Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að þetta er stórt mál sem við erum hér að fjalla um og það er vandasöm siglingin í þessu máli. En við verðum að hafa það hugfast að mikið hefur breyst frá því að viðræður hófust um Evrópskt efnahagssvæði til þessa dags. Það eru að opnast ýmsir möguleikar í sambandi við viðskipti sem voru ekki augljósir áður. Hitt er rétt að það getur liðið nokkur tími þar til það opnast fyrir alvöru. Ég held að við þurfum að líta í allar áttir í sambandi við okkar viðskipti. Við getum aldrei bundið okkur á einum eða tveimur stöðum. Efnahagsbandalagið er í sjálfu sér með tollmúra, það á að verða eitt land, eins og t.d. Bandaríkin, og ætlar að nota tollmúra gagnvart öðrum ríkjum. Menn eru að tala um það hér að nauðsynlegt sé að við náum samstöðu í þessu máli. Auðvitað er það nauðsynlegt. En benda þær umræður sem hafa farið hér fram til þess að það verði svo auðvelt að stilla strengina þannig að þeir hljómi á sama veg? Ef ég hef t.d. skilið hv. 1. þm. Suðurl. áðan þá gat ég ekki annað heyrt á honum en að hann stefndi á það að við gengjum í Efnahagsbandalagið, eða gerði ráð fyrir því þegar tímar liðu. Ég skildi líka utanrrh. þannig að hann teldi að staðan væri þannig að ef úr samningum yrði milli EFTA og EB núna væri það eitt skref í áttina að því að það væri líklegra að þessar þjóðir, Norðurlandaþjóðirnar, EFTA-þjóðirnar, mundu lenda inni í Efnahagsbandalaginu síðar. Mér sýnist það líka bæði á Svíum og Norðmönnum og þeim umræðum sem fara þar fram núna að þeir hafi litla trú á því að samkomulag náist um Evrópskt efnahagssvæði. Eins og mál standa núna er líklega einn kostur til og hann er að fara í tvíhliða viðræður þó það sé raunar rétt að það verði að fást niðurstaða í þessu máli. Mér hefur fundist að það væru ekki nægar upplýsingar sem t.d. þingmenn, hvað þá þjóðin, hefur fengið um þetta mál og það veitti ekkert af því að upplýsa hana betur um það.
    Hæstv. utanrrh. hefur oft á tíðum verið með nokkuð bjartsýnt hljóð um hvað muni gerast, og jafnvel á næstu vikum. Nú er komið það hljóð í hann að hann metur 50%, að mér skilst, líkurnar fyrir því að samningarnir endi með jákvæðum hætti, eins og hann telur nú. Þannig að hljóðið í hæstv. utanrrh. hefur breyst mjög á þessu tímabili.
    Ég ætla ekki að ræða þetta lengur en mér sýnist alveg einsýnt að við getum ekki óskað eftir aðild að Efnahagsbandalaginu. Það þarf að liggja enn þá betur fyrir áður en samningar nást, ef þeir nást, um Evrópskt efnahagssvæði hvað í því felst, áður en ákvörðun verður tekin því ég sé ekki betur en það sé að breytast, jafnvel frá degi til dags, hvernig staðan er í þeim málum.