersla á nauðsyn þess að taka upp tvíhliða viðræður um íslenska hagsmuni flytja ráðherrarnir í ríkisstjórn Íslands öll rökin sem Evrópubandalagið getur hugsanlega teflt fram á móti Íslendingum. Þegar bent er á hvað er að gerast á alþjóðavettvangi, hvaða breytingar eru að gerast þar, tefla íslensku ráðherrarnir fram öllum þeim rökum sem forustumenn Evrópubandalagsins gætu hugsanlega teflt fram gegn þeirri breytingu. Ég verð að segja að þó að hugsanlega megi nota málflutning af þessu tagi í skylmingum er það óskynsamlegt út frá samningsstöðu Íslands að verjast alltaf með því að leggja samningsaðilunum, mótaðilunum, til rök. Þvert á móti eigum við að leggja meiri áherslu á í okkar umfjöllun hvernig við getum knúið þá til þess að viðurkenna okkar hagsmuni. Og þó að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki valið skynsamlegustu leiðina til að vinna að séríslenskum hagsmunum í þessu efni er ástæðulaust að verja sig með því að tefla alltaf fram rökum Evrópubandalagsins. Við eigum að halda fram íslenskum málstað í þessu efni.
    Mér sýnist því að flest bendi til þess að Evrópska efnahagssvæðið verði fyrst og fremst, ef af því verður og samningar takast um það, stökkbretti fyrir stærri þjóðirnar í EFTA inn í Evrópubandalagið og á næstu árum munum við sjá á eftir þeim inn í Evrópubandalagið. Þetta verður þannig ekki frambúðarlausn á skipan tengsla EFTA - þjóðanna við Evrópubandalagið heldur bráðabirgðalausn til skamms tíma sem fyrst og fremst verður notuð til aðlögunar fyrir stærri þjóðirnar. Auðvitað nýtast þessar umræður. Auðvitað liggur það fyrir að það er búið að semja um meginhluta þeirra viðfangsefna sem semja þarf um og þær koma því að góðu gagni fyrir aðrar EFTA - þjóðir í áframhaldandi samningum við Evrópubandalagið sem þá munu taka skemmri tíma en ella. Það er þess vegna augljóst að þær umræður sem fram hafa farið og þeir samningar sem hafa verið á döfinni hafa haft mjög mikla þýðingu og mikið gildi þó að niðurstaðan verði sú að Evrópska efnahagssvæðið verði fyrst og fremst bráðabirgðalausn eða stökkbretti fyrir aðra inn í Evrópubandalagið.
    Ég held að af þessum sökum sé líklegt að ágreiningur um stjórnkerfis - og stjórnskipunarmál sem hefur verið á döfinni þurfi ekki að skipta eins miklu máli og í raun hefur verið í viðræðunum fram til þessa. Evrópubandalagsríkin sjá hvert stóru EFTA - ríkin eru að stefna og ég hygg að aðild EFTA - ríkja að nefndarstarfi í Evrópubandalaginu muni á skömmum tíma breyta í mörgu viðhorfum manna til þessa samstarfs og gera menn jákvæðari í því efni og þess vegna ástæða til þess einmitt að nota þessa þróun til að knýja Evrópubandalagið frekar til undanhalds en að túlka hana á þann veg að hún styrki stöðu Evrópubandalagsins í viðræðunum. Því sjónarmiði tel ég að við eigum ekki að gera of mikið úr. Ég held að miklu

fremur sé ástæða til að nota þessa þróun til að styrkja okkar samningsstöðu gagnvart Evrópubandalaginu.
    Það hefur verið allvíðtæk samstaða um þátttöku í þessum viðræðum þó að ljóst sé að þeir fyrirvarar sem komið hafa fram af hálfu einstakra flokka, ekki síst einstakra ríkisstjórnarflokka, eru nokkuð mismunandi, eru túlkaðir líka með ólíkum hætti af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar. Aðalatriðið er það að við verðum að gera okkur grein fyrir raunveruleikanum. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir þeim breytingum sem átt hafa sér stað og við verðum að gera okkur grein fyrir raunveruleikanum og móta okkar afstöðu með tilliti til þess. Aðalatriðið er að um meginmarkmiðið með samningunum sé víðtæk samstaða á meðal Íslendinga og sem betur fer er nú miklu ríkari samstaða um ýmis efni sem lengi hafa valdið deilum í íslenskum stjórnmálum og þá á ég fyrst og fremst við afstöðu manna til aukins frjálsræðis við stjórn efnahags - og atvinnumála. Um það er miklu meiri samstaða nú en verið hefur um langan tíma og þess vegna ástæða til að ætla að í þjóðfélaginu sé breiðari samstaða á bak við samstarf af þessu tagi en nokkru sinni fyrr.
