Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. utanrrh. fyrir það yfirlit sem hann hefur gefið um stöðu samninganna í formi skýrslu til Alþingis. Það er mjög mikilvægt að þingið fái að fylgjast náið með því sem fram fer í samningaviðræðum milli EFTA og EB og ræða málin á þessum vettvangi. Ég verð þó, virðulegur forseti, að lýsa óánægju minni með það hve lítið samráð hefur verið haft við utanríkismálanefnd og Evrópustefnunefnd þingsins vegna þessara samningaviðræðna. Allt frá því að könnunarviðræður hófust á milli EB og EFTA á útmánuðum 1989 hafa ríkisstjórnin og samningamenn hennar rekið þetta mál án þess að eðlilegt samráð hafi verið haft við utanrmn. um afstöðu til einstakra þátta málsins. Ég er ekki að kvarta yfir því að við sem sitjum í utanrmn. höfum ekki fengið upplýsingar um gang mála ef eftir þeim hefur verið gengið, en fyrst eftir á höfum við fengið upplýsingarnar. Við höfum fengið að vita hvaða ákvarðanir hafi þegar verið teknar af hálfu samningamanna íslensku ríkisstjórnarinnar en ekki hefur verið haft neitt samráð fyrir fram.
    Í 15. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta: ,,Utanrmn. starfar einnig milli þinga og er ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt milli þinga sem á þingtíma.`` Eftir þessu hefur ekki verið farið að mínu mati. Nánast ekkert samráð hefur verið haft við utanrmn. í þessu máli fyrir fram þó svo að greinilega standi í lögum að svo beri að gera, svo að ég tali nú ekki um Evrópustefnunefnd þingsins sem þó var kjörin af Alþingi sérstaklega til að fylgjast með þróun þessara mála.
    Það var í mars 1989 sem EFTA - ríkin ákváðu að taka boði EB um að kanna möguleikana á að mynda sameiginlegt efnahagssvæði. Það var á fundi í Ósló. Aðalsigur Íslendinga á þeim fundi var sagður vera samkomulag um fríverslun með fisk innan EFTA. Minnumst við þess, sem fylgdumst með fjölmiðlum á þeim tíma, að hæstv. ráðherrar, bæði utanrrh. og forsrh., komu fram í fjölmiðlum og töluðu um að þarna væri mjög stórt og mikilvægt skref tekið. Ekki væri mikilla hagsmuna að gæta innan EFTA en aðalatriðið væri að við værum búin að semja um fríverslun með fisk innan EFTA sem væri lykillinn að fríverslun með fisk innan Evrópubandalagsins. Þetta væri lykilatriði og nauðsynlegt til þess að hagsmunum okkar væri borgið innan innri markaðarins. Þetta var því talin aðalforsendan fyrir því að við ættum að taka þátt í samningaviðræðum við Evrópubandalagið. Það kom reyndar fram í máli hæstv. forsrh. hér áðan að hann taldi þetta hafa verið eitt aðalmálið á þeim fundi.
    Það voru þó margir sem settu spurningarmerki við þetta og töldu að með þessu væri hagsmunum Íslands alls ekki borgið. Og það var ekki hlustað á það, hvorki í utanrmn. né annars staðar, að með því að fara í samningaviðræður við Evrópubandalagið, eða könnunarviðræður eins og það hét þá, með fríverslun með fisk sem aðalkröfuna, væri langt frá því að hagsmunum okkar væri borgið. Með því hefðum við ekki getað reist neinar skorður við útflutningi á ferskum fiski eða á hálfunnum fiski. Ekki væri hægt að krefjast löndunar afla hérlendis eins og hugmyndir hafa verið um ef um fríverslun hefði verið að ræða. Og það sem meira var, það var ljóst, e.t.v. allan tímann, að Evrópubandalagið mundi ekki vilja fallast á að falla frá sjávarútvegsstefnu sinni. Þess vegna átti öllum að vera ljóst að þeir hefðu aldrei gengið að þessari kröfu, enda kom skýrt fram í samningsumboði framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, þegar ákveðið var að ganga til samninga, að ekki mundi verða hvikað frá þessari kröfu um aðgang að auðlindum fyrir aðgang að mörkuðum.
