Skaðsemisábyrgð
Þriðjudaginn 30. október 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skaðsemisábyrgð. Frv. fjallar um skaðabótaábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila á tjóni sem hljótast kann af ágalla á vöru sem þeir hafa framleitt eða látið af hendi. Frv. var lagt fram á síðasta þingi og er nú endurflutt. Á liðnu sumri bárust nokkrar umsagnir um það. Þær eru í meginatriðum jákvæðar. Það hafa verið gerðar minni háttar breytingar á frv. í tilefni þessara umsagna og líka hefur verið samin ný og ítarleg greinargerð með því.
    Ég tel að hér sé um mjög athyglisvert mál að ræða af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi bætir það stórlega réttarstöðu neytenda. Í öðru lagi er það þáttur í samræmingu viðskiptalöggjafar á Íslandi við það sem tíðkast í Vestur - Evrópu og í þriðja lagi er það reyndar nauðsynlegt til þess að tryggja vöruútflutningi okkar hindrunarlausan aðgang að innra markaði Evrópubandalagsins og að markaði í öðrum ríkjum Fríverslunarsamtaka Evrópu.
    Skaðsemisábyrgð er nefnd produktansvar, product liability eða Produkt Haftung á þeim erlendum tungum sem okkur eru tamastar og er tiltölulga ung grein í skaðabótarétti. Samkvæmt henni er meginreglan sú að sá sem bíður tjón vegna skaðlegra eiginleika framleiðsluvöru geti krafist bóta beint frá framleiðanda eða frá framleiðanda og dreifingaraðila í sameiningu. Meginábyrgðin á hinum skaðlegu eiginleikum liggur hjá framleiðandanum. Ef varan er innflutt tekur þá innflytjandinn eða annar dreifingaraðili á sínar herðar ábyrgð framleiðandans. Á sameiginlegu markaðssvæði margra ríkja er ekki um sérstakan innflytjanda að ræða heldur aðeins framleiðendur og dreifingaraðila
     Frv., eins og það liggur hér fyrir, bætir mjög réttarstöðu neytenda ef það verður að lögum. T.d. má nefna að skemmdar matvörur eða gölluð lyf geta valdið heilsutjóni. Sama á við um vélar, tæki og áhöld sem slys hlýst af vegna bilunar eða vanbúnaðar tækjanna. Ýmiss konar vörur geta valdið spjöllum á öðrum munum. Ég nefni lím, þéttiefni eða sement sem geta valdið skemmdum vegna einhverra annmarka þegar þau eru notuð með öðrum byggingarefnum. Þótt neytendur kunni í slíkum tilvikum að geta fengið skaðabótarétt sinn viðurkenndan eftir almennum skaðabótareglum mælir frv. fyrir um stóraukið öryggi neytenda með því að slá fastri hlutlægri ábyrgð framleiðanda og dreifanda og nánari reglum um það hvernig skaðabótaskyldu þeirra er farið. Í því sambandi er lagt til að sú regla verði lögfest að sá sem verður fyrir tjóni geti haft uppi skaðabótakröfu beint við framleiðandann, eða dreifingaraðilann, eða við þá saman. En nú gildir sú regla að hann verður fyrst að bera kröfu sína fram við þann sem seldi honum vöruna og sá aftur að endurkrefja næsta millilið og þannig koll af kolli þangað til leiðin er rakin til framleiðandans. Ef einn hlekkur í þeirri keðju er gjaldþrota, eða hættur rekstri, er eins víst að krafan tapist. Með því að stytta þessa röð er að sjálfsögðu réttur neytenda, eða notenda, vörunnar stórlega bættur.

    Að undanförnu hafa mörg ríki Vestur - Evrópu sett lög um skaðsemisábyrgð. Ríki Evrópubandalagsins eru í þessu efni bundin af tilskipun framkvæmdaráðs bandalagsins frá 21. júlí 1985. Tilskipunin mælir fyrir um samræmda löggjöf aðildarríkjanna á þessu sviði. Allmörg þeirra hafa þegar sett lög um efnið en í öðrum aðildarríkjum er löggjöf í undirbúningi. Þá hafa ríki Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, sett slíka löggjöf eða eru í þann mund að gera það. Lög EFTA - ríkjanna hafa mjög tekið mið af löggjöf ríkja Evrópubandalagsins. Ég nefni sem dæmi að í Noregi voru nýlega sett lög um þetta efni sem voru í góðu samræmi við lög Evrópubandalagsríkja og tilskipun ráðsins, sem ég nefndi áðan.
    Frv. sem ég mæli fyrir hér er að sínu leyti sniðið eftir lögum Evrópubandalagsríkja. Efni og uppsetning frv. er að mestu í samræmi við dönsku lögin um skaðsemisábyrgð, en tilgangur frv. er m.a. að samræma íslenskar reglur um skaðsemisábyrgð löggjöf annarra Evrópuríkja. Það má færa margvísleg rök fyrir nauðsyn þess. Mikill hluti útflutnings Íslendinga fer til ríkja í Vestur - Evrópu og stór hluti okkar innflutnings kemur líka þaðan. Samræmd viðskiptalöggjöf okkar og annarra Vestur - Evrópuþjóða er til þess fallin að greiða fyrir viðskiptum Íslendinga á Evrópumarkaði. Rýrari ábyrgð íslenskra framleiðenda en keppinauta þeirra mundi síst styrkja samkeppnisstöðu íslenskra útflytjenda og reyndar þegar til lengdar lætur spilla fyrir okkar útflutningsmöguleikum.
