Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með þær málefnalegu umræður sem hér hafa farið fram.
Af einhverjum ástæðum er það svo að það kveður mjög við annan tón en stundum áður þegar við höfum rætt þetta mál á hinu háa Alþingi. Hér hafa menn vissulega skipst á skoðunum. Það eru vissulega lagðar ólíkar áherslur en það sem sameinar okkur í sjónarmiðum í mati á þessu máli er sýnilega og heyrilega mun meira og vegur þyngra en það sem sundrar. Ég ætla mér ekki þá dul að draga saman alla þræði þessarar umræðu, en ég held að gagnlegt sé að hnykkja ögn á þeim spurningum sem hér hafa verið vaktar og svara nokkrum þeirra sem varða kjarna málsins.
    Ef ég fylgi röð ræðumanna eru þessar spurningar kannski helst þessar:
    Í fyrsta lagi: Eigum við sérstaklega að óska eftir formlegum tvíhliða samningaviðræðum, sem við höfum reyndar þegar gert?
    Þegar við lítum til baka er það rétt að við höfum tapað tíma og það hefði verið skynsamlegra að gera það strax eins og mér skildist að væri sjónarmið hv. 1. þm. Suðurl., formanns Sjálfstfl., og hv. 5. þm. Reykv. (Gripið fram í.) Út frá rökræðunni um fríverslun með fisk sem margir ræðumanna hafa vikið að er það rétt að talsmenn ríkisstjórnarinnar, og sá sem hér stendur, hafi boðað það í miklum ákafa og bjartsýni að það væri hlutur sem væri líklegur til að nást og væri meginatriði í málsvörn Íslands. Að því er varðar spurninguna um aðild núna, eins og sumir segja, síðar, eins og aðrir boða, er þetta kannski tiltölulega lítil spurning. Út frá spurningu hv. 1. þm. Suðurl., formanns Sjálfstfl., sem hugsaði upphátt um þetta: Er Evrópska efnahagssvæðið og aðild Íslands að því ekki nánast eins og aukaaðild að Evrópubandalaginu? Hver er raunverulega munurinn á þeirri leið og fullri aðild?
    Það var spurt: Stjórnun Evrópska efnahagssvæðisins, tillögur um það sem Evrópubandalagið nú boðar, skiptir það meginmáli hverjar þær verða, sérstaklega út frá spurningunni um: verður Evrópska efnahagssvæðið bráðabirgðaráðstöfun?
    Spurningin hefur verið vakin upp af mörgum ræðumönnum: Hvað með fyrirvara Íslands? Fyrirvararnir voru fáir en þeir voru skýrir. Þeim var rækilega lýst, þeir hafa verið rækilega tíundaðir. Er nú fallið frá þeim? Og eru þá ekki forsendurnar brostnar fyrir hinni pólitísku samstöðu sem ríkt hefur í stórum dráttum? Hún hefur nú ekki verið fullkomin um þetta mál. Er það svo að þær hugmyndir sem verið hafa uppi um annars vegar ákvörðunaraðild EFTA-ríkjanna að nýjum ákvörðunum sem varða framtíð hins Evrópska efnahagssvæðis, eftirlit og dómstólaskipan, þýði það að hin lögfræðilega niðurstaða væri sú að það þyrfti að breyta stjórnarskrá Íslands, sem væri auðvitað mjög þýðingarmikil spurning?
    Eru það staðreyndir að flótti sé brostinn í liðið í EFTA og það liggi fyrir að ríkisstjórnir EFTA-landanna hafi allar skipt um stefnu og þær séu nú fallnar frá því að leita samningsniðurstöðu og boði í staðinn aðild að Evrópubandalaginu? Hvað gerist? Hver verður hlutur Íslands ef svo fer, fyrr en síðar, að einhver af þessum löndum sækja um og semja um aðild? Hvaða áhrif hefur það á afstöðu Íslands, stöðu Íslands?
    Er það svo að raunverulega sé ágreiningur uppi innan Sjálfstfl. að því er varðar spurninguna um aðild? Sumir þingmenn segja: Tíminn er núna. Spennan er núna. Það er spennandi að gera þetta núna. Formaður Sjálfstfl. tekur ekki undir það. Talsmaður flokksins í utanríkismálum segir: Megi það aldrei heyrast með íslenskri rödd. Þeir sem deila á ríkisstjórnina vegna þess að það séu skiptar skoðanir standa frammi fyrir því að kannski eru mjög skiptar skoðanir um þetta í Sjálfstfl. Ekki þætti mér það neitt ólíklegt vegna þess að Sjálfstfl. er bandalag ólíkra skoðanahópa.
    Þetta eru margar spurningar og ég ætla mér ekki þá dul að svara þeim öllum hér. Ég endurtek ánægju mína með þessar umræður. Ég tel þær hafa haft verulegt gildi, tel þær hafa verið málefnalegar, tel þær hafa verið gagnlegar og Alþingi til sóma og öllum sem að þeim hafa komið til gagns, jafnvel nokkurrar ánægju.
    Sumt af þessu er þýðingarmeira en annað og ég ætla að stikla aðeins á stóru.
