Friðarvika Sameinuðu þjóðanna
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svar hans sem, eins og hann sjálfur gat um, var ekki fullnægjandi. Það er leitt að heyra um þá brotalöm sem er á því að utanrrn. komi því til skila til annarra ráðuneyta til hvers Sameinuðu þjóðirnar ætlast af þeim þjóðum sem eru innan vébanda þeirra. Hins vegar þykir mér aftur á móti gott að heyra að það er fyrirætlun menntmrh. að koma með nokkrum hætti til móts við þá samþykkt sem hér er til umræðu.
    Vissulega er gott og þarft að taka upp ár læsis en þetta er þriðja árið, árið í ár, sem ekkert sérstakt er gert til að fylgja eftir þeirri samþykkt að hafa alþjóðlega friðarviku og minnast þess hve rík þörf er hjá þjóðum fyrir að finna einhvern farveg fyrir friðarumræðu. Það blæs kannski byrlegar í þeim efnum nú eða hefur gert en oft áður þó vissulega séu yfirvofandi ýmsir þeir atburðir sem aftur á móti ekki orka til friðar. Ég held að það sé brýnt málefni að vekja upp á ný umræðu um frið í heiminum.