Skógræktarátak
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og ég þakka honum líka fyrir þá hreinskilni að viðurkenna að við þetta loforð sem gefið var í málefnasamningi hefur ekki verið staðið. Það er að vísu rétt að komið hafa auknar fjárveitingar til skógræktar en þeim hefur verið beint í annan farveg en upphaflega var lofað, þ.e. fyrst og fremst í skógræktarátak á Fljótsdalshéraði og önnur verkefni sem hæstv. ráðherra nefndi.
    Það kemur glögglega fram af þeim tölum sem hæstv. ráðherra bar hér fram að þáttur ríkisins í þessu mikla skógræktarátaki Skógræktarfélags Íslands hefur verið sáralítill. Það eru 50 millj. sem söfnuðust frá einstaklingum en ekki nema tiltölulega lítil fjárhæð sem hefur komið frá ríkinu. Það sakar ekki að geta þess í þessu sambandi að ríkið hefur innheimt um 7 millj. kr. í virðisaukaskatt af þeim trjáplöntum sem ræktaðar hafa verið og settar í þetta skógræktarátak. Hér hefur því verið um nettó tekjulind fyrir ríkissjóð að ræða þrátt fyrir það að maður hefði ætlað hið gagnstæða miðað við það sem lofað var í upphafi.