    Í fyrsta lagi: Er þessi spurning um tvíhliða viðræður eða EFTA-sporið við EB spurning sem er mjög brennandi? Í mínum huga er það ekki svo. Ég segi: Ef það fer mót mínum vonum og mót mínu mati á þann veg að þessar viðræður mistakist er augljóst mál, lífið heldur áfram, að þá leitum við eftir formlegum tvíhliða samningaviðræðum, höfum reyndar þegar leitað eftir þeim. En ástæðan fyrir því að ég tel íslenskum hagsmunum betur borgið í viðræðum með EFTA - löndunum, kom mjög rækilega fram í mínu máli. Hún lýtur að spurningunni um jafnvægið í samningunum og því að meðan þessar kröfur sem Evrópubandalagið gerir eru bornar fram við EFTA í heild, er það þetta sameignarfélag sem mun deila fórnarkostnaðinum. Ef við værum eingöngu í tvíhliða viðræðum væru kröfurnar samkvæmt forsendum hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu bornar fram gegn okkur einum og við yrðum að greiða þann fórnarkostnað. Og það er vegna þess sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson segir: Megi það aldrei heyrast úr íslenskum barka, megi það aldrei hljóma með íslenskri rödd, að við ætlum nokkurn tímann að greiða þann fórnarkostnað. --- Þótt aðrir hv. þm. í hans sama þingflokki segi: Núna, strax, þeim mun fyrr, þeim mun betra. Er hv. þm. að segja að þetta séu ekki íslenskar raddir? (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið samið við EFTA en það er alveg ljóst, og þetta er ekkert leyndarmál, og þetta hefur verið yfirvegað mat okkar fyrir Íslands hönd, að meginástæðan fyrir því að okkur væri fremur í hag að fylgja samstöðu EFTA-landanna á grundvelli kröfunnar um fríverslun með fiskafurðir er einmitt þessi. Þetta er ekkert nýtt. Áður fyrr var ekki sagt mikið um þetta

mjög hátt, en oft hefur þetta verið rætt t.d. í utanrmn.
    Ég legg hins vegar áherslu á þetta: Þetta er auðvitað ekki ágreiningur í okkar röðum. Tvíhliða viðræður; hefðum við átt að byrja á þeim fyrr? Er skynsamlegt að byrja á þeim núna? Vegna þess að ég hef engan heyrt segja: Látum þessar viðræður lönd og leið. Það er enginn ágreiningur um það að mistakist þetta af einhverjum ástæðum stöndum við frammi fyrir spurningunni um tvíhliða formlegar samningaviðræður.
    En ég endurtek: Við höfum verið í tvíhliða viðræðum, ekki bara til þess að kynna sérstöðu Íslands við leiðtoga Evrópubandalagsins. Við höfum óskað eftir tvíhliða viðræðum við framkvæmdastjórnina sérstaklega og þá sem fara með fiskveiðimál, og það gerðist að forseti Frakklands kom hingað í opinbera heimsókn, sannfærðist svo mjög um sérstöðu Íslands að hann bauð sína milligöngu um að koma á sérstökum viðræðum við Evrópubandalagið um þessa sérstöðu Íslands og þá fylgdum við því að sjálfsögðu eftir með því að forsrh. skrifaði forseta Frakklands bréf og óskaði eftir því, þakkaði að sjálfsögðu mikillega fyrir þann mikla skilning sem lýst hefði verið á sérstöðu Íslands, og óskaði eftir að hann fylgdi því eftir innan Evrópubandalagsins með því að óska eftir, fyrir milligöngu Frakka, að ráðherraráðið óskaði eftir samningsumboði frá framkvæmdastjórninni til þess að hefja samninga við Ísland sérstaklega um tollfrjálsan aðgang að fiskmörkuðum án þess að fylgdi krafan um fiskveiðiréttindi. Það er nokkuð langt síðan þetta bréf var sent. Enn hefur ekki borist svar, en á það hefur verið látið reyna vegna þess að ef slík boð berast fylgjum við því að sjálfsögðu eftir.
    Margir hv. ræðumenn hafa lagt út af því að það hljóti að vera einhver undarleg þversögn í því að sá sem hér stendur hafi, og af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi því verið haldið fram að það hafi verið meiri háttar sigur að fá samþykkta kröfuna um fríverslun með fisk innan EFTA, að fá hana framkvæmda frá og með miðju síðasta ári, og að það hafi styrkt samningsstöðu Íslands að EFTA-ríkin tóku þá kröfu upp sem sameiginlega kröfu sína þannig að hún var ekki lengur sérmál Íslands. Af þessu hafa menn ályktað að fyrir ári síðan, um það leyti sem umræður fóru hér fram í lok nóvember, hafi menn sagt og lýst yfir mikilli bjartsýni á það að þessi krafa um fríverslun með fisk næði fram að ganga. Þess vegna láta menn í ljós undrun sína yfir því nú þegar það liggur fyrir að aðalsamningamaður EB hefur sagt: Þess er enginn kostur að EB geti fallið frá sameiginlegri fiskveiðistefnu bandalagsins. --- Þá láta menn í ljós undrun: Eru ekki forsendurnar brostnar?
    Að vísu er einn hv. þm. sem hefur sagt: Það er engin sameiginleg fiskveiðistefna til í Evrópubandalaginu og hefur aldrei verið til. (Gripið fram í.) Nær ekki til okkar. Það var orðið.
