Friðarvika Sameinuðu þjóðanna
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1988 var gerð samþykkt þess efnis að sú vika sem innihéldi 11. nóv. yrði alþjóðleg vika vísinda í þágu friðar. Óhugnanlegt er að hugsa til þess að stærstu vísinda- og tækniuppgötvanir í heiminum hafa iðulega tengst þróun í framleiðslu á vígvélum, enda hafa ráðamenn ekki horft í peningana þegar vopn eru annars vegar. Það er löngu tímabært að hverfa af þessari braut og neyta til þess allra krafta. Með viku vísinda í þágu friðar gera Sameinuðu þjóðirnar tilraun til að brjóta upp þessa hugsun og fá vísinda- og tæknimenn til að skoða störf sín sérstaklega með tilliti til friðsamlegrar notkunar.
    Friðarvika þessi hefur verið haldin með einhverjum hætti í 20 til 30 ríkjum frá 1986. En eins og áður sagði var hún samþykkt árið 1988 hjá Sameinuðu þjóðunum sem alþjóðleg friðarvika.
    Aðalritari Sameinuðu þjóðanna beindi, í framhaldi af því, þeim tilmælum til ríkisstjórna aðildarríkjanna að sjá til þess að m.a. stofnanir eins og háskólar og aðrar menningar- og vísindastofnanir standi að fyrirlestrahaldi og umræðufundum þar sem rætt yrði með hvaða hætti hagnýta megi vísinda- og tækniframfarir í þágu friðar. Fyrirspurn var gerð hér á Alþingi þann 23. nóv. sl. um þetta efni og upplýsti hæstv. forsrh. þá að málið hefði aldrei borist hæstv. menntmrh., það hefði hvergi fundist í ráðuneytunum. Hins vegar kvaðst hæstv. forsrh. hafa formlega vakið athygli hæstv. menntmrh. á málinu og óskað þess um leið að því yrði sinnt í framtíðinni. Ekkert hefur þó frést enn af undirbúningi í þá veru að tilhlutan ráðuneytis menntamála.
    Því spyr ég hæstv. menntmrh.: ,,Á hvern hátt mun menntmrh. stuðla að þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðarviku Sameinuðu þjóðanna í nóvember nk.?``