Flm. (Ellert Eiríksson) :
    Virðulegur forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Vesturl. hér áðan um þann tíma sem runninn er upp í alþjóðasamskiptum að herstöðvar séu að verða úreltar í veröldinni, þá vil ég taka undir með honum og fagna því ef það er tímanna tákn og þeir taka mark á því, leiðtogar risaveldanna, að Alþb. á Íslandi álykti ekki um það í fyrsta skipti í sinni sögu að herstöð skuli fara úr Keflavík og það sé grunnur fyrir því að þetta haldi áfram get ég fallist á að það sé hið besta mál. Hins vegar, því miður, líst mér ekki á það að ályktun Alþb., eða engin ályktun, verði þess valdandi að eftirlitsstöð NATO í Keflavík hætti starfsemi á næstu árum eða áratugum. Ég sé það ekki fyrir mér enn. En það má vel vera að mér skarpari menn sjái.
    Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir innkomu hér í þetta mál. Ég þakka honum fyrir að líta það sömu augum og ég að hér sé praktískt og gott mál á ferðinni. Það er hárrétt og skal ekki úr dregið að Guðfinnur Sigurvinsson, fyrrv. bæjarstjóri í Keflavík og núv. aðili að varnarmálanefnd utanrrn., hann situr í varnarmálanefnd, hafði rætt þetta áður við ráðherra og bæjarstjórn Keflavíkur, ekki Guðfinnur með leyfi, flutt um það tillögu, sem ég sendi hæstv. utanrrh., þess efnis að skora á ráðherrann að sjá um það að skrifstofan yrði flutt til Keflavíkur.
    Ég biðst velvirðingar á því að hafa ranglega staðsett þessa skrifstofu hér í höfuðborginni, að hún sé ekki á Hverfisgötunni. Ég hef komið í þetta ágæta hús við Skúlagötu og átt þar ágætis viðræður. En skrifstofan er á öðrum stað í Reykjavík. Það er hárrétt og ég tek að sjálfsögðu þeirri ábendingu.
    Ráðningarskrifstofan er búin að vera um langan aldur í Njarðvík, ráðningarskrifstofan sem sér um ráðningar til varnarliðsins. Það gleður mig að Ratsjárstofnun sé á leiðinni og það gleður mig sérstaklega að skrifstofustjóri Varnarmálaskrifstofunnar ætlar að hafa þriggja daga viðveru í viku á skrifstofunni í Njarðvík. Ég sé á þessu að þetta er allt hið besta mál og sýnilega skaðar ekki flutningur þáltill.