    Í samningsgrundvelli EFTA - landanna er krafan um fríverslun með fisk. Þarna stóð þá að sjálfsögðu krafa gegn kröfu. Það kemur ekki á óvart að Evrópubandalagið sem er sterkari aðilinn í þessum samningum geti staðið á sinni kröfu, enda hefur nú komið í ljós að EFTA hefur orðið að falla frá kröfu sinni um fríverslun með fisk.
    Það kemur mér mjög á óvart ef hæstv. utanrrh. og hans menn eru undrandi á þessu, svo oft sem það hefur verið rætt hér, að ekki muni verða fallist á fríverslun með fisk. Ég vil vekja athygli á því að í bæklingi sem kom út á vegum Evrópustefnunefndar í maí á þessu ári segir sú sem hér stendur í áliti orðrétt, með leyfi forseta: ,,Nú er orðið ljóst að EB mun ekki samþykkja fríverslun með fisk í náinni framtíð, enda samræmist það ekki því mikla styrkjakerfi sem þar er við lýði. Íslendingum er mikilvægt að hafa möguleika á því að stjórna sjálfir útflutningi á fiski jafnframt því að tryggja fiskafurðum sínum hagstæða markaði. Við verðum að efla fjölbreytni atvinnulífs með því að fullvinna sjávarafurðir í ríkari mæli en nú er og afla þeim markaða erlendis.`` Þetta var sagt í maí og er það ekki einungis sú sem hér stendur sem hefur haldið þessu fram heldur margir aðrir.
    Einnig urðum við sem fórum til Brussel núna í september vör við það að það hafði ekki komið til álita af hálfu þeirra sem sáu um þessa samninga af hálfu Evrópubandalagsins, að fallast á fríverslun með fisk eins og EFTA hafði gert kröfu um. Nú er það þó kannski ljóst sem átti að vera ljóst frá upphafi og menn hafa áttað sig á þeim staðreyndum sem kannski lágu allan tímann á borðinu. Og hvað er þá sagt? Jú, það er e.t.v. bara heppilegt að ekki hefur verið fallist á þessa kröfu. Hæstv. forsrh. sagði áðan að það hefði nú verið slæmt fyrir okkur ef fallist hefði verið á fríverslun með fisk. Þá hefðum við e.t.v. ekki getað gert kröfu um það að erlendir aðilar mættu ekki eiga í fiskiskipum og í fiskvinnslunni. Þetta er alveg furðulegt að heyra. Fyrst er þetta ein aðalkrafa okkar og svo skyndilega breytist hún í það að það sé kannski nokkuð gott fyrir okkur að ekki skyldi vera fallist á þetta því við hefðum auðvitað ekki getað reist skorður við útflutningi á fiski og hefðum ekki getað komið í veg fyrir að útlendingar ættu í fiskiskipum og fiskvinnslu. Nú er það loksins viðurkennt af öllum að þetta var þá allan tímann hið mesta óráð.

