Æskulýðsmál
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Rökin eru þau að í frv. er gert ráð fyrir að þessi starfsemi flytjist í veigamiklum mæli til æskulýðsfélaganna sjálfra og samtaka á þeirra vegum og það sé óþarfi að ríkið sé með sérstakan starfsmann í þessum málaflokki auk þess sem þess verður að geta að með breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er sú undirstrikun skýrari af hálfu löggjafans en áður var, að þessi mál eru hjá sveitarfélögunum. Ég er reyndar almennt þeirrar skoðunar að skipan embættismanna í ráðuneyti með þeim hætti sem verið hefur um æskulýðsfulltrúa og reyndar fleiri sé ekki að öllu leyti eðlileg. Ég tel að skipan embættismanna í ráðuneyti eigi að taka mið af stjórnarráðslögunum, þeir séu þá deildarsérfræðingar, deildarstjórar, ritarar, skrifstofustjórar o.s.frv., skv. stjórnarráðslögunum, en taki ekki
embættistitla samkvæmt öðrum lögum. Þetta eru aðalröksemdirnar fyrir því að ég féllst ekki á þessa tillögu nefndarinnar. En meginröksemdin er sú að ég tel að þetta eigi að vera hjá æskulýðsfélögunum og í frv. er gert ráð fyrir að þau fái stuðning til þessarar starfsemi sem er sambærilegur við þann kostnað sem lagður hefur verið út vegna embættis æskulýðsfulltrúa ríkisins. Það er hinn hugmyndalegi og pólitíski grunnur á bak við þessa afstöðu mína.