    Til þess að sýna nú hver afstaða okkar var, hvaða vonir við bundum við að krafan um fríverslun með fisk næði fram að ganga gagnvart Evrópubandalaginu, í þeim skilningi að Evrópubandalagið samþykkti

hana svo gjörsamlega að þeir féllu frá ríkisstyrkjakerfi sínu, leyfi ég mér að vitna hér í viðtal við utanrrh., þann sem hér stendur, sem var tekið þremur dögum eftir að við lukum okkar umræðum í lok nóvember á sl. hausti. Hér er spurt, með leyfi forseta:
    ,,Menn ræða hvort það sé einhver möguleiki að EFTA-ríkin nái fram kröfu sinni um fríverslun með fisk í samningaviðræðum við EB. Hver er þín skoðun á þessu?``
    Og áfram er spurt: ,,Menn hafa margir hverjir lýst yfir vantrú á samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs gagnvart sjávarútvegi EB vegna þess hversu gífurlegra styrkja hann nýtur?``
    Svarið hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Menn geta auðvitað lýst því sem sinni skoðun að þeir séu svartsýnir á að EFTA-ríkin nái fram kröfu sinni um fríverslun með fisk. Það á e.t.v. rétt á sér, einkum með tilliti til sameiginlegrar fiskimálastefnu Evrópubandalagsins sem felst m.a. í opinberum styrkjum bandalagsins og stuðningi þess við sjávarútveg í aðildarlöndunum. Þegar því samkomulagi var náð innan EFTA á Óslóarfundinum fyrr á þessu ári að fríverslun með fisk skuli taka gildi innan samtakanna á miðju næsta ári var jafnframt skrifað undir skuldbindingu þess efnis að afnema beri ríkisstyrki til sjávarútvegs innan EFTA. Það er ekki líklegt að Evrópubandalagið leggi af sína sameiginlegu fiskimálastefnu`` --- Ég endurtek: ,,Það er ekki líklegt að Evrópubandalagið leggi af sína sameiginlegu fiskimálastefnu enda eru menn ekki að fara fram á það. Það sem við förum fram á er tollfrjáls og hindrunarlaus aðgangur að mörkuðum bandalagsins með okkar sjávarafurðir.``
    Bæði í umræðum á Alþingi, í umræðum í utanrmn., á opinberum vettvangi, í viðtölum, greinum, hefur þetta komið skýrt fram af okkar hálfu: Það styrkti mjög samningsstöðu okkar að fá fram fríverslun með fisk innan EFTA, að fá hana gerða að sameiginlegri samningsstöðu EFTA-landanna. Það hefur hins vegar allan tímann komið skýrt fram að við töldum ekki raunsætt að gera ráð fyrir að Evrópubandalagið félli í einu vetfangi frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sinni sem er múruð í Rómarsamningnum og er verndarstefna, styrkja- og ríkisstuðningsstefna, þótt ekki hafi verið útilokað í samningum vegna þess að það er þegar boðað innan EB að endurskoðun á henni á að fara fram 1992 og stjórnmálaleiðtogar í Evrópubandalaginu segja: Við stefnum að því á áratugnum að draga úr þessum styrkjum. --- Við höfum aldrei gert ráð fyrir því að Evrópubandalagið félli frá sameiginlegri fiskveiðistjórn. Það breytir hins vegar engu um það að það er rétt sem við höfum sagt frá upphafi: Þetta styrkti stöðu okkar stórlega, það hefur reynst gera það, vegna þess að frá og með þeirri stundu sem EB segir: Við getum að vísu ekki gengið svo langt, þá er enn sú staða uppi á borðinu og enn sá möguleiki í samningum og það er það sem verið er að ræða í alvöru. Annað mál er sérstaða Íslendinga um tollfrjálsan aðgang. En það kostar eitthvað.
    Þriðja álitamálið sem skiptir verulegu máli er þetta, af því við erum að ræða um aðild að Evrópubandalaginu nú eða hugsanlega síðar: Ef þessir samningar takast um aðild EFTA-ríkjanna að innri markaðnum og samstarfsverkefnin, eru EFTA-ríkin þá orðin aukaaðilar að EB og er þá eiginlega orðinn sáralítill munur á því að vera fullgildur meðlimur eða að vera virkur aðili að Evrópsku efnahagssvæði? Mér skildist á máli leiðtoga Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., að hann teldi þetta nú bitamun en ekki fjár. Ég held, við nánari umhugsun, að þá sé sá munur mjög verulegur. Fullgildur aðili undirskrifar Rómarsamninginn in toto. Fullgildur aðili semur ekki um neinar undanþágur. Hann semur að sjálfsögðu um frávik og aðlögunartíma, það hafa lönd eins og Danmörk og Bretland og Írland og Spánn og Portúgal gert á fimm til átta ára bili, en að lokum undirskrifar hann stjórnarskrá EB, Rómarsáttmálann, þar á meðal um það mál sem við köllum sérstöðu okkar, forræði yfir auðlindunum. Fullgildur aðili semur ekki um frávik frá því nema tímabundið, hugsanlega. Það á sumsé við um sérstöðu Íslands að því er varðar sjávarútveginn. Ef við værum aðilar, sæktum um og fengjum aðild, værum við að uppáskrifa það að forræðið yfir fiskveiðilögsögunni væri ekki lengur í okkar höndum, umfram 12 mílurnar. Það væri í höndum Brussel. Fiskveiðilögsaga okkar væri þar með orðin partur af fiskveiðilögsögu Evrópubandalagsins, hún lyti reglum þess samkvæmt Rómarsáttmála og samkvæmt ákvæðum hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu. Við réðum því ekki. Það er hins vegar alveg rétt sem fram hefur komið í ágætu riti Gunnars Helga Kristinssonar, einna skýrast, að það væri ekki þar með sagt að Íslendingar mundu framselja allar sínar fiskveiðar í hendur þessara aðila vegna þess að reglurnar kveða á um það að það er kvótaúthlutun og hún fer eftir veiðireynslu og hún fer eftir mati á gildi sjávarútvegs fyrir viðkomandi svæði o.s.frv., en það breytir ekki þessari kjarnaspurningu, að forræðið væri ekki í okkar höndum. Og sama máli gegndi þá um aðra þá þætti sem varða eignarrétt, fjárfestingarrétt o.s.frv. Það er verulegur munur á því að semja sig inn í evrópska innri markaðinn eða að taka á sig að fullu og öllu leyti skyldur og kvaðir aðildar.