    En hvað er búið að gangast undir hingað til? Jú, búið er að gangast undir það, íslenska ríkisstjórnin í broddi fylkingar, að viðurkenna lög og reglur bandalagsins á þessu sviði. Og eftir því sem upplýst hefur verið héðan úr þessum ræðustól verða það um 10 þús. síður, ef ég man rétt, af lagatexta, og er þá bláskinna hæstv. utanrrh. einungis 1000 blaðsíður, þannig að fólk getur séð hvað við eigum eftir að fara í gegnum mikinn lagatexta á næstu árum. Ég sé þess vegna ekki betur en að stefnt sé hraðbyri inn í Evrópubandalagið eins og reyndar mörg önnur lönd EFTA gera. Það hefur komið í ljós að hvert ríkið af öðru innan EFTA hugsar sér til hreyfings og telur sínum hagsmunum betur borgið með öðrum hætti en að gerast aðili að Evrópsku efnahagssvæði, telur að því sé betur borgið með því að ganga í Evrópubandalagið. Austurríki er þegar búið að sækja um, eins og margoft hefur komið fram, og Norðmenn og Svíar hafa talað um að þeir þurfi e.t.v. að endurskoða sína afstöðu. Það mun væntanlega leiða til þess að viðspyrna EFTA í þessum samningaviðræðum verður nánast engin þar eð stór hluti af öðrum aðilanum er á leið að hinni hlið borðsins. Það hljóta því allir að sjá að það er ekki farsælt að halda áfram á þeirri leið sem hingað til hefur verið mörkuð.
    Enn er einn stærsti þátturinn eftir og það er hinn svokallaði stofnanalegi þáttur, þ.e. hvernig fer með stjórn svæðisins eftir að samningum er lokið. Það er langt frá því að nokkurt samkomulag hafi náðst í þá átt og vandséð hvernig
hægt er að komast að nokkurri niðurstöðu um það hvernig á að stjórna þessu efnahagssvæði eftir og ef hugsanlega af samningum verður, þar sem ljóst er af hálfu Evrópubandalagsins að það mun ekki hleypa þriðja aðila inn í sinn ákvarðanaferil. Er þá einkennilegt að vita til þess að margs konar lög og reglur gildi, t.d. um fjármagnsflutninga, á hinu Evrópska efnahagssvæði ef aðrar reglur gilda í Evrópubandalaginu ef þeir vilja breyta sínum reglum? Ég sé því ekki betur en það sem þarna stendur út af borðinu, þ.e. um ákvarðanatökuferilinn eftir að samningar hafa tekist, séu þættir sem munu reynast mjög erfiðir og mjög hæpið að hægt sé að komast að einhverju samkomulagi um sem við Íslendingar getum sætt okkur við. Ég tel ótækt að við föllumst á þá ólýðræðislegu stjórnarhætti sem hafa viðgengist í Evrópubandalaginu. Við vitum hversu miðstýrt það kerfi er. Þar erum við með fámennisstjórn, sautján manna framkvæmdastjórn, sem hefur mikil völd og ráðherraráð en þing bandalagsins og þing einstakra aðildarríkja hafa þar ekkert að segja. Ég horfi því fram á það með óhug ef við ætlum að fara að taka upp eitthvað svipað á hinu Evrópska efnahagssvæði og vona að Íslendingar munu aldrei samþykkja nokkuð þvílíkt.
    Þá langar mig örlítið, virðulegur forseti, að minnast á svokallaða fyrirvara Íslands. Það hefur verið talað um að fyrirvarar Íslands séu fáir ef þá nokkrir. Menn hafa hrósað sér af að það sé mjög gott að Íslendingar hafi enga fyrirvara. En mér líst illa á það og vil minna á að hæstv. forsrh. talaði um það í ræðu

sinni í Ósló í mars 1989 að Ísland yrði að hafa fyrirvara á flestum sviðum fyrir utan vörusviðið. Þykir mér nú orðið lítið eftir af þeim fyrirvörum ef marka má orð hæstv. utanrrh. hér fyrr í umræðunni.
