Jarðgangagerð á Austurlandi
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Flm. (Kristinn Pétursson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. um stefnumörkun í jarðgangagerð á Austurlandi sem hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta nú þegar undirbúa heildarútboð jarðgangaframkvæmda á Austurlandi. Skal undirbúningur útboðsins fela í sér eftirfarandi meginverkefni:
    1. Hraða jarðgangarannsóknum og hönnun þeirra á Austurlandi.
    2. Stefna að alþjóðlegu útboði jarðgangaframkvæmda á Austurlandi þar sem nauðsynlegustu jarðgöng verði boðin út í einu heildarútboði. Fjármögnun til 40 ára með hagstæðu láni verði skilyrt innifalin í útboðinu, afborgunarlaust fyrstu sjö árin eftir afhendingu jarðganganna.
    3. Fela Iðntæknistofnun Íslands að meta eftirtalin atriði: a. Aukna framleiðni og afkomubata fyrirtækja með tilkomu jarðganga. b. Áhrif til lækkunar vöruverðs vegna minnkandi lagerhalds verslunar og aukinnar samkeppni. c. Aukna verðmætasköpun með tilkomu fiskmarkaðar á Austurlandi og aukið samstarf og sérhæfingu fiskvinnslufyrirtækja. d. Sparnað þjóðarinnar vegna minni snjómoksturs. e. Meta heildaráhrif þessara samgöngubóta í bættum lífskjörum og sterkari samkeppnisstöðu fólks og fyrirtækja. f. Sparnað vegna minni fjárfestingar opinberra aðila og bættrar rekstrarstöðu sveitarfélaga með auknu samstarfi þessara aðila. g. Meta hvort gjaldtaka ætti að fara fram af umferð um jarðgöngin og þá með hvaða hætti.
    4. Skila Alþingi skýrslu um arðsemismat og tilhögun heildarútboðs jarðganga á Austurlandi þar sem stefnt verði að útboði á síðari hluta framkvæmdartíma aðrennslisganga að stöðvarhúsi Fljótsdalsvirkjunar, síðari hluta árs 1993.``
    Bættar samgöngur eru besta leiðin til þess að treysta byggð og stuðla að bættri samkeppnistöðu fyrirtækja á Austurlandi.
    Eðlilegt er að Alþingi marki skýra stefnu í samgöngumálum og hvernig bættum samgöngum verður komið í framkvæmd. Ekki er nóg að tala um þessa hluti heldur ber að marka skýra stefnu til lengri tíma, þannig að strax í dag geti einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkisvaldið stefnt markvisst að langtímamarkmiðum í bættum samgöngum.
    Íslenska þjóðin hefur ekki efni á öðru en að fjárfesting í samgöngumannvirkjum taki mið af langtímasjónarmiðum svo að ekki sé verið að kasta fjármunum í skammtímalausnir sem nýtast ekki til lengri tíma.
    Eftirfarandi atriði eru mjög mikilvæg varðandi einstaka liði:
    1. Að jarðgangarannsóknum verði hraðað þannig að stefnumörkun til lengri tíma geti komist í framkvæmd eins fljótt og unnt er.
    2. Með því að stefna að alþjóðlegu heildarútboði jarðganga á Austurlandi má koma þessu mikilvæga máli í framkvæmd með eins ódýrum hætti og mögulegt er. Að hafa fjármögnun skilyrt innifalda í útboðinu tryggir að fjármögnun verði með hagkvæmustum

kjörum sem mögulegt er að fá.
    3. Réttur aðili til þess að meta arðsemisliði, sparnað og hagkvæmni af framkvæmd sem þessari er Iðntæknistofnun Íslands. Stofnunin hefur sannað gildi sitt í framleiðni - og arðsemisrannsóknum. Mjög mikilvægt er að meta arðsemisgildi jarðgangaframkvæmda út frá öllum þeim jákvæðu kostum sem slík samgöngubót hefur. Ber þar hæst möguleika sjávarútvegsfyrirtækja til þess að auka sérhæfingu, samstarf og skapa eigin fiskmarkað á Austurlandi þannig að þessum fyrirtækjum gefist kostur á að kaupa hráefni sem ella færi til vinnslu á erlendum mörkuðum.
