Vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Flm. (Matthías Bjarnason ):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram till. til þál. um vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð. Þessi tillaga er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að framkvæmdir við vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð hefjist af fullum krafti vorið 1992. Þegar verði hafist handa um að ljúka forhönnun þessara framkvæmda og í framhaldi af því að undirbúa útboð.
    Við endurskoðun vegáætlunar á þessu þingi verði gert ráð fyrir þessum framkvæmdum og áhersla lögð á að þeim ljúki á þremur árum.``
    Ég flyt þessa tillögu til að leggja áherslu á að tími sé kominn til að hefja framkvæmdir og taka inn á vegáætlun vegar - og brúargerð yfir Gilsfjörð. Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi í alllangan tíma. Alþingi hefur veitt fé til rannsókna á brúar - og vegarstæði yfir Gilsfjörð allt frá árinu 1985 og þessar rannsóknir hafa staðið yfir síðan og verið allítarlegar. Hins vegar hefur það komið fram á fjölmörgum fundum þingmanna Vestfirðinga og Vestlendinga að þeir hafi talið að ekki væri hægt að fara í þessar framkvæmdir af fullum krafti fyrr en lokið væri að mestu þeirri stórframkvæmd sem nú stendur yfir með brúar - og vegargerð yfir Dýrafjörð.
    Á sl. vetri komu sendimenn úr Austur - Barðastrandarsýslu á fund þingmanna þessara beggja kjördæma og þá tók ég fram fyrir mitt leyti, og mér skildist að aðrir þingmenn tækju undir það, að ekki kæmi til greina að hægt væri að útvega fjármagn til þessara framkvæmda fyrr en lokið væri að mestu eða að verulegu leyti við framkvæmdirnar í Dýrafirði því að við gætum ekki búist við að farið yrði jafnhliða jarðgangagerðinni í tvö önnur stórverkefni samhliða.
    Nú er málum svo komið að búið er að byggja brú yfir Dýrafjörð og hafin er af fullum krafti uppfylling á vegi yfir fjörðinn. Aðalfjármunir í þetta verkefni hafa verið á þessu ári og sömuleiðis á næsta ári. Það er talið að þessari framkvæmd muni verða lokið seint á næsta hausti að öðru leyti en því að eftir er þá að leggja bundið slitlag sem gert verður árið 1992.
    Íbúar Austur - Barðastrandarsýslu hafa mjög kvartað yfir lélegum vegi fyrir Gilsfjörð og sýnt mikinn áhuga á vegar - og brúargerð yfir fjörðinn. Tvær leiðir hafa verið kannaðar. Sú fyrri var að byggja veg frá Kaldrana í Króksfjarðarnes sem er 48 km, frá Ólafsdal að svokölluðum Digramúla sem er 16,8 km vegalengd. Þessar vegalengdir eru miðaðar við Króksfjarðarnes í Reykhólahreppi og Neðri - Brunná í Saurbæjarhreppi. Vegurinn fyrir Gilsfjörð er hins vegar 24,9 km á milli þessara staða sem ég hér nefndi.
    Ég vísa til greinargerðar með þessari tillögu um þær rannsóknir sem unnið hefur verið að á undanförnum árum. Þar er byggt á umsögn sem Vegagerðin lét mér í té og unnin var af Jóni Helgasyni yfirverkfræðingi. Allt bendir til þess að ekkert sé því til fyrirstöðu, tæknilega séð, að hefja þessar framkvæmdir á árinu 1992. Mín skoðun er sú að ekki komi til

greina nema ein leið, þ.e. frá Kaldrana í Króksfjarðarnes, en það mun stytta þessa vegalengd fyrir fjörðinn um tæpa 17 km eða nákvæmlega 16,9 km.
    Þó að fjármagn vanti víða til vegagerðar held ég að langmikilvægast af öllu sé að búa þannig um hnútana að hægt verði að fara í framkvæmd sem þessa. Það er mikil samvinna á milli Austur - Barðastrandarsýslu, eða Reykhólahrepps, og Dalasýslu. Barðstrendingar þurfa að sækja alla læknishjálp til Búðardals og læknar í Búðardal verða að inna þar af hendi þjónustu við Heilsugæslustöðina á Reykhólum. Enn fremur eru margvísleg önnur og vaxandi samskipti á milli þessara tveggja héraða á öðrum sviðum, bæði hvað varðar mjólkurflutninga og eiginlega öll hugsanleg félagsleg samskipti á milli þessara sýslna.
    Ég vil benda á það að vegurinn um Gilsfjörð þarfnast mikilla endurbóta og byggja þarf brýr þar fyrir ef ekki verður farin þessi sjálfsagða leið að stytta veginn um 17 km. Þessi vegur er ónýtur að kalla og verður ekki hjá því komist að leggja í hann stórfé. Gilsfjörður er mikill farartálmi og einmitt nú, eftir að þing hófst, ók ég þessa leið og þrátt fyrir það að við höfum nú lifað eitthvert besta haust sem hefur komið var töluverð ófærð
á Svínadal, fyrir Gilsfjörð og í Reykhólasveitina þá daga sem ég var þar á ferð. Þá sannfærðist ég einu sinni enn um það hve brýnt verkefni er að leysa úr því öngþveiti sem oftast skapast í samgöngum milli þessara staða.
    Ég vil taka fram að íbúar Austur - Barðastrandarsýslu hafa tekið þessum málum af mikilli þolinmæði og sett sig í spor þeirra sem eru að bíða eftir framkvæmdum. En ég vil líka benda á að þó að góður flugvöllur hafi verið byggður á Reykhólum, þá er ekkert áætlunarflug þangað heldur er hann fyrst og fremst öryggisvöllur þegar eitthvað kemur fyrir og einu samgöngur þessa landshluta við akvegakerfið og við höfuðborgina eru fyrir Gilsfjörð. Þetta er langerfiðasti farartálminn á þessari leið allri.
    Það hafa orðið afar miklar breytingar á vegagerð og slitlagsframkvæmdum. Frá Reykjavík og upp í Borgarfjörð er nú komið alveg samfellt slitlag. Miklar framkvæmdir hafa verið í Dalasýslu á undanförnum árum en á tvo kafla er nú eftir að leggja slitlag, þ.e. yfir Bröttubrekku og á verulegan kafla Svínadals. Í Reykhólasveit hefur verið lögð klæðning á vegi en eftir er kafli frá Hólum og í Króksfjarðarnes og þessi kafli sem hér er um að ræða að Neðri - Brunná í Dölum.
    Ég vænti þess og treysti því að hæstv. samgrh. leggi þessu máli lið og fylgi því eftir að taka þetta upp. Þetta mál er flutt í þeim tilgangi að framkvæmdir við að stytta vegi, eins og gert hefur verið og er verið að gera í Dýrafirði og lagt er til með þessari till., verði ekki stöðvaðar. Í því felst mjög mikill sparnaður. Hér er um snjóþunga vegi að ræða sem er erfitt að halda opnum og vetrarviðhald því mjög dýrt. Því er skynsamlegt allra hluta vegna að hraða þessum framkvæmdum. Hér er um framkvæmdir að ræða sem fólkið á þessu svæði er búið að krefjast og biðja

um með undirskriftasöfnun, ekki einu sinni heldur margoft. En við þingmenn höfum ekki treyst okkur til að leggja á það áherslu fyrr en eftir næsta ár að verkefnum við Dýrafjörð verður að mestu lokið.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari fyrri umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. fjvn.