Brottfall laga og lagaákvæða
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð ekki afgreitt. Ég skal hafa um það mjög stutta framsögu og láta nægja fyrst og fremst að vísa til þess að þetta frv. á rætur sínar að rekja til þál. sem samþykkt var á Alþingi 22. maí 1984. Þá tillögu fluttu Árni Gunnarsson, Birgir Ísl. Gunnarsson, Stefán Benediktsson, Davíð Aðalsteinsson og Guðrún Agnarsdóttir. Með þeirri þál. var ákveðið að kjósa nefnd sem fékk m.a. það verkefni að undirbúa hreinsun úreltra ákvæða úr núgildandi lögum og gera tillögur um niðurfellingu lagabálka, sem engum tilgangi þjóna lengur og fella má úr gildi, og um greinar gildandi laga sem eðlilegt er og nauðsynlegt að samræma. Nefndinni voru að vísu falin fleiri verkefni, t.d. að gera tillögur um sömu hreinsun í reglugerðum.
    Nefndin hefur talið að eiginlega væri nauðsynlegt fyrsta skref að hreinsa lagasafnið sjálft. Í því hefur verið unnið mjög mikið. Það er rétt að geta þess að í nefndina voru kjörnir 20. júní 1985 eftirgreindir einstaklingar: dr. Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, sem var formaður nefndarinnar og jafnframt má segja vann mikið að því starfi sem hér er um að ræða, Gils Guðmundsson, fyrrv. alþm., Haraldur Blöndal hrl., Hreinn Pálsson lögfræðingur, Margrét Rún Guðmundsdóttir blaðamaður, Már Pétursson héraðsdómari, nú bæjarfógeti og sýslumaður, Sigurður Líndal prófessor, Snædís Guðmundsdóttir dómarafulltrúi og Svala Thorlacius hrl.
    Það kemur fram í greinargerðinni að Margrét Rún gat ekki vegna fjarvistar tekið þátt í störfum nefndarinnar. Ármann Snævarr var, eins og ég sagði, formaður en Már Pétursson og Svala Thorlacius voru ritarar nefndarinnar.
    Eftir að forsrn. fékk þetta starf lét ég jafnframt senda það öllum ráðuneytum og fól mínum aðstoðarmanni að kalla eftir athugasemdum. Þær komu ekki, enda held ég að þetta mál sé mjög ítarlega unnið og skal ekki fjölyrða um það meira. Mikilvægast er að það komist strax til nefndar. Ég geri mér vonir um að það fái þá afgreiðslu á þessu þingi.
    Að þessum orðum mæltum legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.