    Það er svo spurning um mat á hagsmunum og sérstöðu hvort menn telja að þeir séu reiðubúnir til þess. Ég tók mjög vel eftir því að hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., sagði og ítrekaði skoðun sem hann hefur áður hreyft.
Það er kominn tími til að íhuga frambúðartengsl okkar við Evrópubandalagið innan fimm ára. Ég er alveg sammála því. Ég tók eftir því þegar hv. 1. þm. Suðurl. flutti athyglisverða ræðu suður í Leiru á fundi Sambands fiskvinnslustöðva. Ég tók eftir því að hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., boðaði ekki þar aðild að Evrópubandalaginu eins og hér hefur verið boðað í kvöld af tveimur hv. þm. Sjálfstfl. Hann sagði: ,,Það er löngu tímabært að taka þá spurningu á dagskrá þjóðmálaumræðunnar.`` Það er rétt, það er tímabært. Auðvitað eigum við að ræða málið. En það er allt annað en að segja: Nú er lag, við skulum byrja strax. Við skulum leggja fram umsóknina strax.
    Ég tók eftir því að hv. 1. þm. Suðurl. sagði: ,,E.t.v.

er það svo að tillögur um stjórnun Evrópska efnahagssvæðisins skipta ekki þvílíku meginmáli vegna þess að allt bendir til að þetta verði bráðabirgðafyrirkomulag.`` Í máli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, sem flutti hér athyglisverða ræðu, sem ég þakka henni fyrir, var það hins vegar, ef ég skildi rétt, meginmál.
    Því hefur verið haldið fram að það séu ólíkar áherslur meðal stjórnarflokkanna á ýmsa þætti þessa máls. Ég tek mjög vel eftir því að þær eru mjög ólíkar hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar, afar ólíkar. Og það er ekkert athugavert við það. Þetta er ekki mál sem skipar mönnum í flokka þannig að það kunni ekki að vera álitamál. Við höfum öll gott af því að ræða þessi álitamál frekar en að skjóta hvert á annað frá skotgröfum flokka sem binda málið einhverjum innanlandshagsmunum.
    Í tilefni af ræðum fulltrúa Kvennalistans og annars málsvara Alþb., hv. 2. þm. Austurl., sem lutu að fyrirvörunum og hvort þeir fyrirvarar sem t.d. hæstv. forsrh. lýsti væru ekki bara fallnir eða stæði til að kippa þeim út af borðinu og hvort þá væru ekki brostnar hinar pólitísku forsendur fyrir framhaldi samninganna, vil ég segja þetta: Í fyrsta lagi spyrja menn: Hverjir voru þessir fyrirvarar? Ég vil nú eindregið biðja menn um að láta ekki eins og þeir þekki ekki þessa fyrirvara. Þessir fyrirvarar hafa verið tíundaðir oft og iðulega og rækilega í gögnum sem eru í höndum allra þingflokka. Þeir voru t.d. tíundaðir í öllum höfuðatriðum í lok könnunarviðræðnanna, þeir hafa verið tíundaðir í gögnum af sérstöku tilefni a.m.k. tvisvar síðan. Þeir eru að sjálfsögðu í bláskinnu. Ég segi þetta til þess að leggja áherslu á það að hér er ekki um að ræða nein leynigögn. Þessum upplýsingum hefur ekki verið haldið frá hv. þingmönnum eða þingflokkum. ( HG: Aldrei skráðir í samfellu.) Þeir hafa verið skráðir, kynntir, um þá fjallað og allt hvað eina, þannig að ég skil ekki þessar athugasemdir. Þeir vörðuðu í fyrsta lagi sjávarútvegsmálið. Við settum fyrirvara um rétt erlendra aðila til fjárfestingar og eignarréttar í fyrirtækjum sem nýttu auðlindir okkar, bæði að því er varðar sjávarútveg, aðallega fiskveiðar, og orkugeirann. Þetta varðar a.m.k. tvö ef ekki þrjú samningssviðin, vörusviðið, fjárfestingar - og þjónustusviðið og atvinnu- og búseturéttarsviðið. Við settum fyrirvara á fjárfestingar eða fjármagns - og þjónustusviðið að því er varðar þætti eins og aðlögunartíma fyrir banka, verðbréfaviðskipti og tryggingar, að því er varðar fjölmiðlun fyrir þýðingarskyldu, að því er varðar fjarskipti fyrir gagnaflutningskerfi. Að því er varðar starfshóp III, um atvinnu- og búseturéttindi, settum við mjög vel skilgreinda varnaglaathugasemd, byggða á samningum okkar um norræna vinnumarkaðinn. Að því er varðar ýmsa aðra þætti, undir starfshópi III sérstaklega, þá settum við ýmsa fyrirvara varðandi starfsréttindi og annað þess háttar. Að því er varðar samningshóp IV þá lýstum við því yfir að við værum ekki reiðubúin að skuldbinda okkur til fullrar þátttöku í öllum samstarfsverkefnunum. Að því er varðar félagarétt þá lýstum við sérstöðu okkar að því er varðar reikningsskil vegna

verðbólgu, sem eru sérstök íslensk vísindi. Og að því er varðar hagskýrslugerð þá lýstum við fyrirvörum vegna fæðar okkar að því er varðar bírókrata til þessað geta fullnægt samræmdum kröfum um statistikk.
