Umferðarlög
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég efast ekki um að gott eitt vakir fyrir flm. frv. og þeir vilji úrbætur á þessu sviði. Það er sannarlega full þörf á því að gera allt sem hugsanlegt er til þess að draga úr brotum á umferðarlagakerfinu, fækka umferðarslysum og þar fram eftir götunum. Ég held þó, þrátt fyrir það að þessi mál séu aldrei of rædd né of oft minnt á hve hættulegt er að aka ölvaður, að með flutningi þessa máls skjóti flm. yfir markið. Það er nefnilega miklu meira virði að framfylgja þeim lögum sem í gildi eru, oft og tíðum og yfirleitt, en að herða viðurlög, jafnvel úr hófi fram.
    Ég vek athygli á að ekki er einungis bannað nú að aka ökutæki með ákveðið áfengismagn í blóði. Einnig er bannað að neyta áfengis við akstur. Þessi regla hefur verið túlkuð þannig af dómstólum að bannað sé að aka bíl í beinu framhaldi af neyslu áfengis, enda þótt ekki sé um áfengismagn að ræða í blóði, þ.e. þá er kannski maður sem vill verja sig kvefi og sýpur á koníaki að morgni dags og fer svo beint út í bílinn og ekur orðinn brotlegur, jafnvel þótt hann hafi spýtt koníakinu út úr sér eftir munnskolun.
    Nú sagði hv. 1. flm. að frv. væri ekki flutt til þess að reyna að draga úr áfengisneyslu. Það ætti ekkert skylt við það að minnka áfengisneyslu. Þá virðist markmiðið aðeins vera að herða viðurlögin.
    Þá kom það fram í máli annars hv. alþm. hér að vel mætti þyngja refsingarnar. Og það er rétt að það liggur í landi hér á hv. Alþingi, ef eitthvað ber út af í ýmsum efnum, að þá sé það eitt ráð og heillaráð að herða viðurlög af öllum mætti. Þetta tel ég í mörgum tilfellum ekki hið rétta ráð. Það er miklu meira virði, ég endurtek það, að framfylgja þeim lögum sem í gildi eru. Og ég held að þau lög sem gilda í dag séu allströng að þessu leyti hér hjá okkur.
    Í þessu efni vek ég athygli á að nú erum við að fjalla um margvísleg málefni í fjvn. og þar er nú heldur betur hart lagt að mönnum að skera framlög til ýmissa mála við nögl. Ég hef orðið var við það að svo hart er gengið að löggæslumönnum og sýslumönnum í þessum efnum að þeim er hótað uppsögn ef þeir leyfa sér að fara krónu fram úr því fé sem þeim er ætlað til að sinna löglegum störfum. Það hefur verið haft orð á því í hv. fjvn. á undanförnum morgnum að skilyrðislaust ætti að stilla þessum sýslumönnum upp, bæjarfógetum og lögreglustjórum sem leyfa sér að fara krónu fram úr áætluðu fé sem þeir hafa til þess að sinna löglegum skyldustörfum sínum og reka þá, ef svo bar undir.
    Ég bendi á að það er alveg sama hvað þessi viðurlög eru hert mikið. Það kemst aldrei regla á þessi mál nema
löggæslumenn fái hóflegt fé til þess að sinna þeim og þar á meðal að það sé lifandi lögreglueftirlit í umferðinni sí og æ. Það sé haft vakandi auga með umferðinni og löggæslumönnum, þeim sem hafa þau störf á hendi, sé gert kleift að sinna skyldustörfum sínum að þessu leyti.