Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fagna því að þetta frv. er fram komið. Það eru nokkur atriði sem ég hef efasemdir um og vil að komi fram strax við 1. umr. þó ég hafi aðstæður til í hv. menntmn. að fylgja þeim eftir.
    Í fyrsta lagi varðandi fyrirsögnina. Talað er um frv. til laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, og kemur reyndar fram í 2. gr., þá er hér fyrst og fremst um að ræða táknmálskennslu, táknmálstúlkun og táknmálsrannsóknir. Þess vegna er ég efins um að þetta eigi að ná líka til heyrnarskertra, heldur sé hér fyrst og fremst um að ræða Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, það sé kannski réttara að orða það svo.
    Í öðru lagi er það í 2. gr. varðandi samstarf það sem stofnunin á að hafa við aðrar stofnanir. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þessar stofnanir, eins og t.d. Heyrnar - og talmeinastöð Íslands, séu ekki meira á sviði heilbrigðismála og hvort það er í sjálfu sér ástæða til þess að þarna eigi að fara fram samstarf á milli. Mér finnst samstarf við Heyrnleysingjaskólann mjög eðlilegt, en mér er spurn: Er hitt það mikils virði að það sé ástæða til þess að setja það inn í lög að stofnunin skuli hafa samsarf við þá aðila?
    Þá er í þriðja lagi það sem ég vildi nefna og velti fyrir mér varðandi stjórn þessarar stofnunar. Miðað við frv. á meiri hluti stjórnar að vera frá ráðuneytum en minni hluti frá Félagi heyrnarlausra og Foreldra - og styrktarfélagi heyrnardaufra. Mér fyndist eðlilegra að meiri hlutinn kæmi frá þeim aðilum og minni hutinn aftur á móti frá ráðuneytunum. Þá hefði ég kannski talið eðlilegast að heilbrrn. félli út. Það er eðlilegt að það sé einn fulltrúi tilnefndur af félmrh. og ég geri ekki athugasemdir við það, eins og kemur fram í e - lið, að menntmrh. skipi einn fulltrúa án tilnefningar sem verði formaður.
    Þetta eru, hæstv. forseti, þau atriði sem ég vildi koma hér á framfæri. En ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi að ég fagna því mjög að þetta frv. skuli vera fram komið og vonast til að það eigi greiða leið í gegnum þingið.