Lífeyrisréttindi hjóna
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þarf nú reyndar ekki að hafa mörg orð um þetta litla frv. hér. Eins og fram kemur er ég meðflm. að frv. Ég vildi aðeins árétta það sem kom fram í máli 1. flm., hv. 14. þm. Reykv., að hér er um mikið réttlætismál að ræða og ekki kannski síst vegna þess að það eru einmitt húsmæður sem hafa verið heimavinnandi, kannski allan sinn starfstíma í því hlutverki, sem lenda helst í erfiðleikum af þeim ástæðum sem frv. fjallar um. Þær eiga ekki í mörg hús að venda þegar þær sitja eftir með sárt ennið og lífeyrisrétturinn er farinn burt af heimilinu með maka vegna skilnaðar. Ég get ekki séð að það eigi að þurfa að vera flókið mál að leiðrétta þetta. Þess vegna legg ég ríka áherslu á að þetta mál fái góða og skjóta umfjöllun í þeirri nefnd sem fær það til meðferðar.