Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegur forseti. Sem svar við fsp. á þskj. 65 um greiðslur til stuðningsfjölskyldna fatlaðra barna, frá hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur og Málmfríði Sigurðardóttur, vil ég segja eftirfarandi:
    Fjárheimild fjárlagaliðarins Vistanir, sem ætlaður er til greiðslu á samningum við stuðningsfjölskyldur fatlaðra, er á fjárlögum þessa árs tæpar 3 millj. kr. Þessi upphæð var byggð á reynslu ársins 1988 enda lá ekki fyrir sú mikla aukning sem varð á árinu 1989 þegar fjárlagatillögur vegna þessa árs voru unnar en milli áranna 1988 og 1989 hækkuðu þessar greiðslur um rúmlega 200%.
    Í júní sl. höfðu verið greiddar 5,6 millj. kr. vegna samninga við stuðningsfjölskyldur. Þegar það lá fyrir tilkynnti ráðuneytið með bréfi dags. 25. júní til svæðisstjórna um málefni fatlaðra að ráðuneytið sæi sér ekki fært að samþykkja frekari greiðslur til stuðningsfjölskyldna. Með hliðsjón af breyttri meðferð og hertum reglum varðandi aukafjárveitingar taldi ráðuneytið ekki annað fært en að bregðast svo við. Í bréfinu var tekið fram að þessi ráðstöfun hefði ekki áhrif á samninga sem þegar höfðu verið samþykktir. Þessi ákvörðun þýddi hins vegar að þeir samningar sem voru með gildistíma til 30. júní sl. yrðu ekki endurnýjaðir fyrst um sinn. Alls var um að ræða 20 -- 25 samninga en í maímánuði var greitt vegna 95 -- 100 samninga. Í júlímánuði var leitað leiða til lausnar þessu máli. Var það m.a. rætt við greiðsludeild fjmrn., þar sem vænta mátti greiðslustöðvunar, í ljósi þess að greiðslustaða viðfangsefnisins var komin langt umfram fjárheimild. Eftir þær viðræður, þar sem boðað var að sótt yrði um aukafjárveitingu vegna þessa viðfangsefnis, tilkynnti ráðuneytið með bréfi til svæðisstjórna þann 28. ágúst að það heimilaði endurnýjun samninga frá 1. ágúst með þeim takmörkunum að aðeins yrði samið um þriggja sólarhringa vistun í mánuði á tímabilinu 1. ágúst -- 31. okt., en það er meginregla reglugerðarinnar um stuðningsfjölskyldur.
    Í þessu sambandi má benda á að í nefndri grein er heimilað að semja um lengri dvöl enda fari sú dvöl ekki fram yfir 15 sólarhringa á þriggja mánaða tímabili. Þróun undanfarinna mánaða hefur hins vegar verið sú að þessi heimild til að víkja frá þriggja sólarhringa vistun í mánuði var orðin að meginreglu. Þannig hljóðuðu 70 -- 75% allra samninga á tímabilinu janúar -- júní á þessu ári upp á fimm sólarhringa vistun í mánuði. Ljóst er að þessi þáttur í framkvæmd reglugerðarinnar hefur vegið þyngst í því að greiðslur hafa orðið mun meiri en ráðuneytið hefur ætlað.
    Í frv. til fjáraukalaga sem nú er til meðferðar í þinginu er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 5,8 millj. kr. vegna vistana. Með þeirri fjárhæð er hægt að framlengja alla samninga til áramóta miðað við þriggja sólarhringa vistun í mánuði, eins og meginregla reglugerðarinnar kveður á um. Ráðuneytið mun einnig, þegar nauðsyn krefur, heimila á þessu tímabili fjögurra sólarhringa vistun sem reynt verður að finna svigrúm

til innan annarra fjárlagaliða ráðuneytisins á yfirstandandi ári til að ekki þurfi að koma til frekari aukafjárveitinga.
    Reglugerð um stuðningsfjölskyldur fatlaðra er nú í endurskoðun og er unnið að því að tryggja fjármagn á næsta ári sem tryggir að ekki verði um skerðingu á þessari þjónustu að ræða frá því sem verið hefur. Stefna ráðuneytisins í þessu máli er að efla þennan þjónustuþátt við aðstandendur fatlaðra ungmenna eins og kostur er og fjárheimildir hverju sinni leyfa. Mikilvægið er ótvírætt og felst ekki síst í því, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, að þjónusta stuðningsfjölskyldna léttir álagi af mörgum aðstandendum fatlaðra barna og gerir þeim þannig kleift að hafa börn sín lengur í heimahúsum en ella. Því er mjög mikilvægt að tilskilið fjármagn fáist til að ekki þurfi að koma til þeirrar skerðingar á næsta ári sem þurfti að grípa til á þessu ári og að því er nú unnið í ráðuneytinu.