    Auknir samstarfsmöguleikar sveitarfélaga eru svo miklir í þessu sambandi að rétt er að láta stofnun eins og Iðntæknistofnun meta gildi slíks samstarfs auk annarra þátta sem þeirri stofnun þætti rétt að vekja athygli á.
    4. Brýna nauðsyn ber til að skila Alþingi skýrslu um arðsemismat og tilhögun heildarútboðs jarðganga á Austurlandi á síðari hluta framkvæmdartíma aðrennslisganga að stöðvarhúsi Fljótsdalsvirkjunar. Þessi tímasetning er mjög mikilvæg þar sem alþjóðlegt útboð tæki mið af sterkri samkeppnisstöðu væntanlegs verktaka við aðrennslisgöng Fljótsdalsvirkjunar. Þessi málsmeðferð á þannig að tryggja það að hagkvæm tilboð berist í heildarútboð jarðganga á Austurlandi.
    Austfirðir eru góður valkostur fyrir stóriðju með tilliti til stuttra siglingaleiða til meginlandsins og nálægðar hagkvæmra virkjunarkosta. Sú staða verður enn þá sterkari verði mörkuð skýr stefna í bættum samgöngum. Öll þjóðin hefur hag af því að samkeppnisstaða Austurlands á alþjóðlegan mælikvarða batni við þá stefnumörkun sem hér er lagt til að verði samþykkt. Hér er því um málefni að ræða sem er eitt af brýnustu hagsmunamálum Austfirðinga og þjóðarinnar allrar.
    Hæstv. forseti. Ég vil minna sérstaklega á í sambandi við þessa þáltill. að hagur þjóðarinnar vænkast mikið vegna aukinnar framleiðni fyrirtækja og fleiri atriða sem Iðntæknistofnun Íslands er ætlað að meta fáist þessi tillaga samþykkt. Þessi aukna framleiðni atvinnulífs og sveitarfélaga er ekki inni í núverandi arðsemisútreikningum á bættum samgöngum. Það er mjög miður að svo er ekki, en þetta er staðreynd. Arðsemi þjóðarinnar af bættum samgöngum er því mun meiri en hingað til hefur verið talið og hingað til hefur hún verið talin með því besta sem við getum sett fjármagn í. Því er brýn nauðsyn að hér komi til nýjar áherslur. Ég fullyrði það t.d. að fjárfesting í drulluleðju stenst ekki alþjóðlega viðurkenndar verklýsingar um mannvirkjagerð og þannig séð er oft verið að kasta fjármunum á glæ þegar verið er að fjárfesta í óvaranlegri vegagerð. Ég tel að svona meðferð á fjármunum gangi ekki. Varanleiki fjárfestinga í samgöngumannvirkjum verður að standast alþjóðlega viðurkenndar verklýsingar. Ég óska þess að hv. alþm. og hæstv. ráðherrar sem ábyrgð bera á þessum málum hugsi þessi málefni upp á nýtt og endurmeti þau vinnubrögð að vera að sletta fjármunum í drullumallvegagerð eftir handahófskenndum ákvörðunum, teknum í tímahraki oft og tíðum.
    Sl. fimmtudag urðu hér ágætar umræður um samgöngumál. M.a. var minnst á það að Alþjóðabankinn hefði lánað fjármagn í vegaframkvæmdir hér á landi. Það var Keflavíkurvegurinn svokallaði eða Reykjanesbraut og vegurinn frá Reykjavík til Selfoss veit ég líka að var fjármagnaður af Alþjóðabankanum. Í báðum tilfellum er mér kunnugt um það að verkið varð að vinna eftir alþjóðlega viðurkenndum verklýsingum. Skýringin sem einu sinni var gefin á þessu var sú að þeir sem lánuðu peningana sögðust ekki ætla að lána fjármagn aftur eftir tíu ár til þess að byggja nýjan veg vegna þess að menn hefðu gert þennan veg svo illa tíu árum áður.
