Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Frá og með 1. júní sl. hætti félmrn. að endurnýja samninga við stuðningsfjölskyldur á þeirri forsendu að fé það sem áætlað var til þessa málsliðar væri uppurið. Þrátt fyrir að þessu hafi verið kippt í liðinn frá og með 1. ágúst til 1. nóv. hefur greiðsla verið skert úr því að vera fyrir fimm sólarhringa á mánuði niður í þrjá og var þó þessi greiðsla grátlega lág fyrir. Jafnframt er óvissa um framhald greiðslu eftir 1. nóv., sem er nú í dag.
    Þessi hringlandaháttur hefur valdið foreldrum fatlaðra barna miklum óþægindum og hefur jafnvel orðið þess valdandi að stuðningsfjölskyldur hafa íhugað að hætta. Þetta veldur svæðisstjórnum einnig ómældum erfiðleikum þar sem alls ekki er auðvelt að útvega stuðningsfjölskyldur sem fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru. Eftirsókn eftir þessari aðstoð frá foreldrum fatlaðra barna fer vaxandi og mikil nauðsyn að henni sé sinnt. Foreldrum er þessi aðstoð ómetanleg og oft eina úrlausnin sem þau hafa til vistunar barna sinna.
    Þessi börn eru í hættu að einangrast frá öðrum börnum og þeim venjulegu daglegu samskiptum sem heilbrigð börn eiga við samfélagið. Þeim er nauðsyn að kynnast öðrum heimilum en sínu eigin og foreldrum er oft brýn þörf á hvíld, þó ekki sé nema dag og dag, frá erfiðri og krefjandi umönnun.
    Ég veit að það er vilji hæstv. ráðherra að komið sé til móts við þessar þarfir. Hins vegar gerir sú óvissa, sem ríkir um þessi mál, svæðisstjórnum mjög erfitt um skipulagningu starfsins í þessum geira og foreldrar bíða milli vonar og ótta um hvernig mál þeirra skipist. Því hef ég leyft mér á þskj. 65, að spyrja hæstv. félmrh. eftirfarandi spurninga:
 ,,1. Hvers vegna hætti félmrn. að endurnýja samninga við stuðningsfjölskyldur fatlaðra barna 1. júní sl.?
    2. Hvers mega stuðningsfjölskyldur og fjölskyldur fatlaðra vænta 1. nóv., þegar núverandi millibilsástandi lýkur?``