Verslunarfyrirtæki í dreifbýli
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda var nefnd skipuð á sl. ári til þess að gera athugun á afkomu og stöðu verslunarfyrirtækja í strjálbýli og til þess að gera tillögur um það hvernig bæta megi stöðu þeirra. Nefndin skilaði allítarlegu áliti 27. nóv. 1989 ásamt tillögum til úrbóta. Hún lagði þar áherslu á ráðgjafarþjónustu, á sameiningu og hagræðingu fyrirtækja, á bætta stöðu þeirra í skattalegu tilliti, ekki síst gagnvart skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er skemmst frá því að segja að ekki fékkst fjárveiting á fjárlögum yfirstandandi árs til þess að hrinda tillögum nefndarinnar í framkvæmd en það hefur verið leitað leiða til þess að byrja a.m.k. á fyrstu aðgerðum.
    Í frv. til fjáraukalaga, sem nú er til meðferðar hjá þinginu, er gert ráð fyrir 2 millj. kr. fjárveitingu til viðskrn. til þess að kosta ráðgjafarþjónustu fyrir verslun í strjálbýli en nefndin taldi einmitt slíka þjónustu mikilsverðan þátt í þeim aðgerðum sem hún gerði tillögur um.
    Ég vona að það fáist síðar nauðsynlegt fjármagn til þess að halda áfram aðgerðum til að treysta verslunarþjónustuna í strjálbýli, sem ég er sammála fyrirspyrjanda um að er eitt af grundvallarskilyrðum þess að byggðin dafni. Ég vænti þess líka að Byggðastofnun sýni málefnum verslunar- og þjónustufyrirtækja meiri áhuga og treysti á gott samstarf við hana. Ég nefni það líka að þeir sem áttu hlut að þessari nefnd, fulltrúa samtaka verslunar, verða hafðir með í ráðum þegar þessi ráðgjafarþjónusta, sem ég vona að þingið veiti fé til, hefur sín störf.