Almannatryggingar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Nú eru tvær eða þrjár vikur síðan hæstv. heilbrrh. kynnti endurskoðuð almannatryggingalög, eða frv. til þeirra, í fjölmiðlum og lagði þau fram til kynningar í þingflokkum stjórnar sinnar. Hins vegar hefur ekki verið gert neitt af hans hálfu til þess að drög þessi kæmu fyrir augu stjórnarandstöðunnar og þykir mér það miður. Þessi háttur sumra ráðherra, að kynna þingmál í fjölmiðlum áður en þau eru lögð fram á þingi, er vægast sagt mjög óviðfelldinn. Ekki er hægt að skoða hann öðruvísi en sem lítilsvirðingu við Alþingi.
    Sá tími sem liðinn er síðan ráðherra kynnti lagafrv. er orðinn um það bil þrjár vikur, eins og ég sagði áðan, og ekki er það enn komið á borð þingmanna. Eigi það að fá afgreiðslu fyrir jól, sem mér skilst að sé nauðsyn vegna fjárlaga, þá fer tíminn að verða naumur til að skoða svo viðamikið plagg. Auk þess bíða margir landsmanna þess að sjá hvort þetta frv. boði breytingar sem vonast hefur verið eftir að næðu fram að ganga um ýmis brýn réttindamál fólks. Því hef ég leyft mér á þskj. 27 að beina þeirri spurningu til hæstv. heilbr. - og trmrh. hvenær megi vænta þess að nýtt frv. um almannatryggingar verði lagt fram á Alþingi.