    Norska ríkisstjórnin sagði af sér í dag og aðalástæðan fyrir því voru einmitt þessir samningar. Þeir vildu ekki fallast á það að réttur erlendra aðila væri sá sami og innlendra í norsku atvinnulífi. Ég vildi því spyrja hæstv. forsrh. hvort um það sé samkomulag innan ríkisstjórnarinnar að falla frá íslensku hlutafélagalögunum, þ.e. að því er varðar alla aðra þætti atvinnulífsins en fiskvinnslu og sjávarútveg. Það fannst mér liggja í orðum hæstv. forsrh. hér áðan og dettur mér nú t.d. í hug ferðaþjónusta sem er atvinnuvegur sem mikið hefur verið litið til sem eins mikilvægasta atvinnuvegar fyrir utan fiskiðnað hér í framtíðinni. Þætti mér fróðlegt að vita hvort búið er að samþykkja það innan ríkisstjórnarinnar að falla frá öllum lögum um takmarkaðan aðgang erlendra aðila til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi, að frágengnu þá, eftir því sem mér skildist hér áðan, sjávarútvegi og fiskvinnslu. Fram að þessu hefur verið talað um að það hafi einungis verið í fiskveiðum en núna, þar sem ekki hefur verið fallist á fríverslun með fisk, sé óhætt að taka fiskvinnsluna aftur með fyrirvörum.
    Þetta vildi ég spyrja sérstaklega um og af því tilefni að norska ríkisstjórnin fer einmitt frá af þessum orsökum. Þess vegna langar mig til að spyrja sérstaklega um þetta. Ég geri mér fulla grein fyrir því að samvinna við erlenda aðila í atvinnurekstri hér á landi getur haft marga kosti í för með sér, svo sem aðgang að tækniþekkingu, markaði og viðskiptasamböndum, en að sjálfsögðu er hægt að afla þekkingar og eiga markaðssamstarf við útlendinga án þess að þeir eigi eignarhlut í fyrirtækjunum eða eigi þau að öllu leyti. Mér finnst nauðsynlegt að enginn vafi leiki á yfirráðum Íslendinga einna yfir auðlindum lands og sjávar. Það er alger lágmarkskrafa. Og ég vil í því sambandi benda á að ég tel að varðandi ferðaþjónustu sé þar um að ræða það mikil afnot af landinu, sem er okkar mikilvægasta auðlind, að ekki sé hægt að undanskilja það heldur. Ég vildi því gjarnan fá skýr svör við þessu. Ég held að menn hljóti að vera farnir að gera sér grein fyrir að það voru mistök í upphafi að fara út á þessa braut þó að menn eigi kannski erfitt með að viðurkenna það. Ég vil benda á að samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi sem hefur starfað hér undanfarið ár er sammála því að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina. Í ræðu sem Magnús Gunnarsson hélt á aðalfundi Samtaka fiskvinnslunnar í Leiru þann 5. okt. sagði hann m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í fyrsta lagi er það samdóma álit nefndarmanna að ekki komi til greina að sækja um aðild að EB miðað við núverandi kringumstæður og núverandi sameiginlega sjávarútvegsstefnu bandalagsins eða samþykkja kröfu þeirra um veiðiheimildir.`` Og síðan segir: ,,Það er samdóma álit manna að ef ekki verður komin einhver skýr lína í þessu máli um næstu áramót þá hljóti Íslendingar að þurfa að endurskoða afstöðu sína til

þessara viðræðna með tilliti til þeirrar stöðu sem þá verður.``
    Ég tel að þessi staða sé komin upp núna. Það er ljóst hvert stefnir, að ekki verður um neina fríverslun með fisk að ræða. Nú er kominn tími til að viðurkenna að þarna var ekki rétt á málum haldið. Við þurfum að meta stöðuna upp á nýtt.