    Í frv. er tæmandi upptalning á þeim aðilum sem borið geta skaðsemisábyrgð. Grundvöllur bótaskyldunnar er, eins og ég sagði áður, hlutlæg ábyrgð. Þar er um herta ábyrgð að ræða þótt niðurstaðan yrði í flestum tilfellum hin sama og yrði samkvæmt núgildandi skaðabótarétti.
    Í 7. gr. frv. er hinni hlutlægu ábyrgð settar vissar skorður í samræmi við ríkjandi sjónarmið í þeirri grein lögfræðinnar sem fjallar um skaðsemisábyrgð. Eitt mikilvægasta álitaefni varðandi reglurnar um skaðsemisábyrgð er hvernig afmarka eigi hugtakið ágalli. Í 5. gr. frv. eru reglur sem fara skal eftir þegar metið er hvort vara sé haldin ágalla. Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að setja í lög tæmandi reglur um þetta efni. Endanlegt mat á því hvort og hvenær um ágalla sé að ræða verður því, eins og áður, að sjálfsögðu í höndum dómstóla.
    Í frv. er því slegið föstu hvaða reglur skuli gilda um framkröfur og skiptingu ábyrgðar milli aðila sem bera ábyrgð á sama tjóni. Það dregur úr réttaróvissu.     Eitt veigamesta nýmæli frv. er bannið í 12. gr. gegn því að víkja með samningi frá skaðabótareglum þess, þannig að réttur tjónþola, eða hugsanlegs tjónþola, verði minni en reglurnar veita. Frv. tryggir tjónþola því lágmarksrétt sem ekki verður skertur með samningum áður en tjón verður. Álíta verður að frv. mundi ekki ná þeim tilgangi sínum að veita neytendum eðlilega vernd ef þetta nýmæli væri ekki í því.
    Í frv. eru nýjar fyrningarreglur. Ekki er þó lagt til að breytingar verði á réttarreglunum um slit fyrninga. Fyrningarreglur þær sem hér er gerð tillaga um eiga

við um allar kröfur vegna skaðsemistjóns. Rökin fyrir því að leggja til að fyrningarreglunum verði breytt er að finna í athugasemdunum við 13. og 14. gr.
    Eins og ég hef þegar sagt hafa verið gerðar tvær minni háttar breytingar á frv. frá því það var fyrst lagt fram. Í fyrsta lagi er um að ræða eigin ábyrgð þess sem verður fyrir skaðsemisábyrgð. Í umsögnum um frv. hefur verið talið að slíkt ákvæði sé andstætt núgildandi skaðabótareglum auk þess sem það skipti litlu máli sökum þeirrar lágu fjárhæðar sem upphaflega var gerð tillaga um sem eigin ábyrgð.
    Í öðru lagi hefur í 8. gr. verið sett hámark á samanlagða ábyrgð framleiðanda vegna líkamstjóns, þar á meðal dauðaslyss, og er lagt til að hámarkið nemi sem svarar 70 milljónum Evrópureikningseininga, ECU. Hámarksfjárhæðin er sniðin eftir löggjöf Evrópubandalagsþjóðanna og nemur um 5,5 milljörðum kr. á núverandi gengi og er hér aðeins sett sem ýtrasti varnagli.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gera einstök ákvæði frv. frekar að umræðuefni að þessu sinni. Eins og ég nefndi áðan hefur verið samin mun fyllri og ítarlegri lögfræðileg greinargerð með frv. en fylgdi því á sl. vori og tel ég því ekki nauðsynlegt að fara nákvæmlega í einstök atriði þess. Ég legg mikla áherslu á að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi en taki gildi fyrst í framkvæmd 1. jan. 1992. Það þarf að sjálfsögðu talsverðan tíma til aðlögunar að ákvæðum frv. ef að lögum verður. Tel ég nauðsynlegt að íslenskum fyrirtækjum gefist ráðrúm til að kynna sér reglurnar sem samþykktar verða og búa sig undir gildistöku þeirra. Það þarf líka að kynna ákvæði þessi ítarlega fyrir almenningi, framleiðendum og dreifingaraðilum og eins þarf að gefa viðskiptalífinu tíma til þess að bæta sína gæðastjórn og kaupa sér vátryggingar gegn hugsanlegri skaðsemisábyrgðarskyldu. Og eins og fram hefur komið þá er brýn nauðsyn á því að vitundin um skaðsemisábyrgð framleiðenda og dreifenda hafi náð hér fótfestu þegar samræmd viðskiptalöggjöf tekur gildi í allri Vestur - Evrópu eins og væntanlega verður hinn 1. jan. 1993.
    Virðulegi forseti. Ég geri því að tillögu minni að þessu frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.