Flugmálaáætlun
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Þetta mál var nú á dagskrá í utandagskrárumræðu fyrir nokkru síðan og í raun hið sama efni rætt þá. Enn fremur hafa fundir verið haldnir með fjvn. og þingmönnum þannig að ég vænti þess nú að málið hafi eitthvað skýrst frá því sem var þegar fyrirspurnin var borin fram. Það er engu að síður ljúft og skylt að svara henni. Þar vil ég fyrir það fyrsta segja og taka fram að engar endanlegar ákvarðanir hafa enn verið teknar þar sem hér eru á ferðinni tillögur frá Flugmálastjórn um það hvernig sé vænlegast að bregðast við breyttum forsendum og þeirri stöðu sem upp er komin varðandi framkvæmdir í einstökum tilvikum.
    Þar er í raun og veru fyrst og fremst um nokkrar tilfærslur að ræða innan þess tveggja ára tímabils sem flugmálaáætlunin tekur yfir og skipt er á framkvæmdir. Þegar upp er staðið yrði um tiltölulega litlar breytingar að ræða í framkvæmdum þegar tímabilið í heild væri skoðað. Það er jafnan svo að um einhverjar slíkar tilfærslur, vegna uppákoma sem verða vegna breyttra aðstæðna, er jafnan að ræða jafnvel þó tiltölulega nákvæmar framkvæmdaáætlanir liggi fyrir og svo hefur lengst af verið, t.d. bæði um vegamál, flugmál og fleira. Að sjálfsögðu er æskilegast að fylgja fram sem allra mest og nákvæmlegast framkvæmdaáætlun hvers árs, en ég hygg að hv. alþm. þekki það af eigin raun að gjarnan þarf þó að viðhafa einhvern sveigjanleik í þessum efnum vegna breyttra aðstæðna. Ég ræddi það nokkuð síðast hvað þarna hefði helst komið til sem gerir það að verkum að Flugmálastjórn leggur til nokkra tilfærslu og fjölyrði ekki um það. En í fæstum tilvikum, og ekki nema að mjög litlu leyti hvað upphæðirnar snertir, er verið að leggja til varanlegar breytingar á framkvæmdum. Þó gæti það verið skynsamlegt að bera undir Alþingi og afla þá heimildar til þess að fella alveg út tilteknar framkvæmdir þar sem mönnum sýnist að breyttar aðstæður geri það að verkum að ástæða sé til að endurskoða framkvæmdaáætlun.
    Það hafa sem sagt engar endanlegar ákvarðanir verið teknar. Flugmálastjórn er hér að leggja til ákveðnar tilfærslur og lagfæringar vegna breyttra forsendna. Telji menn ástæðu til að afla samþykkis fyrir slíku með formlegri afgreiðslu fyrir breytingum eða viðauka við gildandi flugmálaáætlun, þá stendur að sjálfsögðu ekki á samgrn. að undirbúa slíkt, en ég hygg nú að það sé matsatriði hvort hér sé um svo veigamiklar tilfærslur að ræða að ástæða sé til slíks. En þá yrði sem sagt heimilda aflað, ef það þætti nauðsynlegt, og svara ég þannig seinni spurningu hv. fyrirspyrjanda.