    Ef nú er spurt: Er nú fallið frá öllum fyrirvörum? þá er svarið ósköp einfaldlega þetta: EFTA - ríkin hafa lýst því yfir að þau vilji búa sig undir það með fullum skilyrðum að fækka undanþágum gegn því að fá viðunandi lausn á kröfunni um eðlileg áhrif á stjórn Evrópska efnahagssvæðisins. Ég hef sagt: Í fyrsta lagi er þetta minna mál fyrir okkur en flestar aðrar aðildarþjóðirnar af þeirri einföldu ástæðu að fyrirvarafjöldinn hjá hinum var svo miklu, miklu meiri. Í annan stað, að því er okkur varðar, þá er það nú einu sinni svo að stærsti fyrirvarinn var um sjávarútveg. Ef Evrópubandalagið svarar: Við getum ekki fallið frá sameiginlegri fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins í sjávarútvegsmálum, þá felur það í sér að rök þeirra fyrir rétti til fjárfestingar í þeim geira eru um leið fallin. Vegna þess að fyrir því eru ekki rök, þau eru fram borin vegna samræmdra samkeppnisskilyrða, fyrir því eru ekki rök að fyrirtæki sem njóta ríkisstyrkja, stuðnings og verndar, eigi rétt á vörusviði sem ekki fæst samið um sem fríverslunarsvið. Að því er varðar orkusektorinn þá hefur könnun leitt í ljós að það er ekkert í lögum eða reglum Evrópubandalagsins sem kveður á um það að núverandi fyrirkomulag, samkvæmt íslenskum lögum sem eru um það að orkugeirinn allur er í höndum opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, það stenst fyllilega, þarf engan fyrirvara, sem við settum þó af öryggisástæðum.
    Að því er varðar hitt stóra málið, sem er atvinnu- og búseturétturinn, þar sem við settum inn norræna fyrirvara, þá eru álitamál sem enn er ekki búið að útkljá. Það er raunverulega engin andstaða gegn þessum fyrivara, hann er talinn eðlilegur. En það er jafnframt talið eðlilegt að ekki megi beita honum einhliða heldur þurfi viðræður við gagnaðila til þess að honum verði framfylgt.
    Þetta eru auðvitað hinir stóru fyrirvarar. Hitt, um þýðingarskyldu og gagnaflutningakerfið og ýmislegt að því er varðar starfsréttindi tannlækna eða verðbréfaviðskipti, tryggingar og banka, eru allt saman þættir sem raunverulega er í eðli sínu eðlilega fyrir komið í tímabundnum aðlögunartíma, sem og annað sem varðar staðla. Þessi listi sem ég nú nefni er ekki tæmandi, en hann er nægilega ljós til þess að gera mönnum grein fyrir því að ef spurt er: Eru Íslendingar að falla frá öllum fyrirvörunum sem voru pólitískar forsendur fyrir þessum samningum? þá er það ekki rétt, nei, það er ekki svo. Í staðinn fyrir sumt af þessum fyrirvörum getum við gert breytingar á íslenskri löggjöf til þess að tryggja að sú stefna sem við viljum framfylgja gildi, en hún þýði þó ekki mismun milli íslenskra og erlendra ríkisborgara. Það er það sem Norðmenn hefðu átt að skilja áður en ríkisstjórnin féll. Í annan stað er hægt að leysa sumt af þessum málum, af því að þau eru smávægileg í eðli sínu, með svokölluðum varnaglagreinum, eða ,,shift-process``, án þess að það feli í sér í raun og veru nokkur frávik

þegar kemur að hinni efnislegu niðurstöðu um stöðu íslenskra stjórnvalda. Um þetta er síðan ekki meira að segja en það að þegar menn standa í samningum, það geta verið samningar um fiskverð, það getur verið samningur um fjármögnun húsnæðismála eða það geta verið viðamiklir alþjóðasamningar, þá verða menn að vita hvað þeir vilja, hvaða niðurstöðu menn vilja fá, hverju menn vilja fórna til og hvað menn telja ábatavænlega og hagkvæma samningsniðurstöðu. Ef hægt er að breyta einhvers staðar formi en halda sömu efnislegum niðurstöðum, þá er litlu hætt, og það er stundum nauðsynlegt til þess að fá fram það sem skiptir meira máli. Það semur enginn sem ekki er reiðubúinn að hlusta á mótaðilann. Og það gerir enginn góðan samning sem er ekki löngu búinn að gera sér grein fyrir því hvað það er sem við ekki viljum slá af, hvað er sett fram í því skyni að það geti verið til samninga. Svo einfalt er nú það.
    Það er af þessum ástæðum sem ég held að við höfum haldið hyggilega á málum. Það er af þessum ástæðum sem ég fullyrði, það er a.m.k. mitt mat, menn getur greint á um það við mig, að í viðleitni okkar til þess að ná fram hinni pólitísku pakkalausn, til þess að ná fram heildarlausninni á þessum þremur vandamálum, munum við ekki fórna neinu því sem máli skiptir og við lýstum í upphafi í von um að hreppa þá niðurstöðu sem allir yrðu sammála um. Um ávinningana af því að ná slíkum samningum er ekki hinn nokkur minnsti vafi að þeir yrðu geysilegir og ekki allir metanlegir til fjár.
