Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Skýrsla utanrrh. til Alþingis um samningaviðræður um Evrópska efnahagssvæðið er vafalaust eitt af stærstu málum þingsins nú og næstu árin. Ég tel að sú vinna sem hefur verið lögð í samanburð á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins og þær viðræður sem hafa átt sér stað um Evrópskt efnahagssvæði séu hið besta mál og hafi skilað okkur nytsömum upplýsingum og nauðsynlegum hvað varðar þetta stóra og flókna bandalag, Evrópubandalagið, innviði þess og lagagrundvöll. Ég er nokkuð viss um að sú vinna mun koma okkur til góða þegar fram líða stundir og jafnframt mun hún verða grundvöllur þess sem við gerum í framtíðinni. Þetta er jákvætt.
    Hitt er svo önnur saga að ég tel að þeim viðræðum sem nú eiga sér stað um Evrópskt efnahagssvæði sé að ljúka og muni ljúka mjög fljótlega. Hæstv. utanrrh. hefur haldið dauðahaldi í þá skoðun að hann muni geta siglt þessum umræðum um Evrópskt efnahagssvæði í höfn. Hann veit það auðvitað sjálfur að eins og staðan er í dag er það ekki nokkur vegur. Yfirlýsing Svía nú fyrir helgina um þetta tekur af öll tvímæli um það að Svíar muni sækja um aðild. Það er jafnframt samkvæmt þeim heimildum sem ég hef og í viðtölum við sænska stjórnmálamenn og þá sérstaklega samflokksmenn, ef maður getur sagt svo, hæstv. utanrrh., sænska alþýðuflokksmenn. Ég held að það sé nokkuð ljóst að Svíar munu sækja um aðild að Evrópubandalaginu og svo munu Norðmenn gera einnig. Í Finnlandi fara fram mjög alvarlegar umræður um þetta og eftir því sem mér heyrist á Finnum telja þeir að miðað við þá stöðu sem ríki í dag muni þeir einnig sækja um aðild. Við sjáum það líka að fyrir liggja umsóknir frá Austurríki, Kýpur og Möltu að Evrópubandalaginu. Þá hafa komið yfirlýsingar um það frá Póllandi, Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu að þau lönd óski eftir inngöngu í Evrópubandalagið.
Allar þessar upplýsingar ganga í sömu átt. Þessi lönd munu óska eftir aðild að Evrópubandalaginu. Við því getum við ekki gert. Við hljótum því að hugsa okkur um nú hvaða stefnu við eigum að taka. Hún á að vera sú að við óskum eftir viðræðum við Evrópubandalagið og sjáum hversu langt við getum komist í þeim viðræðum. Grundvöllur sá sem hæstv. utanrrh. hefur lagt með vinnu sinni er auðvitað mjög nytsamur og góður fyrir þær viðræður. Þetta liggur alveg ljóst fyrir í dag.
    Í Politiken á laugardaginn er tekið svo djúpt í árinni að þeir segja að Svíþjóð geti orðið aðili 1993 og ég held að það sé rétt að Svíar verði orðnir aðilar 1993. Þá er spurningin hvort við tökum frumkvæðið, snúum okkur strax að því sem skiptir máli fyrir okkur, verðum á undan Svíum og Norðmönnum og óskum eftir sérstökum viðræðum fyrir okkar hönd. Ég held að það eigum við að gera. Ég tel að það sé ekki nokkur vafi að við eigum að óska eftir þeim viðræðum og vera á undan Svíum og Norðmönnum en ekki hlaupa í kjölfarið á þeim því okkar staða verður sterkari ef við erum á undan. Það er alveg ljóst.
    Það er líka svo að norska stjórnin er sprungin á þessu máli, á því að Evrópskt efnahagssvæði bindur löndin nánast með sama hætti í rauninni og um væri að ræða aðild að Evrópubandalaginu. Á þessu hefur norska ríkisstjórnin strandað. Þeir hafa ekki viljað samþykkja það, framsóknarmennirnir í Noregi, að erlend fyrirtæki gætu fjárfest í hlutafélögum og í orkufyrirtækjum. Ýmis önnur atriði koma þar og til og verða þau ekki rakin hér.
    Við stöndum í dag á tímamótum. Við stöndum á þeim tímamótum að við megum ekki loka okkur af með múrum eins og reyndist austantjaldsríkjunum svo erfitt og hefur eyðilagt efnahag þeirra. Við hljótum að verða að opna landið meira fyrir verslun og viðskiptum en er í dag og við verðum að auka okkar tengsl við þau lönd sem er hagstæðast að versla við.