    Ég vil í þessu sambandi, hæstv. forseti, koma inn á málefni sem er náskylt bættum samgöngum, sérstaklega á Austur- og Vesturlandi. Ég minni á að viðræður standa yfir við EFTA en því miður ekki tvíhiða viðræður við Evrópubandalagið eins og við sjálfstæðismenn höfum margítrekað. Ég er hér með tölur um samanburð á verði á breskum þorskflakamarkaði í síðustu viku, ég ítreka, þorskflakamarkaði, en vegna 18% tolls á ferskum þorskflökum höfum við hingað til ekki getað nýtt þann markað. Ég tel að okkar framtíðarsýn eigi að vera sú að við fljúgum með fersk flök víðs vegar um Evrópu þegar við höfum náð að semja um niðurfellingu þessara tolla. Þetta er náskylt bættum samgöngum. Við Íslendingar flytjum líklega út í ár um 100 þús. tonn af bolfiski og þar af fara um 20 þús. tonn frá Austurlandi, áætlað á þessu ári, á erlenda markaðinn. Ég upplýsi hins vegar hér að í síðustu viku, á miðvikudaginn var, nánar tiltekið, var meðalverð á ferskum þorskflökum með roði 421 kr. á sama tíma og verð á frosnum þorskflökum frá frystitogurum var 320 kr. Það hefur hingað til verið talið eitt af því betra sem hægt er að gera við íslenskan þorsk. Verð á landfrystum roðflökum af sömu tegund er 270 kr. Við sjáum verðmuninn því verðið er hér 421 kr., 320 kr. og 270 kr.
    Hæstv. forseti. Mín framtíðarsýn að bættri nýtingu auðlindar okkar, fiskstofnanna, er sú að strax að lokinni margumræddri samningagerð við EFTA eða Evrópubandalagið munum við nýta okkur ferskflakamarkaðinn í allri Evrópu. Við munum senda fersk flök á þann markað með flugvélum og auka þannig okkar þjóðartekjur verulega. Tekjur sveitarfélaga mundu líka aukast, atvinna mundi aukast og afkoma fyrirtækja batna. Hvorki ríkissjóður Íslands né einstök sveitarfélög fá tekjur af vinnu sem unnin er í erlendum þjóðfélögum. Og við skulum ekki gleyma margfeldisáhrifunum, svo sem ávinningi íslenskra iðnfyrirtækja sem hafa getið sér gott orð í smíði rafeindavoga, nýjum vinnslulínum og öðrum tæknibúnaði og framförum í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Allt þetta samofið og margfeldisáhrif þess að vinna auðlindir okkar hér á landi getur aukið tekjur þjóðarinnar og bætt kjör landsmanna.
    Ég verð að minnast á þetta hér í þessari umræðu, hæstv. forseti, um jarðgöng, vegna þess að það er hlutverk og skylda okkar alþingismanna að hafa heildaryfirsýn yfir hagsmuni íslensku þjóðarinnar en ekki bara að gefa í skóinn fyrir jólin eins og sumir virðast stundum halda. Þetta er ekki sagt neinum til hnjóðs heldur til að minna á það að samningaviðræður um margnefnda tolla eru hafnar og markmiðið er að ná árangri í þeim. Ég tel því að hægri höndin verði að vera meðvituð um hvað sú vinstri er að gera því þegar þessir samningar hafa náðst, um niðurfellingu tolla, verður samgöngukerfið á Austurlandi, Vestfjörðum og víðar á landinu að hafa tekið breytingum þannig að við hittum í mark, bæði með samningunum og samgöngukerfinu. Það er lágmarkskrafa að heildarstefna og heildaryfirsýn sé alla vega þannig að Austfirðir múrist ekki inni, ef þannig mætti orða það, og við búum þannig til vandamál vegna fyrirhyggjuleysis.
