Flm. (Ellert Eiríksson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 48 um flutning varnarmálaskrifstofu utanrrn. Meðflm. mínir eru hv. 2. þm. Reykn. Ólafur G. Einarsson, hv. 6. þm. Reykn. Salome Þorkelsdóttir og hv. 11. þm. Reykn. Hreggviður Jónsson. Þetta eru þingmenn Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta flytja svo fljótt sem kostur er varnarmálaskrifstofu utanrrn. frá núverandi aðsetri til Keflavíkur.``
    Tillögunni fylgir greinargerð þar sem gerð er ítarleg grein fyrir verkefnum skrifstofunnar og er vísað þar í mörg lög og lagabálka er varða framkvæmd varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna.
    Það hefur löngum verið kappsmál margra íbúa utan höfuðborgarinnar að fá í sitt heimahérað starfsemi ríkisstofnana og jafnvel ráðuneyta. Nokkur hreyfing virðist nú vera um þessar mundir í þá átt. Norðlendingar t.d. sækjast eftir öflugri háskóla og telja að hið nýstofnaða umhvrn. mundi sóma sér vel á Akureyri. Hvers konar fjarvinnsla og nýtískutækni gerir hluti framkvæmanlega í dag sem útilokaðir voru fyrir fáum árum. Og vel má taka undir með Norðlendingum í þessu efni án þess að gera lítið úr eða hallmæla höfuðborginni. Ríkisvaldið þarf að flytja umsvif hins opinbera frá Reykjavíkurkjördæmi í önnur.
    Reykjaneskjördæmi hefur góða möguleika á móttöku opinberra stofnana. Þar eru mörg öflug sveitarfélög og þéttbýliskjarnar og samgöngur ágætar. Nýlegar kannanir sýna að aðalvandi margra þéttbýlisstaða er atvinnuleysi kvenna. Eðli málsins samkvæmt sækja konur í þjónustustörf frekar en stóriðnað og þungaiðnað. Það er því augljóst hagsmunamál kvenna og margra byggðarlaga að framboð verði aukið á þjónustustörfum og léttari iðnaði, jafnt af hálfu ríkisvaldsins sem og einkarekstursins. Þar kemur flutningur ríkisstofnana sterklega til greina sem góður kostur.
    Ein er sú stofnun á vegum utanrrn. þar sem langstærstur hluti samskiptaaðila er búsettur í Reykjaneskjördæmi en það er varnarmálaskrifstofan. Skrifstofan er nú til húsa í utanrrn. við Hverfisgötu í Reykjavík. Þangað þurfa allir að koma vilji þeir á annað borð ná tali af forstöðumönnum eða starfsfólki skrifstofunnar. Varnarmálaskrifstofan fjallar um mál er snerta framkvæmd varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Einnig lagaframkvæmd á varnarsvæðinu, þar á meðal lögreglumál, dómsmál, tollmál, póst- og símamál, radarstöðvamál og heilbrigðis - og félagsmál. Sérstök verkefni sem þessi skrifstofa hefur til umfjöllunar eru:
    1. Herfræðileg og hertæknileg málefni er lúta að upplýsingaöflun og rannsóknum, þannig að hægt sé hverju sinni að leggja hlutlægt mat á hernaðarstöðu landsins, varnarþörfina og fyrirkomulag varnanna.
    2. Þátttaka í starfi hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, samstarf við varnarliðið og yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins á Atlantshafi um gerð áætlana varðandi varnir Íslands. Samskipti við varnarmálaráðuneyti ríkja eftir ákvörðun utanrrh.
    3. Skýrslugjöf og ráðgjöf fyrir ríkisstjórn.
    4. Samstarf við almannavarnaráð og Landhelgisgæslu.
    5. Yfirstjórn ríkisstofnana er starfa á og eru í tengslum við varnarsvæðin og heyra undir utanrrh.
    6. Eftirlit með verktökum og þjónustuaðilum er starfa á varnarsvæðunum. Samskipti við nágrannasveitarfélög sem eru í nábýli varnarsvæðanna og stofnanir og aðila er hafa hagsmuna að gæta vegna veru varnarliðsins.
    Eins og þessi upptalning ber með sér eru verkefni skrifstofunnar fjölþætt. Starfsmannahald, samskipti við verktaka og nágrannasveitarfélög varnarsvæðanna fara að langmestu leyti fram á Suðurnesjum. Um það bil 1800 ársverk eru unnin á Keflavíkurflugvelli á vegum verktakafyrirtækja varnarliðsins, flugfélaga og ríkisstarfsmanna af íslenskum starfsmönnum. Svo viðamikil starfsemi erlendra og innlendra aðila kallar á mikil samskipti við fulltrúa varnarmálaskrifstofunnar sem er framvörður Íslendinga á varnarsvæðunum.
    Flutningur skrifstofunnar til Keflavíkur hefur stórsparnað í för með sér og þá sérstaklega fyrir Suðurnesjamenn. Mörg samstarfsverkefni eru t.d. í dag unnin á Suðurnesjum af sveitarfélögunum sjö, þ.e. hinum íslensku, og hinu áttunda sem er bandarískt. Þar skal nefna sameiginlega sorpeyðingu, skipulagsmál, heilbrigðismál, búfjárvörslu, almannavarnir, slökkviliðs - og sjúkraflutninga og mjög margt annað er heyrir til samreksturs sveitarfélaga á Íslandi. Á það skal einnig bent hér að Bandaríkjamenn sjá um allan rekstur og viðhald millilandaflugvallar Íslendinga, Keflavíkurflugvallar.
    Glataðar vinnustundir og ferðakostnaður þeirra aðila sem átt hafa viðskipti við þessa skrifstofu á undanförnum áratugum hefur verið ómældur og er mál að linni. Það hlýtur að vera metnaðarmál hverrar ríkisstjórnar, þrátt fyrir að hér sé um að ræða samskipti við erlenda aðila, að þeir flytji og dreifi valdinu og verkefnum ríkisins í sem flest kjördæmi.
    Starfsemi varnarmálaskrifstofunnar og þeirra sem þar starfa hafa í gegnum tíðina verið Suðurnesjamönnum yfirleitt vel þóknanleg. Við höfum átt mjög gott samstarf við þá starfsmenn sem þar starfa, bæði fyrrverandi og núverandi, og höfum ekkert annað en allt gott um þá að segja. Þetta fólk og starfsemi þessarar skrifstofu er sérstaklega velkomið til Keflavíkur og við mundum fagna því að sjá það gerast sem fyrst,
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.