    Virðulegi forseti. Ég hlustaði með mikilli athygli á ræðu hv. 3. þm. Reykv. Ragnhildar Helgadóttur og fannst margt athyglisvert í þeirri ræðu. Það var auðheyrt af þessari ræðu að það hefur verið lögð mikil vinna í hana. Þar hafði lærður lögfræðingur um vélt. Þær spurningar sem þar var hreyft voru vissulega þýðingarmiklar. Spurning nr. eitt var þessi: Er það svo, að því er varðar vald Evrópubandalagsins, framkvæmdastjórnar, til þess að gefa út tilskipanir, reglugerðir sem eru tvíþættar, að þær geti haft lagagildi? Og er það svo að Evrópudómstóllinn hljóti að taka mið af þeim því þær ríki umfram lög þjóðríkja? Við það bætist síðan að úrskurðir Evrópudómstólsins hafa líka bein réttaráhrif. Er þetta þá ekki þess eðlis að það kalli að réttu lagi á breytingar á íslensku stjórnarskránni? Þetta var í raun og veru spurningin.
    Um þetta hefur verið fjallað af miklum lærdómi. Að þessu hafa margir lögfræðingar komið en það er segin saga að þegar þú kallar saman lærða lögfræðinga, ef þeir eru sjö þá færð þú sjö skoðanir. Niðurstaðan af umfjöllun lagasérfræðinga EB og lagasérfræðinga EFTA - ríkjanna sex eða sjö er sú og stendur hér: ,,Evrópubandalaginu hefur jafnframt verið tjáð að viðkomandi ríki`` --- þ.e. EFTA - ríki --- ,,hafi ekki hug á að breyta stjórnarskrám sínum vegna þessa. Nýlegir dómar hæstaréttar hér á landi hafa undirstrikað að leitast skuli við að skýra lög í samræmi við þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að.`` Þessi orð eru fá en á bak við þau eru nokkur hundruð blaðsíður af lagaskýringartexta sem ég vona að hv. þm. hafi kynnt

sér og efa reyndar ekki vegna þess að það er kveikjan að þessari umræðu. Þetta er niðurstaðan, að við þurfum ekki að breyta stjórnarskrá Íslands. Álitamál? Já, vegna þess að sumir lögfræðingar eru annarrar skoðunar. Þetta er hins vegar ríkjandi skoðun þeirra sem til hafa verið kvaddir af hálfu EFTA - ríkjanna í heild. Þetta er sú niðurstaða sem lagadeild EFTA - ríkjanna hefur komist að niðurstöðu um.
    Það eru greinilega skiptar skoðanir meðal talsmanna Sjálfstfl. um hversu mikilvægt er að ná samkomulagi um eðlileg áhrif EFTA - ríkjanna á ákvarðanatöku, enda spurði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir: ,,... eða hvernig ætla menn sér það af hálfu EFTA?`` Hv. þm. sagði: Það vita allir menn að Evrópubandalagið, með tilvísan til þingsins, mun aldrei fallast á íhlutunarrétt EFTA, sem ekki er aðili, um innri ákvörðunarferil EB. Það er vitað alveg frá því að könnunarviðræðurnar byrjuðu, enginn ágreiningur um það. Og engar kröfur af hálfu EFTA - ríkjanna um það. Það er engin krafa uppi af hálfu EFTA - ríkjanna um íhlutunarrétt um innri ákvörðunarferil Evrópubandalagsins. Hefur hvergi verið sett fram og hefur verið skýrt hundrað sinnum, ad nauseam, að svo er ekki. Það er hins vegar alveg laukrétt hjá hv. þm. að til eru þeir menn á Evrópubandalagsþinginu sem hafa ekki skilið þetta enn þá eða ekki látist skilja það. Það er hins vegar skylduverk framkvæmdastjórnar að upplýsa þessa menn, það er ekki okkar.
    Það sem EFTA er að fara fram á, og hefur sett fram mjög margar tillögur um, er það að úr því að hér er verið að tala um tveggja stoða lausn þá verði það tryggt að báðir aðilar hafi jafnan rétt til frumkvæðis. Hvorugur aðilinn þurfi að standa frammi fyrir orðnum hlut. Og að undirbúningi ákvörðunar verði hagað með þeim hætti að fulls samráðs verði gætt. Hvernig? spurði hv. þm. Með því að EFTA - ríkin hafi aðild að þeim sérfræðinganefndum sem kvaddar eru til á jaðri Evrópubandalagsins til þess að undirbúa ákvarðanir. Með því að áður en til ákvörðunartöku kemur verði kvaddir saman fundir æðstu embættismanna, síðan ráðherra og að lokum að engar ákvarðanir verði teknar fyrr en þær verði teknar í hinu svokallaða EES - ráði, þ.e. sameiginlegu ráði hins Evrópska efnahagssvæðis. Þetta hefur vafist lengi fyrir hinum lærðustu lögfræðingum og þeim mun fleiri lögfræðingar sem að málinu hafa komið, þeim mun flóknara virðist málið verða. Ég er hins vegar sammála hv. 1. þm. Suðurl., formanni Sjálfstfl., þetta er ekki aðalatriði málsins. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að í þessum samningum muni sjávarútvegsmálin verða erfiðari viðfangs en þetta mál.