    Miklar sveiflur hafa verið í útflutningi til einstakra heimshluta á þessari öld. Um tíma var mikið magn sjávarafurða flutt út til Bandaríkjanna og Austur - Evrópu. En að undanförnu hefur vægi markaða í löndum Evrópubandalagsins aukist mikið og nýir markaðir verið að opnast, m.a. í Japan. Það er keppikefli fyrir Íslendinga að eiga tollfrjálsan aðgang fyrir afurðir sínar á öllum þessum mörkuðum. Af sögunni má læra að skynsamlegt er að binda sig ekki um of við eitt markaðssvæði heldur eiga möguleika sem víðast. Þannig styrkjum við stöðu okkar út á við og treystum efnahagslegt sjálfstæði. Gæta þarf þess t.d. að missa ekki þá fótfestu sem við höfum haft fyrir fiskafurðir okkar á Bandaríkjamarkaði m.a. og víða í Mið - og Austur - Evrópu geta verið að opnast nýir markaðir. Sérstaða Íslands sem fiskveiðiþjóðar veldur því að afar óskynsamlegt er að binda þjóðina einum markaði, eða efnahagsbandalagi, sem þrengt gæti svigrúm hennar í utanríkisviðskiptum. Þvert á móti þjónar það hagsmunum okkar að vera óháð í samskiptum út á við og leita sem bestra samskipta með beinum samningum við einstök ríki og markaðsheildir. Þetta á við um samskipti Íslands við Evrópubandalagið sem farið hafa vaxandi og eru þjóðinni mikilvæg. Við Evrópubandalagið þurfa Íslendingar að ná hagstæðum viðskiptasamningum og gagnkvæmum viðskiptum á öðrum sviðum, þar á meðal rannsóknum, menntun og umhverfismálum. Við eigum eðlilega kröfu á hendur EB að veita okkur tollfrjálsan aðgang með fiskafurðir hliðstætt því sem við gerum með innflutning iðnvarnings þaðan. Hitt ætti að vera ljóst að það getur ekki þjónað hagsmunum Íslendinga sem smáþjóðar að tengjast Evrópubandalaginu nánum böndum, hvað þá að ganga í bandalagið.
    Evrópubandalagið er að vaxa saman í ríki þar sem hin gömlu stórveldi, Þýskaland, Frakkland og Bretland, ráða ferðinni. Evrópubandalagið í núverandi mynd er afar ólýðræðislegt. Þar ráða embættismenn og stórfyrirtæki mestu en kjörnir fulltrúar og þjóðþing landanna eru áhrifalítil. Í slíkri heild yrðu efnahagsleg og pólitísk áhrif Íslendinga hverfandi þannig að aðild að EB jafngilti í raun afsali fullveldis.
    Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði, sem Íslendingar eru nú að semja um, værum við líka komin hálfa leið inn í Evrópubandalagið og er alveg ljóst að samningarnir eru liður í inngöngu af hálfu sumra EFTA - ríkjanna, eins og ég sagði áðan, inn í Evrópubandalagið.
    Að mínu mati hefur lengi verið ljóst að samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði á þeim grunni sem lagður hefur verið, þ.e. að lög og reglur Evrópubandalagsins gildi á öllu svæðinu, getur aldrei orðið viðunandi fyrir Ísland. Farsælla er því fyrir okkur að

leita beinna samninga um okkar hagsmunamál og um okkar samskipti við Evrópubandalagið en vera ekki að flækja okkur í samninga þar sem iðnaðarhagsmunir annarra EFTA - ríkja sitja í fyrirrúmi. Þessari skoðun hafa kvennalistakonur ítrekað komið á framfæri bæði héðan úr þessum ræðustóli sem og annars staðar. Í því sambandi verður að tala um alhliða samninga, ekki bara um aðgang að mörkuðum fyrir fiskafurðir okkar heldur öll okkar samskipti.
    Ég legg áherslu á það að við meðferð málsins héðan í frá verði haft fullt samráð við þingið og bendi á hlutverk utanrmn. í því sambandi. Alþingi þarf að taka afstöðu til þessara samninga og því mikilvægt að þingmenn hafi áhrif á það hvernig samningar líta út að lokum. Það er óviðunandi fyrir þingið að þurfa að standa frammi fyrir orðnum hlut og hafa enga möguleika á að breyta þar stafkrók. Ég ítreka að hagsmunum Íslands er best borgið í beinum viðræðum við Evrópubandalagið en ekki í samfloti við aðrar þjóðir sem hafa allt annarra hagsmuna að gæta. Það hefur sýnt sig hingað til að svo er ekki og er engin ástæða til þess að ætla að svo verði í framhaldinu.