Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það kom mér nokkuð á óvart að heyra að hv. þm. og núv. bæjarstjóri Keflvíkinga, Ellert Eiríksson, veit ekki hvar Varnarmálaskrifstofan er til húsa. Hún er ekki í aðalstöðvum utanrrn. við Hverfisgötu. Hún er í beitarhúsum við Skúlagötu.
    Í annan stað er álitamál um form þessarar tillögu, að Alþingi álykti að fela ríkisstjórn að flytja deild úr einhverju ráðuneyti milli staða. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands er ríkisstjórn ekki fjölskipað stjórnvald. Þessi mál heyra undir utanrrh. og það er praktískt úrlausnarefni hvar skrifstofum er fyrir komið, en ekki ákvörðunarefni ríkisstjórnar Íslands.
    Málið sjálft er út af fyrir sig athyglisvert. Það var fyrst tekið upp við utanrrh. af fyrrv. bæjarstjóra Keflavíkur, Guðfinni Sigurvinssyni, sem reyndar flutti fyrstur manna um það tillögu í bæjarstjórn Keflavíkur 18. sept. sl. En hann hafði hreyft þessu máli mun fyrr og það hefur verið rætt. Á það var þá bent að þetta skyldi tekið til velviljaðrar athugunar. Hægt væri að gera ýmislegt með litlum fyrirvara. Að öðru leyti yrði að undirbúa slíkt mál, m.a. við fjárlagagerð og ákvörðun fjárlaga. Jafnframt var bent á að fyrir dyrum stendur að Ratsjárstofnun setji upp bækistöðvar sínar á Suðurnesjum og rétt væri að íhuga frambúðarlausn með samnýtingu á húsnæði stofnunarinnar fyrir starfsemi bæði Ratsjárstofnunar og Varnarmálaskrifstofu.
    Því næst er á eftirfarandi að benda: Varnarmálaskrifstofan hefur skrifstofuhúsnæði á leigu í Ytri - Njarðvík sem nú er notað af ráðningarskrifstofu Varnarmálaskrifstofunnar. Varnarmálaskrifstofan er þegar með verulega starfsemi á svæðinu, svo sem ráðningarskrifstofu og kaupskrárnefnd. Síðan eru þessi áform uppi um flutning Ratsjárstofnunar svo allt er þetta nú á réttu róli.
    Í fyrri athugunum um þetta mál hafa verið settar fram tillögur um að gera þetta í áföngum, byrja á því að staðgengill skrifstofustjóra verði framvegis þrjá daga í viku á skrifstofu Varnarmálaskrifstofu í Njarðvík. Formaður kaupskrárnefndar verði þar áfram, en hann sinnir sem kunnugt er öllum kjaramálum, og almenn afgreiðsla skrifstofunnar yrði áfram opin alla virka daga í umsjá tveggja starfsmanna og varnarmálafulltrúi sæti svo á skrifstofunni tiltekinn dag. Þetta er unnt að gera og þetta verður gert mjög fljótlega. Framtíðarlausn tekur síðan nokkuð mið af því hvenær Ratsjárstofnun verður flutt í heilu lagi. Þetta er ekki stórt mál. Þetta er lítið mál, praktískt mál, var vel á veg komið fyrir, enda hefur það verið rætt við forsvarsmenn Keflavíkurkaupstaðar, fyrrv. bæjarstjóra, fyrir alllöngu síðan.