    Hæstv. forseti. Sú framtíðarsýn sem ég hef dregið hér upp um samgöngumál er nauðsynleg því spyrja má: Hvar erum við og hvert ætlum við? Við leysum ekki vandamál þjóðarinnar nema með framsýni og heildaryfirsýn. Í reynd má líkja þessari stefnumörkun í jarðgangagerð við að setja flæðilínu í frystihús. Afkoma fyrirtækisins batnar með nýrri og varanlegri fjárfestingu en eldri fjárfesting er lögð til hliðar. Það skiptir ekki máli hvort það eru fleiri núll á bak við dæmið. Lögmálið er það sama. Stofnkostnaður er að vísu hár í jarðgöngum, en reksturskostnaður er mjög lágur og fjárfestingin í þessu tilfelli endist í mörg hundruð ár.
    Nýlegt dæmi um stefnumörkun með fjárfestingu er kaup Flugleiða á nýjum flugvélum. Ég tel að líkja megi þessu saman. Stofnkostnaður er hár, reksturskostnaður lækkar verulega og alþjóðleg lánastofnun samþykkti aðgerðina með fjármögnun sinni. Lántaka til jarðgangagerðar er réttlætanleg vegna þess að mannvirki sem eign stendur á móti lántökunni. Það er því ekki nóg að segja að erlendar skuldir þjóðarinnar aukist vegna þess að eign þjóðarinnar eykst um leið. Það er rétt að hv. alþm. hafi það í huga. Gjaldtaka mundi væntanlega verða í göngum eins og þessum og engan hef ég hitt sem sér eftir því að borga gjald í Akraborgina svo ég taki dæmi. Þó hún sé ekki jarðgöng þá er hún samgöngubót sem fólk kýs að nota sjálfviljugt og borgar fyrir það. Fjárfestingin skilar arði til þess að borga lántökuna. Að vísu getur það tekið lengri tíma en 40 ár, en í mínum huga er það allt í lagi vegna þess að mannvirkið stendur um ókomin ár og skilar þjóðinni arði til þess að borga niður væntanlegt lán.
    Við ættum líka að hugleiða stofnun sérstaks samgöngumannvirkjasjóðs og þá í samstarfi við t.d. Alþjóðabankann. Hlutverk slíks sjóðs gæti verið að innheimta gjald af umferð um jarðgöng og önnur sérstök samgöngumannvirki, t.d. með sérstökum vegkortum eða jarðgangakortum. Á tölvuöld er slíkt mögulegt, jafnmögulegt og að komast inn í bílastæði hv. alþm. Einnig gæti slíkur sjóður innheimt alla eyrnamerkta tekjustofna til vegagerðar, eins og bensíngjald, þungaskatt o.fl., og skilað þeim fjármunum á réttan stað og dregið þannig úr sukki og stefnuleysi í ríkisfjármálum en við höfum orðið vitni að því að eyrnamerktir tekjustofnar Vegagerðarinnar séu notaðir til þess að fjármagna halla ríkissjóðs.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér lýst þeirri hugsun og þeirri framtíðarsýn sem ég sé með þeirri stefnumörkun sem hér hefur verið lýst. Ég sleppi því að tala um byggðastefnu og félagsleg sjónarmið vegna þess að ég tel það allt saman innifalið í þeirri mynd sem ég hef hér dregið upp.
    Ég vil svo leyfa mér, vegna mikils annríkis hv. fjvn., sem stundum fær tillögur sem þessar, að leggja til við hæstv. forseta að hv. allshn. fái þetta mál til frekari umfjöllunar.