Sumarvegur um Sprengisand
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
     Hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að það hefur oft áður komið fram af minni hálfu þegar þessi mál hafa verið rædd, tengist vegalagningu yfir hálendið, að það mál er ekki á forgangsverkefnalista í íslenskum vegamálum, ósköp einfaldlega vegna þess að það hafa ekki af hálfu Alþingis, hvorki í vegáætlunum til skemmri tíma né í langtímaáætlunum, verið áform um stórfelldar fjárveitingar til þessara framkvæmda. Að sjálfsögðu erum við á Vegagerð ríkisins og í samgrn. þess vegna að vinna að þessum málum út frá þeim ákvörðunum sem Alþingi hefur tekið á liðnum árum um forgangsröðun verkefna í vegamálum. Þar eru ekki inni fjárveitingar svo að neinu nemi í þessi verkefni. Þess vegna höfum við litið á það sem eðlilegri hlut að við reyndum að koma þessum sjónarmiðum að í sambandi við hönnun og skipulagningu og undirbúning þessara mála en létum allt sem héti ákvörðun um fjárveitingu, eðli málsins samkvæmt, bíða þess að Alþingi tæki á því hvort og þá í hvað miklum mæli það vill láta peninga í þessi verkefni. Þannig stendur það. Ég tek fram að ég tel auðvitað mjög æskilegt að sem best samstarf takist milli Landsvirkjunar og Vegagerðar ríkisins um hönnun og skipulagningu þessa samgöngukerfis á hálendinu, sem er í vaxandi mæli að verða það umfangsmikið að ástæða væri til að taka á því máli sérstaklega og gera alveg sérstakt skipulag um þessar vegarslóðir um hálendið. Línuvegirnir verða væntanlega lagðir fyrr eða síðar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er viss galli í stjórnkerfinu hvað þetta snertir að Vegagerð ríkisins, sem að mínu mati á og þarf að vera hinn eini stóri samræmingaraðili þessara mála, hefur ekki lögsögu í sjálfu sér yfir því hvernig Landsvirkjun eða aðrir slíkir aðilar haga sinni vegalagningu. Það er fyrst og fremst iðnrn. sem samþykkir framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar og síðan þá Náttúruverndarráð eða umhvrn. sem hefur, miðað við núverandi skipulag, yfir því að segja. Þetta höfum við rætt í samskiptum milli þessara aðila að þarna þurfi að koma á betra sambandi. Og ég held að það breyti engu um það þó að við komum á þessu samstarfi. Eftir sem áður er þörfin fyrir uppbyggingu hringvegarins og hins almenna vegakerfis í byggð jafnmikil.
    Við verðum samt að horfast í augu við þá staðreynd að umferðin á hálendinu er vaxandi ár frá ári, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Spurningin er því þessi: Hvernig eru vegirnir sem hún er á, hvernig eru þeir lagðir, hvernig eru þeir skipulagðir og kannski að einhverju leyti hve snemma á vorin opnast þeir og hve seint á haustin lokast þeir? Það getur ráðist dálítið af því hvað lagt er í þessa vegi, en enn sem komið er hef ég ekki heyrt neinn tala um annað en sumarsamgöngur á þessu svæði. Ég lít nú svo á að um það sé enn þá alger samstaða að ekki sé á dagskrá að fara út í einhver ævintýri af því tagi að hugsa þarna um heilsárssamgöngur. Ég tel því þrátt fyrir allt að um þetta sé ekki mikill skoðanaágreiningur í reynd í þjóðfélaginu og spurningin snúi meira að því hvernig að þessum málum er staðið skipulagslega og hvernig framtíðin á þessu sviði er undirbúin. En ég vil leggja á það áherslu, sem ég hef reyndar komið hér inn á áður, að ég tel nauðsynlegt að taka á þessum málum skipulagslega séð og þar þurfi aðilar eins og iðnrn. og orkufyrirtækin, samgrn. og Vegagerðin og umhvrn. og Náttúruverndarráð að taka höndum saman til þess að afstýra því að þetta vegakerfi á miðhálendi landsins verði meira hrafnaspark en orðið er.