Skógræktarátak
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Sem svar vil ég segja almennt að tekist hefur á þessum árum sem um er að ræða og stefnir áfram í á árinu 1991 að auka talsvert heildarfjárframlög til skógræktar, en hins vegar má segja að þær fjárveitingar hafi farið að nokkru leyti í annan farveg en fyrirheit í stjórnarsáttmála gerðu ráð fyrir og tel ég eðlilegast að viðurkenna það hreinskilnislega og gera grein fyrir hvernig það hefur þróast.
    Þannig er að ný verkefni og ný átök hafa fengið mest af þeirri aukningu sem hér um ræðir. Á ég þar sérstaklega við skógræktarátak á Fljótsdalshéraði. Ég vænti þess að menn muni meta það að verðleikum þó svo að þar sé um að ræða nokkuð annan farveg fyrir fjárveitingarnar en upphaflega voru hugmyndir um þegar málefnasáttmáli ríkisstjórnarinnar var skráður á haustmánuðum 1988.
    Aukið hefur verið nokkuð við fjárveitingu til Skógræktar ríkisins og hefur sú aukning farið ekki síst til ýmiss konar sérverkefna, bæði rannsóknaverkefna og tilraunaverkefna, en að nokkru leyti runnið til Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá.
    Fjárveitingar í gegnum landgræðslu- og landverndaráætlun og Landgræðslusjóð eru sem hér segir á þeim árum sem hv. fyrirspyrjandi spyr um, þ.e. landgræðsluáætlun, og hlutur Skógræktar ríkisins í henni, er árið 1989 12 millj. 300 þús. kr., árið 1990 15 millj. 273 þús. kr. og í frv. fyrir árið 1991 16 millj. kr. Af þessum fjárveitingum renna 20% til skógræktarfélaga.
    Landgræðslusjóður hefur á sömu árum fengið 2 millj. 45 þús. kr. árið 1989, 3 millj. 724 þús. kr. árið 1990 og árið 1991 er í frv. gert ráð fyrir 3 millj. kr. Þessar fjárveitingar úr Landgræðslusjóði renna 100% til skógræktarfélaga, eitthvað um 40 -- 45 skógræktarfélaga, á árunum 1989 væntanlega til og með árinu 1991.
    Síðan er, undir liðnum Landbúnaðarmál, ýmis starfsemi, fjárveiting til Skógræktarfélags Íslands. Á árinu 1989 fékk Skógræktarfélagið 1270 þús. kr., árið 1990 1480 þús. kr. og í frv. ársins 1991 er gert ráð fyrir 1580 þús. kr. Þá má nefna að landgræðsluskógaátakið er með fjárveitingu á þessu ári upp á 653 þús. kr. Skógræktarátak á Fljótsdalshéraði hefur hins vegar fengið í aukafjárveitingu á árinu 1989 6 millj. 56 þús. kr., á fjárlögum ársins 1990 og með viðbótarfjárveitingu af óskiptum fjárlagalið ríkisstjórnar samtals 24 millj. 700 þús. kr. og í frv. ársins 1991 var samkomulag orðið um að talan sem inn í frv. kæmi yrði a.m.k. 25 millj. kr., en fyrir ákveðin mistök í vinnslu stendur talan 15 millj. 710 þús. Í greinargerð fjárlagafrv. er hins vegar gerð grein fyrir því samkomulagi sem orðið var um hærri fjárveitingu.
    Aukningin hefur sem sagt fyrst og fremst komið fram á þessum fjárlagalið og landgræðsluskógaátaksins. Þess má svo til gamans geta að líklegur árangur af hinni miklu söfnun Átaks 1990, landgræðsluskóga á árinu er um 50 millj. kr. og fyrir það söfnunarfé

hafa þegar verið gróðursettar um 1,3 millj. plantna og í framleiðslu eru um 1,1 millj. plantna sem verða gróðursettar næsta vor og sumar.
    Ég vona að ég hafi að einhverju leyti svarað fsp. hv. þm. Ég get sannarlega viðurkennt að ég hefði gjarnan viljað sjá enn þá meira ávinnast í þessum efnum, en þó hefur, eins og ég sagði, tekist að auka allverulega fjárveitingar til skógræktarmála á þessu tímabili, þó að viðurkenna megi að þær fjárveitingar hafi að nokkru leyti farið í annan farveg en gert var ráð fyrir. Ég minni þó á að í stjórnarsáttmálanum eru nefndir einstaklingar og félagasamtök og það er nákvæmlega það sem á við um bæði skógræktarátökin á Fljótsdalshéraði og asparskógatilraunir og verkefni á Suðurlandi. Þau eru unnin í góðri samvinnu við einstaklinga, þ.e. bændur og gróðrarstöðvar og samtök þessara aðila.