    Þeir meginkostir sem við höfum þegar við horfum til lengri tíma er auðvitað full aðild, einhvers konar aukaaðild í öðru lagi eða í þriðja lagi útvíkkun á viðskiptasamningi okkar við Evrópubandalagið. Ég held að of snemmt sé, í dag, að fullyrða um það hver þessara kosta er líklegastur til að tryggja bestan árangur fyrir okkur. Að mínu mati höfum við ekkert það í höndunum í dag sem segir að einn þessara kosta sé öðrum betri. Við eigum hins vegar engan þeirra að útiloka fyrir fram því að ég hygg að það sé meginatriði að í viðræðum þar sem ekkert er útilokað fyrir fram fáum við að sjá hverju við náum fram og við tökum svo afstöðu til framtíðarskipunar okkar með tilliti til þess. Mitt mat er það að með tilliti til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum verðum við að búa okkur undir það að hafa tekið endanlega ákvörðun og náð samningum um frambúðartengsl okkar við Evrópubandalagið á næstu fimm árum. Þess vegna þurfum við að hefja mjög opna og frjálsa umræðu um markmið okkar og þá kosti sem eru fyrir hendi og megum ekki loka augunum fyrir þeirri þróun sem nú á sér stað og verðum að gera okkur grein fyrir stöðu okkar með tilliti til þess sem aðrar þjóðir eru að gera vegna þess að við lifum ekki einir í heiminum. Við eigum mikla hagsmuni bundna við hvað aðrar þjóðir gera því að fáar þjóðir eru háðari utanríkisviðskiptum en við Íslendingar, fáar þjóðir eiga lífshagsmuni sína í jafnríkum mæli undir utanríkisviðskiptum og við Íslendingar. Við eigum því að forðast að ræða þessi mál á neikvæðum forsendum, en af hálfu einstakra aðila að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur í of ríkum mæli verið staðið að þessari umræðu á neikvæðum forsendum. Ég tek það fram að það á ekki við um alla þá aðila sem nú standa að ríkisstjórn en af hálfu sumra þeirra.
    Ég rifja hér upp þegar formaður Framsfl. sagði í viðtali að Evrópubandalagið væri versti kosturinn fyrir Ísland. Síðan þegar formaður Framsfl. sat við hliðina á forseta Frakklands og þurfti að svara fyrir slík ummæli lét hann eins og þau hefðu aldrei fallið. Mér virðist þannig að það sé alveg augljóst, ekki bara af þessu dæmi heldur fjölmörgum öðrum, að sumir þeir sem eiga aðild að hæstv. ríkisstjórn og flytja mál hennar flytji tvær ræður um þetta efni, eina fyrir innanlandsmarkað og aðra fyrir erlendan markað.
    Nú er það ekkert óvanalegt, ekki síst þegar Framsfl. á í hlut, að menn tali samtímis í tvær gagnstæðar áttir og út af fyrir sig ætla ég ekki að gera ágreining um það hvernig Framsfl. flytur sitt mál. Hitt er alveg augljóst að það veikir stöðu Íslands þegar þannig er talað af hálfu aðila sem eiga aðild að ríkisstjórn og eru jafnvel í forustu fyrir henni. Það veikir trúnað okkar og traust á erlendum vettvangi. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessi mál séu tekin til umfjöllunar og að menn geri sér fulla grein fyrir því um hvað þau snúast og lýsi því mjög nákvæmlega hvað það er í þessum samningum sem menn eru reiðubúnir að styðja og standa á bak við og hvað það er sem menn eru á móti. Hitt veikir stöðu okkar í samningunum ef menn hafa það á tilfinningunni að mismunandi áherslur séu innan ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ástæðan fyrir því að norska stjórnin fór frá í morgun er einmitt sú að hún taldi að það skaðaði hagsmuni Noregs í samningunum ef ríkisstjórnin talaði ekki einni röddu í þeim samningum. Þess vegna er nauðsynlegt að draga öll þessi mál hér fram og fá skýrari afstöðu en verið hefur frá einstökum aðilum ríkisstjórnarinnar.
    Við Íslendingar eigum mikið undir því að þessir samningar takist vel. Ég tel mikilvægt að þessum samningum um Evrópska efnahagssvæðið ljúki. Þó að augljóst sé að þeir verði með öðrum hætti en upphaflega var að stefnt og þar sé ekki um frambúðarlausn að ræða væri rangt að hlaupa frá þeim og hverfa frá þeim umræðum, en við verðum að gera okkur grein fyrir því að það hafa orðið breytingar og við verðum að móta frambúðarstefnu okkar með tilliti til þess. Við verðum að taka á þessu viðfangsefni með jákvæðum hætti og gera okkur grein fyrir að ef við ætlum að lyfta Íslandi úr fari stöðnunar inn á braut framfara verðum við að taka virkan þátt í þessu alþjóðlega efnahags - og viðskiptasamstarfi sem hér er verið að fjalla um.