Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lífeyrisréttindi hjóna en meðflm. er Salome Þorkelsdóttir. Í 1. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa meðan á hjónabandi stóð, skulu teljast hjúskapareign þeirra. Við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skulu þau ellilífeyrisréttindi, sem áunnust meðan hjónabandið stóð, skiptast jafnt milli þeirra.``
    Frv. sama efnis var lagt fram af flm. í Ed. á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Það er því endurflutt á grundvelli sömu forsendna og þá. Ég vil, virðulegi forseti, fara nokkrum orðum um það hvað felst í frv. því það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því um hvaða mannréttindaatriði hér er að ræða, þ.e. hversu stórt það er í sniðum, bæði út frá sjónarmiði viðkomandi einstaklinga sem og með tilliti til fjármuna.
    Eins og nú er háttað eru ellilífeyrisréttindi beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Eðlilegt er að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.
    Það verður að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.
    Þetta er gífurlega þýðingarmikið atriði, sérstaklega hvað varðar eiginkonu, þar sem t.d. um mörg börn er að ræða og konan bundin af því að annast heimilið í áratugi. Þá getur það gerst og gerist því miður við skilnað að konur, sem eru á aldrinum milli fimmtugs og sextugs og lenda í skilnaði eftir að hafa skilað af sér miklu og góðu ævistarfi við uppeldi og umönnun barna, standa uppi raunverulega réttindalausar á sama tíma sem makinn, eiginmaðurinn, gengur frá búi og börnum og heldur öllu sínu gagnvart eftirlífeyrisréttindum. Í þessu felst þvílíkt ranglæti að það er fullkomlega tímbært að þessu sé breytt og þá sérstaklega með tilliti til þess að samkvæmt lögum eru allir landsmenn sem starfa úti á hinum almenna vinnumarkaði skyldaðir til að vera aðilar að lífeyrissjóði.
    Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt, eins og hv. þm. vita, og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Það er því sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlega eign rétt eins og aðrar eignir.
    Ég mun ekki fjölyrða frekar um þetta, virðulegi forseti, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og fjh. - og viðskn.