Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Flm. (Hreggviður Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Hér liggur frammi tillaga til þingsályktunar um tvöföldun Reykjanesbrautar. Flutningsmenn eru auk mín Ingi Björn Albertsson og Ellert Eiríksson. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta hefja nú þegar undirbúning að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Skal gert ráð fyrir því að lögð verði önnur akbraut við hliðina á hinni gömlu þannig að fullkomin hraðbraut með algerlega aðskildum akstursstefnum og tveimur akreinum í hvora átt tengi saman þessa tvo staði. Stefnt verði að því að ljúka verkinu fyrir árslok 1993. Fjármagna skal verkið með sama hætti og veggöngin í Ólafsfjarðarmúla.``
    Í greinargerð segir:
    Tillaga þessi var fyrst flutt af Kolbrúnu Jónsdóttur og Júlíusi Sólnes á þinginu 1987 -- 1988, af Júlíusi Sólnes og Hreggviði Jónssyni á þinginu 1988 -- 1989 og af Hreggviði Jónssyni og Inga Birni Albertssyni á síðasta þingi. Tillagan er nú flutt í fjórða sinn því að það er mat flutningsmanna að hér sé um mjög brýnt mál að ræða.
    Reykjanesbrautin frá Hafnarfirði til Keflavíkur er fyrsti vegarkafli þjóðvegakerfisins á Íslandi með bundnu slitlagi. Lagning vegarins á árunum 1963 og 1965 markaði tímamót í sögu vegagerðar á Íslandi. Ekki mátti draga það öllu lengur að leggja fullkominn veg milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur. Þegar fyrir 20 árum var umferðin á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins orðin svo mikil að malarvegurinn gamli var orðinn ófullnægjandi.
    Með tilkomu nýja vegarins varð mikil breyting til batnaðar. Flutningsgeta jókst gífurlega og öll umferð bíla milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins varð miklu greiðfærari. Þetta olli straumhvörfum í öllum samskiptum milli íbúa þessara svæða og átti sinn þátt í því að efla atvinnulíf á Suðurnesjum. Um svipað leyti og nýi vegurinn var tekinn í notkun var öllu millilandaflugi beint til Keflavíkurflugvallar. Hafa því allir flugfarþegar, sem koma og fara frá Íslandi, átt leið um Reykjanesbrautina. Reykjanesbrautin er því þjóðvegur allra landsmanna.
    Umferð um Reykjanesbrautina hefur aukist jafnt og þétt, bæði fólksflutningar og vöruflutningar. Í vaxandi mæli eiga vöruflutningar til landsins með flugi þátt í því. Samstarf atvinnufyrirtækja á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig vaxið og það hefur í för með sér aukna umferð. Bættar samgöngur eru höfuðforsenda þess að tengja atvinnulíf þessara tveggja landsvæða saman, þannig að Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið geti orðið að einu og sama atvinnusvæði. Þetta skiptir höfuðmáli í sambandi við byggðaþróun á Suðurnesjum og möguleika til þess að nýta til fullnustu þá kosti sem hin nýja Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur upp á að bjóða. Hefur verið talað um tollfrjáls atvinnusvæði í námunda við flugstöðina og eins um byggingu miðstöðvar fyrir erlend viðskipti. Atvinnulíf hefur átt erfitt uppdráttar seinni árin á Suðurnesjum. Mikill samdráttur hefur verið í útgerð og iðnaður og verslun ekki styrkst að sama skapi. Með tilkomu nýs álvers á Keilisnesi er mikilvægi Reykjanesbrautarinnar enn meira og umferðarþunginn mun aukast. Tvöföldun Reykjanesbrautar mundi og gjörbreyta allri aðstöðu fyrir Suðurnesjamenn og er næg réttlæting fyrir því að hraða þessari framkvæmd.
    Reykjanesbrautin í núverandi mynd fullnægir hvergi nærri þeim kröfum sem verður að gera til höfuðsamgönguæðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Akstursskilyrði á Reykjanesbrautinni eru oft mjög slæm. Í rigningu og þoku eru umferðaróhöpp tíð. Á veturna myndast oft mikil hálka á örfáum mínútum. Sérstök hætta er á Reykjanesbrautinni vegna hinna snöggu veðurfarsbreytinga sem gera það að verkum að ökumenn eiga mjög erfitt með að átta sig á breyttum aðstæðum. Þá er og orðið brýnt að lýsa þessa fjölförnu þjóðleið. Umferðarslys orsakast þá af framúrakstri og útafakstri vegna þess að á veginum er umferð í báðar áttir. Með vaxandi umferð hefur umferðarslysum farið mjög fjölgandi. Á þessum 50 km af 8.300 km þjóðvegakerfi landsins verða 12,3% allra umferðarslysa.