    En það er meira. Við okkur blasa ýmis vandamál sem snúa ekki aðeins að efnahagsmálum. Þau snúa að menningarmálum og menntunarmálum. Ég hef ekki síður áhyggjur af þeim þætti. Ef við lítum til þess hve stór hluti yngri kynslóðarinnar sækir menntun til annarra landa hljótum við að hafa áhyggjur af þeirri þróun sem á sér stað nú í Evrópu. Það sem lýtur að frjálsum aðgangi að menntun og starfsþjálfun er eitt það mikilvægasta sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Við höfum haft mjög góðan aðgang að menntastofnunum í Evrópubandalagslöndunum á undanförnum áratugum og auðvitað í EFTA - löndunum líka. En nú er hætta á því að þessar leiðir geti lokast nema við greiðum mjög háar upphæðir fyrir þá menntun sem við sækjum til þessara landa. Menningarlega stöndum við í mjög nánum tengslum við mörg þessara landa og sú menntun sem margir hafa aflað sér í þeim hefur orðið grundvöllur framfara á Íslandi. Þess vegna hljótum við að leggja áherslu á það að við höfum áfram frjálsan aðgang að menntun og menntastofnunum á þessum svæðum. Jafnframt hljótum við að líta á það að í Evrópubandalaginu er gagnkvæm viðurkenning á prófskírteinum á dagskrá. Það er auðvitað svo að vel menntað fólk hefur áhuga á því í dag að leita sér að vinnu eftir því sem tækifæri gefast í mismunandi starfsgreinum sem margar hverjar eru ekki til staðar á Íslandi. Það fólk mun auðvitað leita eftir þeim starfsgreinum í öðrum löndum, sem er mjög eðlilegt. En jafnframt er það svo að margt af þessu fólki hefur komið síðar til landsins og veitt þá mjög hagnýtri þekkingu til okkar sem hér erum í landinu. Ég tel að þessi atriði hljóti að vega mjög þungt í okkar viðræðum við Evrópubandalagið.
    Ég held einnig, og tel reyndar alveg ljóst, að þróunin næstu árin muni skipta sköpum um það hvort við munum taka skref fram á við eða hvort við munum stíga aftur á bak. Ef við drögum okkur til baka og einangrum okkur frá Evrópubandalagslöndunum og Evrópulöndum eins og er hætta á, og sérstaklega er ástæða til að óttast að sú stefna geti náð yfirhöndinni þegar maður hlustar á vissa talsmenn Alþb., Kvennalistans og Framsfl. Ég held nefnilega að það sé svo að ef við bregðumst ekki hart við og hefjum þegar í stað

viðræður við Evrópubandalagið, þá munum við sitja eftir og það mun hafa alvarlegar afleiðingar hér á Íslandi.
    Ég vil líka minnast á eitt, vegna þess að það hefur ekki verið mikið rætt um það hér í Alþingi, það er Byggðasjóður Evrópubandalagsins sem er upp á tugi milljarða. Þessi sjóður er m.a. notaður til þess að efla fyrirtæki í sjávarútvegi sem eru í samkeppni við íslensk fyrirtæki og einnig til að efla fyrirtæki í landbúnaði sem geta verið í samkeppni við íslensk fyrirtæki í framtíðinni. Slíkir sjóðir verða til staðar í framtíðinni í Evrópubandalaginu og við getum ekkert breytt því.
    Þau byggðasjónarmið sem ríkja í bandalaginu munu valda því að samkeppnisatvinnuvegir á Íslandi munu eiga í stórfelldum erfiðleikum í framtíðinni ef við spyrnum ekki strax við fótum. Við sjáum þegar hvert stefnir. Það hefur verið bent á það að fyrirtæki í sjávarútvegsbæjum, bæði í Skotlandi og í Þýskalandi, hafa verið styrkt úr þessum sjóðum. Hér eru uppi raddir um það að þetta hafi þegar áhrif á sölu frá Íslandi. Við getum ekki litið fram hjá þessum staðreyndum og við hljótum að leggja áherslu á það að við náum jafnstöðu hvað þetta mál áhrærir og keppum að því að okkar fyrirtæki standi ekkert síður að vígi en þau fyrirtæki sem fá þessa gríðarlega miklu styrki sem veittir eru til byggðaþróunar í Evrópubandalagslöndunum.
    Eitt dæmi um þetta til viðbótar er það að sum íslensk fyrirtæki hafa þegar leitað út fyrir landsteinana með framleiðslu á varningi sem áður var framleiddur hér. Ég nefni sem dæmi að það eru til fyrirtæki sem leitað hafa til Skotlands með vinnslu á ullarafurðum vegna þess að þar fá þau allt aðra og betri fyrirgreiðslu á öllum sviðum. Og svo mun einnig vera á fleiri sviðum.
    Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það sem er á ferðinni innan Evrópubandalagsins er ekki nein smásmíði. Það er ekki eins og við séum að tala um eitthvert land sem sé svipað á stærð og Ísland. Ég tel einnig að sú stefna bandalagsins að jafna lífskjör muni koma þannig fram að lífskjör hér muni jafnvel versna ef við bregðumst ekki þess fljótar við. Það er svo að á jaðarsvæðunum, bæði í suðri og norðri, er viðurkennd sú staðreynd innan Evrópubandalagsins að það eigi að styrkja þar atvinnuvegina og lífskjörin. Við stöndum frammi fyrir því að við eigum að keppa við þessi svæði og við munum aldrei geta keppt við Evrópubandalagið á þeim grundvelli sem við gerum í dag.