    Hv. þm. spurði, fullyrti reyndar fremur en spurði: Forsendur þessara leiða, sem við höfum verið að ræða, eru augsýnilega brostnar vegna þess að það verður engin sameiginleg ákvarðanataka. Svarið við því er: Við höfum heyrt margar hrakspár um þetta mál en þetta er ofmælt vegna þess að það liggur ekkert fyrir um það að ekkert verði af sameiginlegri ákvarðanatöku. Af hverju ekki? Það er vegna þess að Evrópubandalagið er nú að boða að það muni loksins hreyfa sig með tillögur um stjórnun Evrópska efnahagssvæðisins að því tilskildu að EFTA fækki undanþágum sínum. Hv. þm. sagði að sér sýndist að forsendur hefðu ekki verið rétt kynntar vegna réttaráhrifanna. Mitt svar við því liggur þegar fyrir, og ég byggi það á umsögnum lögfræðinga EFTA: Það er ekki þörf á að breyta stjórnarskrá íslenska ríkisins af þessum sökum. Hv. þm. sagði: Forsendurnar eru brostnar vegna þess að nú liggur fyrir að við munum ekki ná fram fríverslun með fiskafurðir, þ.e. afnámi styrkja hjá Evrópubandalaginu. Svarið er: Það er ekki rétt, forsendur eru ekki brostnar, vegna þess að það sem nú er tekist á um við samningaborðið er sérstaða Íslands og spurningin um hvort við náum fram kröfunni um tollfrjálsan aðgang sjávarafurða. Það er ekki rétt að við höfum blekkt Alþingi eða lýst öðrum skoðunum um það, bjartsýnum skoðunum um það, að það væri ekkert mál að fá Evrópubandalagið til þess að falla frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sinni í einu vetfangi. Eini maðurinn í þessum þingsal sem hefur sagt eitthvað af því tagi um sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins er hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem segir að sú stefna sé ekki til.
    Virðulegi forseti. Hversu miklu máli skipta yfirlýsingar sem heyrast í fjölmiðlum frá hinum og þessum um það að Svíþjóð ætli nú að ganga í Evrópubandalagið og Noregur ætli að ganga í Evrópubandalagið? Mikill er máttur fjölmiðlanna.
Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur enga ákvörðun tekið um að ganga í Evrópubandalagið. Ég skora á hv. þm. og hvern þann sem heldur því fram að sýna fram á það. Ríkisstjórn Svíþjóðar samþykkti fyrir sjö dögum að árétta það í ráðherraráði EFTA að stefnan væri óbreytt, Svíþjóð stefndi að því að ljúka þessum samningum. Það eina sem hefur gerst sem mér er kunnugt um er það að einn af ráðherrum í ríkisstjórn Svíþjóðar hefur sagt: Það er orðið tímabært --- hann segir eins og hv. 1. þm. Suðurl., --- það er orðið tímabært að taka þessa spurningu á almenna þjóðmáladagskrá, reyndar nánar tiltekið að beina henni til þingsins. Er það rétt, í kjölfar þess að norska ríkisstjórnin féll í morgun og nú hafa borist þau tíðindi að Gro Harlem Brundtland, leiðtogi norska Verkamannaflokksins, er það rétt að Noregur hafi tekið ákvörðun um það, einhver stjórnvöld í Noregi hafi tekið ákvörðun um að ganga í Evrópubandalagið? Nei, það er ekki rétt.
    Í Dagens Nyheter í dag er Gro Harlem Brundtland spurð um þetta mál. Þar segir: Hún vildi ekki tjá sig opinskátt um spurninguna um hugsanlega norska aðild að Evrópubandalaginu en undirstrikaði, eins og meiri hluti annarra norskra stjórnmálaforingja, að samningunum um svokallað Evrópskt efnahagssvæði milli EFTA og EB yrði að ljúka fyrst. Frú Gro Harlem Brundtland, sem nú hefur verið falið að mynda ríkisstjórn í Noregi, gud ske lov.
    Og hvað er með þá fregn, hver er fréttin? Það hefur engin stefnubreyting orðið önnur en sú að þegar stjórnmálamaður opnar munninn og segir: Það er orðið tímabært að taka spurninguna um hugsanlega aðild lands, A, B, C eða D, á dagskrá almennrar þjóðmálaumræðu, þá fær hann góða pressu af því að það er auðvitað laukrétt, auðvitað eigum við að tala um þetta. En formaður Sjálfstfl. Sjálfstfl. hefur ekki sagt það sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefur sagt, að við eigum að leggja fram umsóknina á morgun, eða Hreggviður Jónsson. ( RH: Eða hinn daginn.) Eða hinn daginn, já. Það er ágreiningur á milli hv. þm. um þetta. ( RH: Það kemur bara seinna.) Já, er það já. Það kemur bara seinna. Þetta var pólitísk skýring sem ég er ekki viss um að ég hafi átt að heyra. En hún er nú komin hérna inn.
    Virðulegi forseti. Aðaltalsmaður Sjálfstfl. í utanríkismálum, hv. 8. þm. Reykv., fulltrúi í utanrmn. og Evrópustefnunefnd og eins og ég segi, talsmaður í utanríkis - og hafréttarmálum, hefur sagt og sagði í innblásinni ræðu hér fyrr í dag að að óbreyttri stöðu bandalagsins megi aldrei heyrast sú íslensk rödd sem er tilbúin að framselja frumburðarréttinn, forræðið yfir auðlindinni, fyrir baunadisk aðildar, aldrei, aldrei. Það er ein skoðun í Sjálfstfl. Tveir hv. þm., fulltrúar Sjálfstfl., hafa verið hins vegar sú íslenska rödd sem sagði: Jú, strax, framseljum frumburðarréttinn fyrir baunadiskinn, og hafa ekki svarað þeirri spurningu, sem ætti að beina til þeirra, sem er þessi: Eru þeir þá tilbúnir til þess í dag eða á morgun að undirgangast skyldur Rómarsáttmálans um að framselja allt frá 12 mílum í 200? Hvernig væri að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson tæki þetta mál til alvarlegrar, málefnalegrar umræðu í þingflokknum sínum? ( EKJ: Ég hef ekki heyrt þetta fólk segja að það ætli að framselja réttinn.) Nú, guð minn almáttugur, það er eitthvað að gerast hér í þingsalnum sem er alveg gersamlega óvænt.
