Sumarvegur um Sprengisand
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Það er nú svolítið vont að þurfa að koma hér upp og gera aðeins stutta athugasemd við þær fullyrðingar sem hafa komið fram í báðum ræðum fyrirspyrjanda. T.d. það að eitthvert fé glatist þó að lagður verði línuvegur um hálendið vegna fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar Landsvirkjunar. Ég veit ekki til þess að eitt eða neitt fé hafi glatast þó að línuvegur hafi verið lagður frá Sigöldu niður í Borgarfjörð eða í Hvalfjörð. Hann er þar og gerði ekki mikil umhverfisspjöll, herra ráðherra. Þessi mikli áhugi þingmanna Norðurl. e., sumra hverra, á að koma á samgöngum yfir hálendið finnst mér að hljóti að vera af einhverjum öðrum toga en að verið sé að hugsa um það að spara. Ekki virðist hann vera af þeim toga að byggja upp Öxnadalsheiði eða Öxnadal eða koma því til leiðar að vegurinn um Norðurárdal á leiðinni norður til Akureyrar verði byggður upp. Getur verið að það sé af því að Akureyringar eða aðrir á Norðurl. e. kæri sig ekkert um að hafa samband við Skagfirðinga, Húnvetninga eða Vestlendinga og æskilegt sé að byggja upp samgönguleið sem fari fram hjá þessum svæðum, hvað þá þegar hugmyndin kemur nú á þann veg að þessi hálendisvegur liggi líka ofan á Hérað, þá geta Norðlendingar sleppt því alveg að hafa nokkur viðskipti við Sunnlendinga. Að brotið sé blað í sögu samgöngumála og ferðamála með aðgerð sem hér er verið að leggja til finnst mér náttúrlega alveg fráleitt. Ef við viljum byggja upp ferðamál á Íslandi þurfum við fyrst og fremst að byggja upp landið, hringinn, landið allt, ekki leggja neina sérstaka áherslu á það að komast sem stysta leið milli Mývatns, Landmannalauga og Gullfoss. Ég hélt að átroðningurinn á þeim svæðum væri nógu mikill fyrir þótt ekki væri verið að bæta og byggja upp, flýta þeim möguleika sem einhvern tíma getur komið í framtíðinni að það verði hálendisvegur. Fyrst þarf að leysa vandamálin í kringum Mývatn, Landmannalaugar, Gullfoss, Geysi og Þingvelli áður en verður farið að flýta málum á þann veg að þarna verði átroðningur enn þá meiri en er í dag.