Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Sem betur fer eru nú ræður manna teknar upp á segulbönd og ber að birta þær eftir því sem unnt er óbreyttar. Þess vegna leiðréttist ýmislegt af því sem er óneitanlega rangtúlkað af hæstv. ráðherra og á ég þá sérstaklega við ummæli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur og Hreggviðs Jónssonar. Þau tvö sögðu alls ekki þau orð sem ráðherrann hafði eftir þeim og gerði þeim hreinlega upp. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefur skýrt þetta og það kemur þá rækilega fram í hennar greinargerð.
    Ráðherrann fór heldur ekki rétt með mín orð. Ég sagði það að engin íslensk rödd mætti heyrast um það að nokkur Evrópubandalagsskip kæmu til veiða á okkar miðum, ekki nokkurt slíkt skip. En ráðherrann sagði að ég hefði sagt allt annað og miklu meira og þess vegna væri einhver alvarlegur ágreiningur ríkjandi með mér og öðrum, a.m.k. þeim hv. þm. Þorsteini Pálssyni og Ragnhildi Helgadóttur. Þau hafa skýrt hvað þau hafa sagt. Ég er ekki sammála þeim í einu og öllu en þau hafa aldrei sagt þetta, að þau ætluðu að hleypa einhverjum erlendum skipum inn í okkar mið og þau hafa ekki talað um þennan fórnarkostnað. Ég held nú reyndar að það sé nýyrði. Ég á margar íslenskar orðabækur og mun fletta upp á því á eftir. Ég hef aldrei heyrt þetta orð áður og við höfum a.m.k. aldrei talað um það í þingflokki Sjálfstfl. að við ætlum að borga einhvern fórnarkostnað.
    En hæstv. ráðherra sagði hér áðan, og það var nú tilefni þess að ég kom hér upp, að Íslendingar hefðu boðið Evrópubandalaginu einhverjar veiðar fyrir aðrar veiðar hjá þeim og fannst það bara hreint ekkert svo fráleitt og greindi frá því að Halldór Ásgrímsson, hæstv. sjútvrh., hefði verið þar að verki og með samþykki ríkisstjórnarinnar, skildist mér. Það hefur aldrei verið rætt í Alþingi, utanrmn. eða neins staðar. Það var gert í algeru heimildarleysi enda horfið hið bráðasta frá þessu, sem betur fer, slíkri endaleysu.
    Einhvern tíma var uppi hugmynd um að gefa Grímsey, minnir mig, var það ekki? Það var ekki gert. Skilja það ekki allir menn að ef við hleypum Evrópubandalagsríkjum, þessum gífurlega flota sem gæti gjöreytt fiskstofnunum, á veiðar, ef við hleypum þeim inn, væri þá ekki verið að rétta þeim litla fingurinn? Stendur ekki einhvers staðar að það væri þá auðvelt að taka hendina alla? Það er auðvitað svo barnalegt, fáránlegt, að láta sér detta það í hug og nefna svo Belga frá 1972. Belgar studdu okkur nefnilega í þessu máli og við leyfðum þarna sjö eða átta skipum, þau voru að vísu tólf fyrst, að halda úti veiðum, einmitt til að sýna það að við værum ekki með ótakmarkaða frekju eins og sumir töldu þá, og þessi skip áttu að fá að vera þangað til þau gengju úr sér. Ég held að þau séu þrjú eftir enn þá, lítil skip sem veiða nokkur hundruð eða kannski þúsund tonn, ég veit það ekki. Það er fiskur sem við nýtum lítið. Að jafna þessu eitthvað saman og þó að við höfum haft samninga við Færeyinga þá um venjulegar fiskveiðar sem við sjálfsagt leyfum þeim áfram vegna þeirra miklu erfiðleika

sem þeir eru í, enn þá meiri en okkar, þó að því tilskildu að þeir hætti þá líka rányrkju á laxastofninum t.d. sem er algjörlega ólögleg eftir alþjóðalögum, áttu aldrei að fá nein réttindi því að laxinn tilheyrir þeirri þjóð þar sem hann er upprunninn. Hún á fullan rétt yfir honum, jafnvel inni í höfninni í Þórshöfn. Það voru afglöp líka að gera þennan svokallaða Reykjavíkursamning um það. Og auðvitað ætti, næst þegar samið er um sérstakar fiskveiðiheimidir fyrir Færeyinga hér, að taka af þeim öll slík réttindi og stöðva framferði þeirra og lögbrot.
    Hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, ég var nú ekkert að elta ólar við það í minni fyrri ræðu: Eigum við strax að óska formlegra tvíhliða viðræðna sem við þegar höfum gert? Það er alltaf verið að tönnlast á því í öðru orðinu að við höfum beðið um tvíhliða viðræður og svo að við eigum þá strax að gera það. Ég er sammála um að við eigum strax að gera það. En að það hafi verið gert. Það er alltaf verið ýmist að segja að það hafi verið beðið um formlegar viðræður eða alls ekki.
