Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að þessi tillaga, ef samþykkt verður, geti gert verulegt gagn. Ég þekki til þess, t.d. í Norður - Þingeyjarsýslu, að þar hafa kvenfélögin staðið fyrir námskeiðahaldi einmitt til þess að reyna að kenna og halda við þessum gamla iðnaði okkar með ágætis árangri. Ég á t.d. muni frá þessum konum sem ég tel að mjög gaman sé að eiga og þær hafi fulla sæmd af að hafa gert.
    Það er nú svo með þetta eins og annað að við þurfum öll að læra og við þurfum að fá tilsögn. Það er líklegt að þetta geti orðið einmitt til þess að auka tekjur þeirra heimila sem hafa of litlar tekjur vegna þess að aðstaðan er orðin þannig að þau hafa ekki rétt til þess að framleiða til þess að það dugi fyrir framfærslu fjölskyldunnar. Hins vegar er ég í vafa um að það sé endilega rétt að það sé forsrh. að stofna þetta embætti, en auðvitað þarf ríkisstjórn og Alþingi að styðja að því. En ég varpa því fram til umhugsunar, ég ætla ekki að koma með neina tillögu, hvort ekki væri eðlilegra að hafa þetta embætti á vegum Búnaðarfélags Íslands, vegna þess að þá hefði þessi fulltrúi, eða fulltrúar, ég held að einn sé ekki nóg ef þetta ætti að koma að gagni, aðstoð þar að ýmsu leyti og hægt að ná sambandi við þær --- ég segi þær því að ég álít að það verði fyrst og fremst konur sem muni sinna þessu verki. Það er reynsla fyrir þessu. Það hefur orðið til þess að ýmsar, sem annars hefðu farið úr sveit, hafa fengið þarna atvinnu og þetta er ein leið til þess að afla tekna og halda við okkar menningararfleifð.