Tímabundin lækkun tolls af bensíni
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér um ræðir fjallar um tímabundna lækkun tolls á bensíni. Þann 5. okt. sl. ritaði fjmrh. Verðlagsráði bréf og skýrði frá því að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir breytingu á tollalögum þannig að hlutur ríkisins af aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti hækki ekki í krónutölu frá því sem var við síðustu verðlagningu bensíns. Í fskj. með frv. er umrætt bréf til Verðlagsráðs birt.
    Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar er tekin í samráði við helstu samtök launafólks og samtök atvinnurekenda og er ætlað að styrkja það samkomulag um kjaramál sem kennt er við þjóðarsátt. Verði frv. þetta að lögum er gert ráð fyrir að þau gildi til áramóta en ætla má að heimsmarkaðsverð á olíu lækki til muna á þeim tíma frá því háa verði sem spákaupmennska í tengslum við Persaflóadeiluna hefur nú leitt til og er ánægjulegt að olíufélögin ákváðu í gær að óska ekki eftir þeirri hækkun sem horfur voru á að þau mundu óska eftir. Styður sú ákvörðun enn frekar þá hugsun sem í þessu frv. felst. Það er lagt fram vegna óvissunnar í olíumálum á heimsmarkaði um þessar mundir.
    Samkvæmt gildandi reglum er veittur gjaldfrestur á innflutningsgjöldum af bensíni og er því lagt til í frv. að heimildin um tímabundna tollalækkun verði afturvirk frá 1. okt. og gildi til 31. des. í ár. Tollur af bensíni er nú 50% en að samþykktu þessu frv. er gert ráð fyrir að heimilt verði að lækka hann í um 30 -- 35%. Þetta mun hafa í för með sér um 50 millj. kr. tekjutap á mánuði fyrir ríkissjóð, þrátt fyrir hærri tekjur af bensíni og virðisaukaskatti, ef miðað er við það háa innkaupsverð sem horfur voru á þegar frv. var samið á sínum tíma. Hins vegar getur tekjutapið orðið minna ef verðlagsþróun verður með öðrum hætti.
    Fulltrúar ASÍ, BSRB og VSÍ hafa að undanförnu rætt við ríkisstjórnina og fjmrn. um þessi mál. Til grundvallar þeim viðræðum hefur legið mat ráðuneytisins á áhrifum hærra bensínverðs á verðlag og afkomu ríkissjóðs. Aðilar hafa verið sammála um að varanleg hækkun á bensínverði hefði veruleg áhrif á öllum sviðum efnahagslífsins og þar með talda tekjuskerðingu hjá ríkissjóði.
    Jafnframt finnst mér, virðulegi forseti, rétt að benda á að hagfræðingar og alþjóðlegar hagstofnanir hafa ítrekað varað við því að gripið sé til opinberra aðgerða í því skyni að greiða niður til langtíma hækkun olíuverðs til neytenda. Þessi sjónarmið komu m.a. fram í máli fulltrúa á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sl. haust. Í samþykktum ársfundarins segir m.a. að tilraunir til að halda niðri olíuverði í einstökum ríkjum með niðurgreiðslum eða verðlagshöftum eða að bæta upp hærra olíuverð með krónutöluhækkunum á kaupi muni aðeins efla verðbólgutilhneigingar í hagkerfi hvers ríkis og verða til þess að síðar meir yrði þörf á harðneskjulegri aðgerðum í peninga- og skattamálum en ella.
    Mér finnst nauðsynlegt að benda á þessa einróma

niðurstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna þeirrar orkukreppu sem hugsanlega kann að verða á næstu mánuðum og missirum.
    Ég tel, virðulegi forseti, ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um efnisatriði frv. og mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.