    En það sem t.d. Henning Christophersen sagði: Það á ekki að biðja um neinar tvíhliða viðræður um fiskveiðar, heldur um almenn samskipti þjóða og nefna alls ekki fiskveiðar. Það hlýtur nú að liggja í augum uppi að eftir þeim ráðum eigum við að fara, hvort sem þessar umræður hétu tvíhliða viðræður eða einhvers konar aukaaðild og það nefndi nefnilega hæstv. ráðherra hér áðan. Það er verið að gera slíka samninga, t.d. við Austur - Evrópuríkin, og þessa tegund af tvíhliða samningi, ef mætti kalla það svo, mér er nákvæmlega sama hvað það heitir, en þá er gerður samningur og í þeim samningi stendur það sem í honum stendur. Hann er um það efni sem hann fjallar um, ósköp einfaldlega. Hvort hann er kallaður aukaaðild sem er auðvitað rangnefni á slíkum samningi og rangþýtt sjálfsagt úr erlendum tungum. Það má gera. Ef menn einhvern tíma vilja kalla þetta umsókn um aðild að Evrópubandalaginu, eða menn hafa reyndar kallað að það væri til að kanna hvaða kosta væri völ, þá væri það kallað einhverju öðru nafni en tvíhliða viðræður eða aukaaðild, það er kannski ekki aðalatriðið. Ég er hins vegar móti því að gera það með þeim hætti, en samningar eru það. Það er tilraun til að ná samningum, eins og allar þjóðir eru að gera við þetta merka bandalag, sem heimurinn virðist alveg snúast um núna. Ég held að möndullinn sé ekki enn þá algjörlega í þessu bandalagi og við getum borið virðingu fyrir því, að sjálfsögðu, og dáðst að þessari framsýni. En að við þurfum að vera alveg dolfallnir yfir því, það held ég að sé nú óþarfi.
    Auðvitað var hér margt nefnt, eins og t.d. að það er margt fleira en viðskipti sem þetta bandalag snýst um, eins og menningarstofnanirnar, menntastofnanir sem er auðvitað algjörlega nauðsynlegt að við getum verið í tengslum við áfram.
    En að því er varðar þessa deilu um fríverslunina innan EFTA, þá var ég geysilegur stuðningsmaður þess að það næðist fram og á sameiginlegum fundi Evrópustefnunefndar og utanrmn. í Rúgbrauðsgerðinni

var ég langharðastur á því að ráðherrarnir, það var forsrh. sjálfur fyrst og fremst, var að fara til Ósló, og síðan hæstv. utanrrh., stæðu alls ekkert upp, en til síðustu stundar mundu þeir krefjast þess að fríverslun með fisk yrði inni í þessari yfirlýsingu. Þeir stóðu sig frábærlega vel í því og ég held að það hafi verið á síðustu fimm mínútunum sem látið var undan og þetta náðist fram. Í fréttum hljóðaði þetta a.m.k. eitthvað í þá áttina og það er auðvitað alveg ljóst að það var styrkur að því að fá þetta inn í samkomulagið í EFTA - ríkjunum og að EFTA - ríkin væru þess vegna aðilar að þessari kröfu við Evrópubandalagið.
    Auðvitað datt engum í hug að við næðum fríverslun í því sem hæstv. fjmrh. nefndi fyrr í dag að væri síðari skilningurinn, síðari túlkunin, eins og hann nefndi það, túlkun á hvað væri fríverslun, þ.e. að það væri eingöngu verslunin sjálf, viðskiptin sjálf en ekki tengdust inn í allir styrkir og annað slíkt sem er í hinni hefðbundnu skilgreiningu á hvað er fríverslun. Þar nefndi hann fyrri skilgreininguna sem væri mjög víðtæk í þessu efni. En þessi hugtök öll eru að breytast og ég held að að það sé rétt hjá hæstv. fjmrh. að orðin sé til alveg tvenns konar skilgreining á hvað sé fríverslun. (Gripið fram í.) Ja, hann nefndi það þannig. Það er þá rangt hjá honum og það er þá ekki það eina sem þá greinir á um, ráðherra í þessari ríkisstjórn. Það er víst ekkert til sem þá ekki greinir á um og þá vona ég nú að hæstv. utanrrh. geri sér lítið fyrir á morgun og reki þetta rækilega ofan í manninn. Hann sagði þetta hér, að það væri tvenns konar skilgreining á þessu. Annars vegar nefndi hann þá víðtæku og hin væri síðari og þrengri skilgreiningin og ég held að ég hafi skilið hann rétt í því að það væri gamla skilgreiningin sem væri sú víðtæka, þ.e. að það mættu engir styrkir vera og það væri verndarstarfsemi o.s.frv., en samkvæmt hinni síðari væri það verslunin með vörurnar sem væri gagnkvæm og það væri því lausn. Ég tel mig nú raunar vita að í þessu tilfelli hafi fjmrh. rétt fyrir sér en hæstv. utanrrh. ekki.