Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að það var hálfgerður sparðatíningur hjá hæstv. utanrrh. þegar hann var að toga til formlega hvernig tillagan er flutt. Ég vil benda honum á að það er alkunn regla á Alþingi Íslendinga að Alþingi ályktar að fela eða skora á ríkisstjórnir að gera hitt eða þetta. Þetta er venjan á Alþingi og veit ég ekki annað en hér liggi fyrir nokkrar ályktanir með svipuðum hætti og allmargar verið lagðar fram með svipuðum hætti síðan ég kom á þing. Það breytir því ekki að einstakir ráðherrar fara með sitt einskipaða vald, eins og hæstv. utanrrh. komst réttilega að orði. En þetta er auðvitað sparðatíningur og bar keim af því að hæstv. utanrrh. var að ýja að því að verið væri að taka þessi mál frá alþýðuflokksmönnum. Þeir hefðu einir hugsað um þessi mál og gert eitthvað í þeim. Ekki efast ég um að hæstv. utanrrh. er sammála þessu máli, eins og kom hér fram, og vill alla góða hluti varðandi utanríkismál.
    Hins vegar kom hv. 4. þm. Vesturl. hér upp og hélt undarlega ræðu, enda ekki nema von þegar komið hefur í ljós að Alþb. er búið að tapa herstöðinni út úr sinni ályktun í fyrsta skipti, eins og hv. þm. sagði, og er horfið frá því að tala nokkuð um herstöðina því að það sjá allir að hún hefur orðið okkur til bóta. Eins og hv. þm. benti hér réttilega á hefur það náttúrlega kostað stórfé að reka Keflavíkurflugvöll og við höfum ekki þurft að inna þær greiðslur af hendi heldur hafa þær verið greiddar úr sameiginlegum sjóðum Bandaríkjanna og NATO. Ég varpa þessu fram í þessari umræðu því að ég tel að tími sé kominn til að menn viti hverjir borga brúsann og hvaðan fjármagnið kemur.
    Hitt er annað mál að það verður erfitt fyrir Alþb. að lifa af þennan vetur þegar félagarnir í austri eru farnir og félagarnir um alla Evrópu eru farnir og þeir standa hér einir eftir og meira að segja án herstöðvarinnar í ályktun sinni.