Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 18. þm. Reykv. fyrir góðar undirtektir við þetta mál. Ég ætla aðeins að víkja að athugasemdum sem fram komu hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. og þá fyrst varðandi fyrirsögn frv.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt að átta sig á því, eins og hv. 18. þm. Reykv. gat um, að markatilvikin eru svo mörg að það er í raun og veru ekki hægt annað en að orða þennan þátt svona. Ég hef hins vegar velt því fyrir mér hvort fyrirsögnin sé villandi að því leytinu til að hún eigi aðallega að stuðla að samskiptum milli heyrnarlausra og heyrnarskertra. En tilgangurinn er sá að hún á að stuðla að samkiptum milli heyrnarlausra og heyrnarskertra annars vegar og heyrandi hins vegar. Ég veit að í hv. menntmn. eru margir orðhagir einstaklingar sem hafa glögga innsýn í þetta mál og mér þætti ekkert verra þótt menntmn. fyndi á miðstöðina annað heiti sem væri kannski gagnsærra að því er varðar hlutverk hennar en þetta heiti er hér. Ég tel engan veginn að þetta heiti sé eins og það lítur út yfir gagnrýni hafið.
    Varðandi aðra athugasemd hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um það að óþarfi væri að hafa Heyrnar- og talmeinastöðina þarna inni í þá held ég satt að segja að það sé ekki vegna þess að hún er með hjálpartæki sem nýtast heyrnarskertum. Ég held að það sé mjög eðlilegt að það sé leitað til hennar. Spurningin er hins vegar um það, og það getur verið álitamál, hvort það eigi að segja í frv. eða lögunum ,,skal`` hafa samstarf við þessa stofnun, heldur væri kannski nægilegt að orða þetta þannig að miðstöðin eigi samstarf við þær stofnanir og þá aðila sem í hlut eiga eða í hlut geta átt án þess að vera að telja þær upp vegna þess að sú upptalning verður aldrei tæmandi eða kannski of löng vegna þess að þá er verið að tala um stofnanir eða miðstöðvar sem einungis í undantekningartilvikum yrði haft samstarf við á vegum þessarar miðstöðvar. Þetta er mál sem mér finnst auðvitað sjálfsagt að hv. nefnd athugi.
    Varðandi þriðju athugasemd hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um það að þeir aðilar sem njóta þjónustunnar eigi að hafa meiri hluta í stjórninni en ráðuneytin minni hluta þá er það út af fyrir sig sjónarmið. Vandinn er hins vegar sá að ráðuneytin eiga að bera hér alla stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð. Við meðferð málsins, bæði hjá þeim sem þjónustunnar eiga að njóta og hjá ráðuneytunum, hafa engar hugmyndir komið fram um aðra skipan stjórnar en þarna er. En ég er ekkert að segja þar með að það fyrirkomulag sé fullkomið sem menn eru þarna að gera tillögu um. Auðvitað mætti hugsa sér að breyta aðeins samsetningu stjórnarinnar og um leið þá hlutverki hennar. Það mætti líka hugsa sér að menn fækkuðu í stjórninni þannig að í henni væru einungis fulltrúar frá menntmrn. og félögunum með þeim rökum að ráðuneytin eigi að eiga sér annan samstarfsvettvang, sem er ríkisstjórn á hverjum tíma og ýmsar samstarfsnefndir um málaflokka sem óneitanlega snerta málefnið Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. En ég heyrði það á báðum hv. þm. að þær voru almennt hlynntar efni frv. og ég endurtek þakkir mínar fyrir það og vænti þess að það sé til marks um að hv. deild treysti sér til þess að afgreiða þetta frv. á nokkuð skömmum tíma.