Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð hér inn í þessa umræðu. Það má segja að það hafi komið hér fram hjá hv. 4. og 8. þm. Reykn. það sem ég ætlaði nú að leggja megináherslu á.
    Fyrst það að hér er auðvitað mjög stórt og mikilvægt mál til umræðu, þ.e. tvöföldun Reykjanesbrautar, en vegna þess að mitt nafn var nefnt hjá hv. 4. þm. Reykn. og vakin athygli á því að ég væri ekki einn af flm. þessarar tillögu þótti mér nauðsynlegt að láta það koma fram að það er ekki vegna þess að ég hafi ekki áhuga á þessu máli heldur er það nú þvert á móti, en af einhverjum ástæðum var ekki leitað til mín að vera meðflm. Mér dettur ekki í hug að það hafi verið gert af vondum hug hjá hv. 11. þm. Reykn. Ástæðan hlýtur að vera einhver önnur.
    Það kemur náttúrlega skýrt fram í upphafi grg. þáltill. hvernig hún er til komin upphaflega þegar hún er flutt fyrst á þinginu 1987 -- 1988, ekki af þingmönnum Sjálfstfl., og ætla ég ekki að rekja það neitt frekar. Það er alveg ástæðulaust að gera það.
    En ég vildi aðeins taka undir það sem hér hefur komið fram um samvinnu þingmanna um málefni sem snúa að kjördæmum þeirra. Það er nú einu sinni svo að þingmenn hafa miklar skyldur við kjördæmi sín, eins og við vitum öll, og þarf ekki að segja þingmönnum það, en það þarf kannski stundum að koma því á framfæri út fyrir veggi Alþingis. Ég verð að lýsa því yfir að samstarf okkar þingmanna í Reykjaneskjördæmi hefur verið með eindæmum gott um öll málefni kjördæmisins. Við erum vön því að vinna saman og leita eftir góðu samstarfi ef um slík mál er að ræða. Þannig höfum við unnið í samgöngu - og vegamálum sem, eins og hér hefur komið fram, er stór þáttur, mikilvægur og fjárfrekur, sem snýr að þessu kjördæmi sem liggur í gegnum og er á höfuðborgarsvæðinu, getum við sagt, og tengist höfuðborginni þar sem umferðarþunginn er svo gífurlegur, bæði innan borgarmarkanna og kringum borgarmörkin, að á sumum köflum aka, ef ég man rétt, líklega 60 þús. bílar á dag. Það segir sig sjálft að það hlýtur að þurfa að aðlaga skipulag samgangna og uppbyggingu mannvirkja í vegagerð með tilliti til þessa og þetta kostar mikið fjármagn. Og mikið fjármagn hefur farið í Reykjaneskjördæmi einmitt til þess að reyna að bregðast við þessum breyttu aðstæðum. Þetta þekkja þeir sem aka um Reykjanesbrautina eða til Suðurnesja í gegnum Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð og áfram suður úr. Þarna hefur mikið verið unnið á undanförnum árum og miklu meira þarf til. Reykjanesbrautin er einn af þeim þáttum sem við höfum verið að fjalla um og þessi greinargerð, sem Vegagerðin samdi að beiðni þingmannanna, er einmitt um það mál sem hér er verið að fjalla um, vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að það kemur að því að það verði að sinna þessu verkefni. Og nú hefur það gerst að allar líkur eru á því að álverið verði reist á Keilisnesi og auðvitað er það einn þáttur sem gerir það að verkum að enn brýnna verður að flýta verkefninu.

    Ég sé að hv. 4. þm. Reykn. er ekki hérna í salnum en ég ætlaði svo sannarlega að bera fram örlítið þakkarávarp til hans fyrir hvað hann lét vinsamleg orð falla í minn garð og lét mig njóta sannmælis í þeim efnum að ég væri áhugamanneskja í þingmannahópnum um umferðaröryggismál. Ég vil staðfesta að það er rétt hjá honum og ég þakka honum fyrir að hafa látið það koma hér fram. Það hefur verið mitt baráttumál hér á Alþingi, eins og innan þingmannahópsins, að reyna að beita mér fyrir úrbótum miðað við aðstæður á hverjum tíma. Þegar fjármagnið er takmarkað að reyna þá að gera það sem kemur fyrst að notum, ef hægt er, t.d. varðandi lýsingu vega, vegamóta og annars slíks sem kostar kannski minna en mikil og stór mannvirki í vegagerð. Þetta höfum við lagt áherslu á. Við höfum verið sammála um þetta allir þingmenn kjördæmisins og unnið að þessu og ég tel að töluvert hafi áunnist og aukið umferðaröryggið að því leyti.
    Þetta vildi ég láta koma fram, hæstv. forseti, vegna þess að þegar málið kom upp og nafnið mitt var nefnt sat ég í forsetastóli og hélt að ég mundi ekki fá tækifæri til að taka til máls. Nú kom það upp í hendurnar á mér og mér þótti því rétt að láta þetta sjónarmið mitt koma hér fram um leið og ég vil ítreka það að ég held að við, allir þingmenn kjördæmisins, gerum okkur fyllilega grein fyrir mikilvægi málsins og munum örugglega vinna sameiginlega að því í náinni framtíð.