Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð eins og fleiri hér að lýsa undrun minni á reiðilestri hv. 13. þm. Reykv. og því sem hv. þm. telur að hafi verið framlag Kvennalistans og varða menningu kvenna. Ekkert af því sem þar kom fram er nálægt því sem ég þekki Kvennalistann af frá byrjun þess að Kvennalistinn var stofnaður. Hér hafa þegar verið nokkrar leiðréttingar á gerðar og ég ætla aðeins að geta eins í viðbót.
    Við höfum beitt okkur fyrir því og alltaf haldið því fram að konur jafnt sem karlar, fjölskyldurnar í landinu, foreldrarnir og börnin, eigi val, eigi að geta framfleytt sér án óhóflegs vinnuframlags. Þar vil ég sérstaklega nefna það að til þess að svo sé og þetta val sé fyrir hendi þarf að hverfa frá þeirri láglaunastefnu sem er í landinu og tryggja fjölskyldum eðlilega framfærslu. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Hagstofu Íslands, ,,Lífskjör og lífshættir á Íslandi``, er tafla á bls. 64. Þar eru þeir spurðir sem vinna lengri vinnudag en þeir kjósa hver sé ástæðan fyrir því að vinnudagur þeirra sé svo langur og lengri en æskilegt væri. Það eru fyrst og fremst fjárhagsástæður sem valda því að konur vinna lengri vinnudag en þær vilja. Það er langalgengasta ástæðan sem þær gefa upp, 48,3% kvenna gefa upp að fjárhagurinn sé langhelsta ástæðan. Aftur á móti horfir málið öðruvísi við hjá karlmönnum. Þeir telja að langi vinnudagurinn þeirra sé nauðsynlegur vegna starfs þeirra. Ég vil bara benda á þennan áherslumun.
    Við kvennalistakonur höfum lengi bent á það að ábyrgðin á fjölskyldunni hvílir fyrst og fremst á konum. Við viljum beita okkur og leggja okkar af mörkum til þess að öllum sé ljóst að barneignir og fjölskyldumál eigi að vera ábyrgð allra og þá ábyrgð ber að axla m.a. með því að greiða betri laun fyrir þau störf sem unnin eru í þjóðfélaginu. Og þá erum við komin að því hvernig störf eru metin.
    Hefðbundin kvennastörf sem kvennalistakonur hafa mjög haldið á lofti eru yfirleitt metin sem láglaunastörf. Þau eru lítils metin. Menning kvenna, hannyrðir þar á meðal, og önnur listsköpun þykir lítilvæg þegar verið er að meta starf til fjár. Þetta er atriði sem við höfum verið óþreytandi við að benda á að þurfi að lagfæra og leiðrétta. Það er okkar von að konur jafnt sem karlar eigi val í framtíðinni hvernig þau hagi vinnudegi sínum og hvaða störf þau kjósi og eigi það val að geta verið með börnum sínum.
    Þá vil ég aðeins víkja að því sem hér kom fram áður í umræðunni um að hvaða leyti minjagripagerð og hefðbundin störf kvenna tengjast. Sú tenging er mikilvæg ef vel er á málum haldið. Enn er til menningararfleifð sem er fyrst og fremst byggð á handverki kvenna og á henni væri hægt að byggja góða minjagripagerð og ekki veitir af. Um landið ferðast gestir, íslenskir og erlendir, sem eiga úr litlu að velja þegar minjagripir eru skoðaðir. Þar er aðeins fjöldaframleiðsla en lítið um góða gripi. Það eru ekki allir sem geta eða vilja kaupa verk eftir listamenn sem kannski

eru aðeins framleidd í einu eintaki en vilja vissulega fá fallega minjagripi. Þannig að listiðn og list eru ekki andstæður heldur eiga að vera saman. Og það á að hlúa að þessu hvoru tveggja.
    Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa komið í Halldórustofu á Blönduósi en þar er að sjá mikið af fallegum listaverkum eftir konur, listiðnaði sem varð til, ekki síst vegna þess að konur víða um land nutu góðrar ráðgjafar í heimilisiðnaði. Ég held að hver sá sem heimsækti þá stofu mundi vera þess fullviss að það er hægt að skapa fallegan listiðnað á Íslandi á gamalli hefð, listiðnað sem mundi vera öllum til ánægju og landinu til sóma. Þetta er það sem sú till. sem hér liggur fyrir tengist verulega. Við eigum fordæmi sem lofa góðu en við megum ekki glata okkar menningararfi og því sem konur hafa verið að gera.