Læknisþjónusta á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Flm. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram till. til þál. um læknisþjónustu á landsbyggðinni. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkistjórninni að ganga nú þegar svo frá hnútum að fullnægt sé læknisþjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu.``
    Það hefur sýnt sig að á undanförnum árum hefur orðið erfiðara að manna ýmis læknishéruð í dreifbýli landsins. Ég nefni í greinargerðinni staði eins og Þingeyri, Flateyri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörð, Fáskrúðsfjörð og Djúpavog. Þetta veldur fólki sem býr á þessum svæðum miklum áhyggjum og það er órói ríkjandi að búa við slíkt öryggisleysi á síðustu árum 20. aldarinnar að fólk hafi ekki lækni.
    Þessum áhyggjum hefur verið lýst yfir með undirskriftasöfnunum á hinum ýmsu stöðum. M.a. fékk ég sendan undirskriftalista í júníbyrjun frá íbúum í Þingeyrar - og Mýrahreppi um það að þeir uni ekki öllu lengur að búa við það ófremdarástand að hafa ekki lækni og hjúkrunarfræðing búsettan og starfandi á staðnum. Þeir benda á það, þessir íbúar, að á sl. vetri hafi ekki verið fært á milli fjarða svo vikum skipti þannig að lítið öryggi var í því þó læknir væri starfandi á næsta firði. Og þeir enda þetta bænarskjal sitt á því að skora á heilbrigðisyfirvöld og heilbrrh. að ráða bót á þessu vandamáli hið allra bráðasta. Undir þennan lista skrifa 236 manns í þessum tveimur hreppum. Þetta sýnir mjög glöggt að áhyggjur fólksins sem þarna býr eru miklar. Það hefur lækni kannski eina, tvær, jafnvel upp í þrjár vikur og síðan hverfur hann. Þá er bent á lækni á einhverjum öðrum stað sem á að þjóna og það við þær aðstæður sem eru.
    Það eru auðvitað til ýmsar lausnir á þessum vanda. Í fyrsta lagi að hækka laun þeirra lækna sem störfum gegna í áðurnefndum héruðum. Í öðru lagi má sameina læknishéruð. í þriðja lagi mætti hugsa sér að breyta H1 - stöðvunum í H2 - stöðvar þannig að þar starfi minnst tveir læknar hverju sinni. En hitt er alveg ljóst, og raunar þarf ekki að taka það fram, að það þarf launahækkun til lækna sem vinna á þessum H1 - stöðvum. Það er eðlilegt og sanngjarnt að miða við laun aðstoðarlækna á sjúkrahúsum sem gegna vaktastörfum en taka um leið tillit til þess að þessir menn vinna einir og þurfa í raun og veru að vera á vakt allan sólarhringinn.
    Í ráðuneytum, bæði heilbrrn. og fjmrn., liggja frammi hugmyndir sem settar hafa verið fram af fulltrúa kjaranefndar heimilislækna í samráði við lækna í einmenningshéruðum. Þessar hugmyndir miðast við að laun heilsugæslulækna skuli miðuð við laun yfirlækna á sjúkrahúsum sem hafa, eins og flestir heilsugæslulæknar í dag, jafnlangt sérnám að baki. Auk þess sinna heilsugæslulæknar stjórnunarstörfum hver í sínu héraði hvað varðar heilbrigðismál og heilsugæslu og hafa þar af leiðandi heilmikla ábyrgð hvað varðar þessa þætti.
    Nú er ekki svo málum komið að samfélagið hafi

gleymt þessum stöðum því með lögunum um heilbrigðisþjónustu sem Alþingi samþykkti 1973 og komu til framkvæmda 1. jan. 1974 var lögð áhersla á það að byggja upp heilsugæslustarfsemi úti um landið. Það viðamikla verkefni var framkvæmt á tiltölulega skömmum tíma þannig að það var gerbylting hvað snertir aðstöðu fyrir lækna og aðrar heilbrigðisstéttir að vinna í þessum heilsugæsluumdæmum. Það er því ekki það sem gerir það að verkum að starfandi læknar fást ekki á þessar H1 - stöðvar, sem ég legg hér áherslu á, heldur hitt að launakjörin eru með þeim hætti að menn sækja frekar í störf á þéttbýlissvæðunum en að fara út í þetta strjálbýli heilsugæslustöðvar H1. Því verður að bregðast þarna við. Menn mega ekki draga fæturna svo mánuðum og jafnvel árum skiptir við að gera þarna úrbætur því það fólk sem byggir þessi svæði á fullkomlega rétt til þess að njóta þeirrar þjónustu sem löggjafinn sjálfur ætlaðist til þegar lögin um heilbrigðisþjónustu voru sett. Ég man svo langt að allir þeir þingmenn sem töluðu þegar það frv. var flutt lögðu einmitt áherslu á þennan sameiginlega rétt allra landsmanna. En rétturinn er í raun og veru enginn ef það er ekki vinnandi vegur fyrir menn að fara út í þessi læknishéruð, út í þessar heilsugæslustöðvar, nema bera minna úr býtum en þeir hafa hér í þéttbýlinu.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. félmn.