Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka hæstv. utanrrh. fyrir góða og skilmerkilega ræðu hér áðan þar sem hann kynnti mjög greinilega hver staða málsins væri og hvaða grundvöllur væri í málinu um Evrópskt efnahagssvæði. Minn flokkur er mjög áfram um það að þessir samningar megi takast um hið Evrópska efnahagssvæði og við leggjum mikið upp úr því að keyrt verði áfram af fullri hörku með það að markmiði að þessir samningar verði ofan á fyrir mitt næsta ár. Mér hefur virst í þessari umræðu að menn, og þá sérstaklega stjórnarandstaðan, geri sér ekki almennilega grein fyrir við hvað er að eiga og hvers konar grundvöllur er að skapast með þessu Evrópska efnahagssvæði. Það er ekki aðeins verið að tala um fisk og fríverslun með fisk, heldur er þarna um að ræða miklu stærra og umfangsmeira verkefni sem teygir sig inn á öll svið íslensks þjóðfélags. Þarna er verið að tala um samvinnu við evrópsk ríki, við flest ríki Austur - Evrópu sem við viljum eiga sem mest samskipti við. Ég held að ef þetta Evrópska efnahagssvæði verði ofan á þá takist okkur að auka hér framleiðni og hagvöxt, en að sjálfsögðu að því tilskildu að við getum samið um annaðhvort fríverslun með fisk eða að við getum selt okkar fiskafurðir án tolla inn í Evrópubandalagið. Það er það atriði þar sem hnífurinn stendur í kúnni, eins og hæstv. utanrrh. upplýsti hér áðan.
    Annað sem ég mundi vilja vekja máls á er hvað tekur við ef samningar takast ekki. Og einnig hvernig alþýða manna er upplýst um þessi mál. Þótt fram hafi farið skoðanakannanir um afstöðu almennings til viðræðna og um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið hef ég þá trú að fæstir viti hvað í því geti falist. Þess vegna hefur mér fundist að utanrrh., ríkisstjórn og við alþingismenn ættum að opna þessar umræður miklu meira en gert hefur verið til þess að fólk geti kynnt sér rök með og á móti samningum um Evrópskt efnahagssvæði og samningum um inngöngu í Evrópubandalagið. Og einnig það þriðja sem hefur verið í umræðunni, um tvíhliða samninga á milli Íslands og Evrópubandalagsins, hvað mundi geta falist í þeim samningi. Mín skoðun er sú, eftir að hafa velt fyrir mér kostum og göllum þessara þriggja leiða sem virðast vera í umræðunni, í fyrsta lagi Evrópskt efnahagssvæði, í öðru lagi tvíhliða samning og í þriðja lagi aðild að Efnahagsbandalaginu, að ríkisstjórnin hafi gert rétt í því að leggja áherslu á Evrópska efnahagssvæðið þar sem það er mýksta lendingin ef vel tekst. Og einnig að með því fáum við að njóta þeirra markaða og njóta þess sem gerst hefur í Evrópu á undanförnum árum og kemur til með að gerast. En eins og ég lýsti áðan er það stefna míns flokks að þessar viðræður, sem nú hafa átt sér stað og koma til með að eiga sér stað á milli EFTA og Efnahagsbandalagsins, megi takast.
    Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að opna okkar hagkerfi og auka hér samkeppni. Því miður er á mjög mörgum sviðum einokun á svo mörgum þáttum, sem hefur staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun, að ég óttast ekki samkeppni frá erlendum aðilum eins og mér heyrðist að fulltrúi Kvennalistans óttaðist mjög. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hagvöxtur og hagsmunir neytenda eru fyrir borð bornir nema samkeppni ríki.
    Þeir fyrirvarar sem gerðir hafa verið af hálfu Íslands í þessum viðræðum eru ekki margir en mjög mikilvægir, og þá sérstaklega varðandi fríverslun með fisk, eða, eins og nú er orðin raunin, spurningin um tollfrelsi á mörkuðum Evrópubandalagsins. Ég er mjög sammála þessum fyrirvara að sjálfsögðu eins og aðrir sem hér hafa talað. Hins vegar eru aðrir fyrirvarar sem ég legg ekki eins mikið upp úr og aðrir. Raunar tel ég að fyrirvarinn og óttinn um að hingað flykkist mikið af fólki ef við opnum landið fyrir vinnuafli frá öðrum löndum, sé ástæðulaus. Hins vegar finnst mér meira atriði og tel miklu meiri hættu á að Íslendingar flykkist til annarra landa, vel menntað fólk sem við þurfum á að halda, opnist þessi möguleiki. Það væri frekar að setja takmörkunina þar heldur en um hitt atriðið, að við þurfum að óttast að erlendir aðilar flykkist hingað í stórum stíl.
    Það væri hægt að ræða þessi mál, um Evrópubandalagið og samskipti Íslands við Evrópubandalagið, í löngu máli, en tilgangurinn var einungis að lýsa skoðunum míns flokks á þessum málaflokki og lýsa þeirri skoðun að við borgaraflokksmenn erum ekki spenntir fyrir því að óska eftir að Ísland gerist aðili að Efnahagsbandalaginu.
Hins vegar finnst okkur mjög mikilvægt að umræða fari fram um þá hluti til þess að gera fólkinu í landinu grein fyrir hvað í aðild mundi felast, svo fólk sé upplýst um þau mál og geti myndað sér skoðun um hag sinn og hag Íslands í því sambandi.
    En ég vil að lokum þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu hans og skýrslu sem hann gaf hér áðan, og sem færði okkur betur inn í málin en við vorum áður, og ég lýsi fullu trausti á því sem hann er að gera á þessu sviði þessa daga.