    Á fskj. I er birt mynd er sýnir slys á Reykjanesbraut á árunum 1970 -- 1990 og í þeim dálkum sést glögglega að umferðin er nú komin að þeim mörkum sem talið er hámark án þess að brautin sé tvöfölduð. En 1988 var mesti umferðarþungi 8632 bílar og 1989 7806.
    Eftir nokkra stöðnun á árunum 1978 -- 1982 fer því umferð á Reykjanesbraut greinilega ört vaxandi. Að byggja fullkomna hraðbraut með aðskildum akstursstefnum er nú jafnnauðsynlegt og það var fyrir 20 árum að leggja veg með bundnu slitlagi milli Keflavíkur og Reykjavíkur.
    Sérfræðingar Vegagerðarinnar telja að þegar mesta umferð á sólarhring sé komin í 8.000 -- 10.000 bifreiðar þurfi að skilja akstursstefnur að. Í september 1988 mældist mesta umferð á sólarhring 8.632 bifreiðar. Ekki er ólíklegt að talan verði komin upp í 10.000 bifreiðar á næstu árum, enda þekkja þeir sem þurfa að fara um Reykjanesbraut endalausar lestir bifreiða alla leið frá Keflavík til Hafnarfjarðar eða öfugt á mestu annatímum. Sem fyrst þarf því að fullgera aðra vegbraut og gera nauðsynleg umferðarmannvirki þannig úr garði að nýja flugstöðin við Keflavík og höfuðborgarsvæðið tengist með hraðbraut samkvæmt bestu erlendum fyrirmyndum, hraðbraut sem þolir mikla umferð og mikinn aksturshraða við hagstæð skilyrði. Það skref, sem yrði stigið með því að tvöfalda Reykjanesbrautina, er ekki lokaskref. Gera verður ráð fyrir því að stórauknar samgöngur og vöruflutningar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar muni eflaust áður en langt um líður kalla á enn fullkomnari samgöngur. Þá mun umferðin aukast enn frekar með tilkomu álvers á Keilisnesi.
    Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins er talið að lagning nýrrar akbrautar við hliðina á hinni gömlu með nauðsynlegum lagfæringum og ráðstöfunum vegna flokkunar vegarins sem hraðbrautar kosti

um 1,2 -- 1,4 milljarða kr. en tvö síðustu ár hefur ríkisstjórn Íslands tekið af lögbundnu vegafé sömu upphæð, eða um 1,2 milljarða kr., sem hefði nægt til þessarar vegalagningar.
    Með því að bjóða verkið út til stórra verktaka, jafnt erlendra sem innlendra, má eflaust lækka þennan kostnað verulega. Til samanburðar má geta þess að veggöngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla munu kosta nálægt 1,2 milljörðum króna. Veggöngin eru um 3.400 m með vegskálum. Um Ólafsfjarðarmúla fara um 250 bílar á dag þegar umferð er mest, en íbúar þar eru um 1.150 manns. Á Suðurnesjum búa hins vegar um 18.000 manns og 130.503 erlendir ferðamenn fóru til og frá Keflavíkurflugvelli árið 1989 og 142.579 Íslendingar eða í allt 273.082 ferðamenn sem fara fram og til baka eftir Keflavíkurveginum. Áætla má að umferðin verði fjótlega orðin 10.000 bílar á dag þegar mest er, en er nú um 8.000 bílar.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri en tel að þetta mál sé bæði brýnt og mjög mikilvægt, ekki hvað síst þegar litið er til þess að þarna hafa orðið mjög alvarleg umferðarslys og mörg banaslys hafa átt sér stað á þessum vegi. Það er því brýnt að draga úr þeirri slysahættu og koma í veg fyrir það mikla tjón sem hefur orðið vegna mikillar umferðar.
    Ég legg að lokum til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.