    Þetta staðfestir auðvitað að gagnrýnin um það að það kunni að vera skiptar skoðanir innan ríkisstjórnarinnar, --- það er enginn vafi á því að hún er rétt, auðvitað. Menn heyrðu t.d. ræðu hæstv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar sem las hér upp ályktun raunveruleikabandalagsins, eins og hann kallar það, sem hv. 2. þm. Austurl. kallar hina verstu hrákasmíð, en er núna, að því er mér skilst, opinber stefna Alþb., ákaflega jákvæð í Evrópumálum, ákaflega jákvæð í samstarfi við erlenda aðila, bæði að því er varðar erlent fjármagn, áhættufjármagn í íslensku atvinnulífi, álmáli og hvað eina. Það eru skiptar skoðanir í Alþb. Það eru skiptar skoðanir í Sjálfstfl. Það er einhver áherslumunur í Framsfl. Kvennalistinn er við sama heygarðshornið, hann er samur við sig. Hann er á móti. Hann er á móti þessu eins og öllu öðru, þannig að það er nú bara svona. Það þarf ekkert að vera slæmt. Í raun og veru finnst mér það ósköp eðlilegt að það séu skiptar skoðanir.
    Hitt er annað mál að okkur, sem förum með málin og berum á þessu ábyrgð, ber skylda til þess að marka stefnu. Og niðurstaðan af allri þessari umræðu er sú að þrátt fyrir ólíkar áherslur ber nú ekki mjög margt á milli. Þessi álitamál eru að sumu leyti tæknilegs eðlis. Við skulum segja t.d. spurningin um réttaráhrifin, nauðsynin á breytingu á stjórnarskrá. Auðvitað eru einhver álitamál um það hvort skynsamlegra hefði verið að reyna að ná þessum hagsmunum sem

við erum að reyna að ná fram í marghliða samningum EFTA - ríkjanna við EB með tvíhliða samningum. Hugsanlega er það álitamál hversu skammt eða langt sé í það, að loknum þessum samningum, að spurningin um aðild verði á dagskrá með fullum þunga. Kannski er stærsti ágreiningurinn þessi? Ég er þeirrar skoðunar að spurningin um aðild sé alls ekki á dagskrá, ég er sammála hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni um það, hún sé ekkert á dagskrá fyrr en við höfum það í hendinni að Evrópubandalagið hafi leyst þau stóru mál sem varða lífshagsmuni Íslands. Þannig stendur sú samstaða yfir flokkalandamærin, sem er mjög gott í pólitík, mjög gott.
    Virðulegi forseti. Hvert er framhaldið, framhaldið á þessari umræðu? Framhaldið er það að nú látum við á það reyna hvort ekki tekst samstaða um það í stórum dráttum að við leggjum fram okkar skerf til þess að fækka undanþágum af hálfu EFTA - ríkjanna, sem er algerlega skilyrt og skilorðsbundið því að Evrópubandalagið komi með tillögur sem eru ásættanlegar af okkar hálfu um stjórnunina. Meðan við erum að þessu ætla ég að vona að pólitíkusar í Skandinavíu hætti að blaðra vegna þess að það skaðar samningsstöðu okkar. Mér er alveg sama þó þeir hafi hug á því að ganga í Evrópubandalagið eftir einhver ár þegar það stendur opið, þeir geta beðið með það fram yfir þessa samninga. Getum við náð samstöðu um þetta? Sumir spyrja: Erum við þá að kapítúlera? Erum við þá að falla frá öllum skilyrðum? Nei, við erum ekki að því. Ég er sannfærður um það að menn sjá það þegar menn hafa kynnt sér þetta mál til hlítar að það hefur ekkert verið úr samningsstöðu okkar dregið. Við höfum enn vald á þessum sömu hlutum sem við vorum að setja fyrirvara um. Hvað fáum við í staðinn? Við ætlum að fá í staðinn tollfrjálsan aðgang að þessum 380 milljóna markaði fyrir okkar fiskafurðir. Hvað þýðir það í beinhörðum peningum? Sumir spyrja um það. SÍF segir að það sé 1 -- 1 1 / 2 milljarður á ári. Það er að vísu rangt reiknað, það er ekki svo mikið, ekki á ári hverju, það fer eftir markaðsaðstæðum. Það fer eftir því hvor borgar tollinn, neytandinn eða við. En það er minnsta málið. Það sem við fáum í staðinn er ekki bara niðurfelling á tollum miðað við núverandi útflutningsstig. Það sem við fáum í staðinn er opnun, það sem við fáum í staðinn er einn samfelldur fjármagnsmarkaður. Það sem íslenskt atvinnulíf fær í staðinn smám saman er leiðrétting á samkeppnisskilyrðum, greiðari aðgangur að ódýrara fjármagni. Það sem við fáum í staðinn er greið leið að samstarfi í vísindum og tækni. Það sem við fáum í staðinn er miklu opnari möguleikar til hvers kyns samstarfs út yfir landamæri. Við erum að tryggja að við verðum ekki viðskila við framfaraþróunina í Evrópu. Um þetta erum við sammála. Þetta er nauðsynlegt. Það eru að vísu til raddir sem segja nei, þetta er of áhættusamt. En mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar, mikill meiri hluti okkar sem hér erum á Alþingi, er sammála um þetta. Hitt eru minni háttar atriði sem við leysum með málefnalegum umræðum.