    Þeir menn eru til sem telja að við getum auðvitað bara hætt samskiptum við Evrópubandalagið og snúið öllum okkar viðskiptum til Bandaríkjanna eða til Japans. Það eru út af fyrir sig sjónarmið og út af fyrir sig getur það verið rétt. En það hlýtur að vera okkar aðalstefna að fá sem mest fyrir okkar vörur. Í dag er stærsti hlutinn, t.d. sjávarafurðir, þegar fluttur út til landa Evrópubandalagsins á bestu kjörum sem við fáum. Þetta hljótum við að líta á og svo hitt að við teljum okkur, a.m.k. enn, vera Evrópumenn og menning Evrópu og okkar eru nátengdar.

    Sem dæmi um hvernig getur farið fyrir okkur er í rauninni hægt að benda á viðskipti okkar við Sovétríkin. Fyrir ári lá það fyrir að Sovétmenn voru að leggja út á þann veg að þeir ætluðu að opna meira fyrir frjáls viðskipti, þeir ætla að breyta sínum viðskiptaháttum. Það þýddi jafnframt að sala okkar til Sovétríkjanna gat verið í hættu og var mjög líklegt að væri í hættu. Á þetta minntist ég raunar í umræðu um olíuviðskipti landanna þá.
    Nú hefur það komið á daginn að þetta var rétt. Við stöndum auðvitað á hverjum tíma frammi fyrir því að við verðum að horfa á þær breytingar sem gerast í kringum okkur, hvort sem þær eru í Sovétríkjunum eða Evrópubandalaginu eða í Bandaríkjunum. Og við verðum að vera fljótir að tileinka okkur þær breytingar sem eiga sér stað og þá möguleika sem það býður upp á. Við getum ekki lokað okkur inni og haldið að það geti gengið bara sjálfkrafa þannig að við þurfum ekkert að hugsa meira um það, eins og hefur verið með viðskiptin við Sovétríkin. Við hljótum að hugsa þessi mál á hverjum tíma og bregðast við á hverjum tíma miðað við hvað er að gerast. Og núna getum við ekki gengið fram hjá því að Evrópubandalagið er okkur sá mikilvægasti viðskiptaaðili sem til er. Og Evrópubandalagið hefur meiri áhrif á okkar mál en nokkurt annað samfélag þjóða. Við getum ekki falið okkur fyrir þessum staðreyndum, forðast þessar staðreyndir og hlaupið frá þeim. Við getum auðvitað lokað landinu og staðið þá uppi eins og staðan var hér um aldamótin, þegar efnahagsafkoma fólks var afar bágborin. En við getum líka fylgt þeirri þróun sem er að gerast og við getum líka verið fljótir til og tileinkað okkur það nýjasta í viðskiptum landinu til góða.
    Þess vegna hljótum við að hætta strax hugmyndum um frekari viðræður um Evrópskt efnahagssvæði. Þær eru alveg tilgangslausar. Það liggur fyrir að þær þjóðir sem standa okkur næst og eru með okkur í EFTA eru búnar að gefa það upp á bátinn. Allir þeir stjórnmálamenn sem ég hef talað við á Norðurlöndum eru sammála þessu. Og þeir segja: Það er tímaspursmál hvenær við göngum í Evrópubandalagið. Fram hjá þessum staðreyndum verður ekki gengið. Þess vegna verðum við að snúa blaðinu þegar í stað við og hefja viðræður við Evrópubandalagið og sjá hvað við getum fengið þar, hvað við getum samið um. E.t.v. verður niðurstaðan sú að við göngum í Evrópubandalagið. En það verður auðvitað að koma í ljós. Ég held að í dag eigum við hins vegar að láta reyna á það hvað við getum náð hagstæðum samningum, og tel að við getum það. Ég tel að það sé skilningur fyrir því innan Evrópubandalagsins að svo lítið ríki sem Ísland, með þá sérstöðu sem við höfum, geti náð þeim samningum sem til þarf. Og ég skora hér á hæstv. utanrrh. að hefja nú þegar viðræður við Evrópubandalagið um þetta og hætta að hugsa um Evrópskt efnahagssvæði með þeim hætti sem hann hefur gert. Ég veit að hann er búinn að vinna gott starf þar og leggja góðan grundvöll hvað varðar upplýsingaöflun um löggjöf og ýmisleg grundvallaratriði

sem eru í Evrópubandalaginu þannig að við stöndum vel að vígi til að ganga til slíkra viðræðna. Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða. Ég er sannfærður um að það er það skynsamlegasta.
    Hitt er annað mál að það má vel vera að ríkisstjórn Íslands í dag sé ekki sammála um þetta og hæstv. utanrrh. sé fangi ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Ég hef sterkan grun um að það sé það sem strandi á í þessu máli. Það sé ekki það að utanrrh. sé ekki búinn að gera sér grein fyrir þessu og sé tilbúinn að hefja þegar í stað viðræður við Evrópubandalagið, heldur sé staðan sú að bæði Framsfl. og hluti Alþb. séu svo afturhaldssamir og þröngsýnir að hann geti ekki hafið slíkar viðræður. Ég vona að utanrrh. láti ekki þessi afturhaldsöfl halda aftur af sér og hefji bara þegar í stað sókn með Sjálfstfl. í þessum málum.