Jarðgangagerð á Austurlandi
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna orða hv. 4. þm. Austurl. um fjármögnun til vegagerðar. Ég hef enga ástæðu til þess að breyta orðalagi mínu í þeim efnum. Málið er einfaldlega það að við höfum skorið niður fjármagn til vegagerðar. Það fjármagn hefur væntanlega verið notað einhvers staðar annars staðar í ríkiskerfinu, ef það hefur verið innheimt. Ef það hefur ekki verið innheimt þá þarf að auka álögur á þjóðina og innheimta þetta fé. Þetta er hinn einfaldi sannleikur þessa máls. Menn geta aldrei slitið hvorki vegaframkvæmdir eða annað út úr heildarmynd fjármála ríkissjóðs. Peningarnir verða ekki notaðir nema einu sinni. Þeir peningar, sem er ekki skilað til vegamála, eru notaðir einhvers staðar annars staðar. Ef á að skila þeim til vegamála þarf væntanlega að innheimta fé í þau verkefni sem þessu fé hefur verið varið til. Menn tala oft um ríkissjóð, og hv. þm. tala oft þannig, eins og einhverja hít, eitthvert svart op. En þessu fjármagni er varið til ýmissa hluta og menn skulu bara gera sér grein fyrir því. Og það þarf annað tveggja að skera þá þau verkefni niður eða auka álögur á þjóðina. Það er einfaldlega það sem ég átti við.